• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Morrissey – Ringleader of the Tormentors

 • Birt: 08/05/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 8

Morrissey - Ringleader of the Tormentors
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: Attack

Hann er torskilinn kóngur. Fólk talar um hann, dáir hann en skilur þó ekki.

Morrissey á alveg sérstakan stað í hjörtum Breta. Hann er torskilinn kóngur. Fólk talar um hann en skilur ekki. Togstreitan milli Morrissey og Marr er eilíft umfjöllunarefni og skrýtin tilsvör og skapandi smíðar gera Morrissey að reglulegum gesti í smjaðurliðum blaðanna.

Ringleader of the Tormentors er unnin á nýjum heimaslóðum kappans í Róm undir handleiðslu jaxlsins Tony Visconti sem hefur unnið með ansi mörgum hetjum en er þó þekktastur fyrir ævilangt samstarf við Bowie. Áhrif Visconti eru mjög ljós á plötu þessari. Söguslóðir mið-Evrópu taka við af Kaliforníu þar sem hann ól manninn við gerð síðustu plötu (ef ekki platna). Hann er heillaður af borginni og er til dæmis haft eftir honum að Róm hafi valið hann – ekki öfugt.

Ringleaders of the Tormentors hefur selst vel og fallið í kramið í Bretlandi eins og flestar plötur kappans. Náði toppnum á breiðskífulistanum í Bretlandi (og reyndar líka í Bandaríkjunum) sem aðeins tvær sólóskífur hafa áður náð og fyrsta smáskífan „You Have Killed Me“ náði þriðja sæti breska smáskífulistans, hæsta sæti sem hann hefur náð á sólóferlinum. Lagið er að finna á MySpace síðu Morrissey (sjá), sérlega töff og ó-miðaldra að vera þar.

Ég var mjög hrifinn af síðustu tveimur plötum Morrissey. Annars vegar tónleikaplötunni Live at Earls Court sem kom út í fyrra og hins vegar síðustu breiðskífunni, You Are the Quarry, sem kom út árið 2004. Væntingar mínar til ársins 2006 og Morrissey voru því miklar. Annars vegar beið ég í ofvæni eftir þessari plötu og hins vegar bíð ég enn eftir að sjá kappann á Hróarskeldu nú í sumar. Við fyrstu hlustun fannst mér vanta toppa á Ringleaders of the tormentors. Flaut ágætlega í gegn en ekkert greip mig fast eins og „First Of The Gang To Die“ gerði til dæmis 2004 eða „Redondo Beach“ útgáfan í fyrra. Ringleaders of the Tormentors vinnur þó talsvert á. Ég er enn á því að You Are the Quarry sé betri plata en Ringleaders of the Tormentors er góð Morrissey plata – ekki sú besta – en góð þó. Nýja platan er kröftugri, þjáðari, harðari og meira Meat is Murder en 2004 platan er ljóðrænni, mýkri og fallegri. Hvort tveggja gengur upp.

Plötuumslagið er sérlega töff. „Merkimiðinn“ er bein tilvísun í merki Deutsche Grammophon (sjá) og Morrissey er tignarlegur miðaldra fiðluleikari, jafnsvalur og byssubófinn á You Are the Quarry. Öll útgáfan er mjög flott, diskurinn sjálfur er til dæmis skemmtilega útfærður í líki vinylplötu og dvd útgáfan er auka konfektmoli fyrir nördana.

Platan hefst á austrænum nótum með „I Will See You In Far Off Places“. Töff inngangur og Morrisseyskur millikafli með fallegri bassalínu.

Á plötunni má finna fullt af Rómartilvísunum. Strax í öðru lagi plötunnar, „Dear God Please Help Me“ en þó sérstaklega í laginu „You Have Killed Me“, uppáhaldslagi mínu á plötunni. Pasolini, Accattone og Piazza Cavour koma fyrir í textanum ásamt ýmsu öðru rómversku. Frekar skondið. Gott lag.

