• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Birdy Nam Nam – Birdy Nam Nam

  • Birt: 12/05/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Birdy Nam Nam - Birdy Nam Nam
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: Uncivilized World

Helsti kostur plötunnar er jafnframt hennar helsti galli. Lögin eru mörg hver svo svöl og yfirveguð að maður hreinlega nennir ekki alltaf að hlusta á þessa plötu.

Það er stundum þannig með tónlist að það verður að sjá hvernig hún er flutt. Þ.e. hvaða hljóðfæri eru notuð og hvernig er spilað á þau. Gott dæmi um þetta er gítarhljóðið sem Jónsi fær með strengjaboganum. Birdy Nam Nam er annað dæmi um þetta. Til þess að meta tónlistina að fullu þá verður maður að sjá hvernig tónlistin er flutt og það gott fólk er helvíti magnað að sjá.

Birdy Nam Nam eru fjórir skífuþeytarar og unnu DMC keppnina í skífuskanki í liðaflokki árið 2002. Þeir koma frá Frakklandi og eins og flestir vita þá reykja menn ýmislegt annað þar annað en sígarettur. Það skal hins vegar ósagt látið að þeir hafi verið undir áhrifum af einhverju ólöglegu þegar þeim datt í hug að búa til tónlist á þennan máta.

Það má segja um tónlistina að hún er í eðli sínu ekkert frábrugðin öðrum listamönnum sem nota samplera og trommuheila. Það eru til önnur svona bönd sem nota plötuspilara svo sem X-Ecutioners en þeirra tónlist er meira í hipp hopp geiranum meðan Birdy Nam Nam eru nær indí tónlist. Hipp hopp áhrif leynast þó víða, þá helst í töktunum, ásamt jazz áhrifum og frönsk tónlistarhefð, svo sem notkun á harmonikku, er greinilega í blöndunni líka. Lögin eru flest frekar afslöppuð og myndu eflast flokkast sem „chill-out“ tónlist.

„Body, Mind, Spirit“ er dæmi um lag sem væri líklegt að heyra á Ibiza „chill-out“ diski. Ekki mikið gerist í því, ekkert sem ögrar tónlistarvitunum þannig að maður sperri eyrun en hentar samt vel til hlusta á þegar verið er að slappa af. Í „Too Much Skunk Tonight“ byrjar lagið svalt og yfirvegað. Um miðbik lagsins kemur flottur kafli þar sem spýtt er í lófana og tempóið aukið. Áður en lagið er búið þá virðist sem nýtt lag sé byrjað sem er undir hipp hopp áhrifum en svo er samt ekki þar sem þetta er að því virðist stuttur intro kafli í lagið sem fylgir. „Transition“. Það vill svo skemmtilega til að það lag er það stutt, 1:06, að það er í rauninni intro í staðinn fyrir að vera fullmótað lag. „Kind of Laid Back“ er „jazz-að“ og svalt lag. Endurtekinn bassakafli sem eflaust er spilaður á kontrabassa eins og svo oft er í jazzböndum leikur stærstu rulluna. Þegar líður á lagið fær hvert hljóðfærið á fætur öðru sinn kafla til að láta ljós sitt skína eins og oft vill vera í jazzlögum þar sem hver og einn tónlistarmaður tekur sitt sóló.

Eins og má kannski sjá þegar hér er komið við sögu þá leita þeir áhrifa sinna víða og eru fjölbreyttir í tónlistarsköpun sinni. Ólíkt því sem oft verða vill með rafræna tónlist þá er lítið um að lög séu einhæf og það kann ég vel að meta.

Fyrir utan lögin sem nefnd eru á undan þá er vert að athuga t.d. „Engineer Fear“. Lagið er of töff eitthvað með feitum púlsandi trommum í byrjun, skífuskanski og rafrænu hljóðin til fyrirmyndar. Ef ég ætti verkfræðistofu þá væri þetta þemalagið fyrir stofuna.

„Abbesses“ er svo lagið þar sem frönsku áhrifin koma hvað bersýnilegast í ljós. Lagið er með hressari lögum plötunnar og er harmonikka undirstaða lagsins en eins og allir vita þá er fátt jafn franskt og notkun harmonikku í tónlist. Á heimasíðu Birdy Nam