„The Youngest Was The Most Loved“ er svona „The First of the Gang to Die“ þessarar plötu. Nettur slagari með „hoppum-með“ millikafla, barnakór og ágætum húkki.

Ástin (og Guð) er meira áberandi en dauðinn í textunum á plötunni. Hið síðarnefnda hefur jú oft verið þema í textum kappans. Áberandi í mörgum lögum, til dæmis í „Life Is A Pigsty“ og „I’ll Never Be Anybody’s Hero Now“ en einna helst þó í „To Me You Are A Work Of Art“ þar sem segir:

„I see the world, it makes me puke/ But then I look at you and know that somewhere there’s a someone that could suit me“

Nokkuð töff frasi þetta.

Í laginu „Dear God Please Help Me“ er sérlega vel heppnuð strengjaútsetning eftir engan annan en Ennio Morricone sem er ekki ginkeyptur fyrir slíku samstarfi og hafnar iðulega stórpoppurum sem þess æskja.

Morrissey kann þetta all ennþá. Þú sönglar kannski ekki með við fyrstu hlustun en á tíundu umferð keyrandi um Suðurlandsundirlendið er ljóst að þú tekur undir allan tímann. Fín plata; bætir við upplifunina, fer í bankann en breytir ekki heiminum.

Fyrir mér er þetta einfalt. Þetta er góð plata en ekki jafn frábær og You Are the Quarry. Goðsögnin lifir.

Ég hlakka sem fyrr ótrúlega til að sjá kappann á Hróarskeldu. Sjáumst þar!

8 Athugasemdir

 1. Særún María · 09/05/2006

  Já, Morrissey er sko kominn aftur! Ég var samt svolítið lengi að kaupa barnakórinn á þessari plötu.

 2. toggipop · 09/05/2006

  ég er nú líklega einn allra harðasti Smiths og Morrissey pervert landsins, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn þorað að kaupa þessa plötu. Sérstaklega vegna þess að mér finnst “you have killed me” vera slappt lag, eiginlega bara hundlélegt miðjumoð.

  Ég sá hann samt á Hróarskeldu í hittiðfyrra (minnir mig) og það var alveg klikkað, kallinn söng vel og var bara í fínu stuði. Væri alveg til í að sjá hann aftur í ár og mæli með því að fólk tékki á honum á Hróarskeldu í ár ef það hefur ekki séð hann live.

 3. Kristján Már · 12/05/2006

  Sammála síðasta ræðumanni með þennan fyrsta singul, ekki rass merkilegt lag.
  En það er einu sinni svo með kallinn að þegar maður leggst yfir plöturnar þá dettur maður alltaf inní þær.
  Held þó ég geti með sanni sagt eftir 1 rennsli að þessi toppar ekki ‘Vauxhall and I’ – hans albestu sóló að mínu mati.

 4. Arnar Freyr · 18/07/2006

  já þetta er ágætt hjá þér. enn ég get ekki verið sammála þér að you are the quarry sé betri plata.

 5. Ásgeir · 22/07/2006

  Svo er bara að fjölmenna í Höllina 12.águst

 6. Andrés · 12/08/2006

  Ringleader fyrir mér er mjög þétt og góð plata. Kanski ekki sama meistarastykkið og you are the quarry eða Vauxhall and I en virkilega góð engu að síður. Er að fara sjá goðið í fyrsta skiptið á eftir í höllinni, er farinn að spennast upp.

  Lifi Morrissey

 7. Heiða · 22/08/2006

  Bara eitt orð yfir maninninn: Snillingur

 8. Guðbjörg · 29/02/2008

  Svolítið seint að skrifa hér, en ég geri það samt.

  Hann er snillingur…
  Ég er sem stendur að skrifa ritgerð um hann, þó aðalega bara hljómsveitina sálfa, og ég fá að biðja þig um leyfi til að taka brot úr blogginu þínu, láttu mig endilega vita, það er að sega, ef þú ert að skoða þetta. Fyrir fram þakkir, fyrir þetta. Endilega hafðu samband.

Leave a Reply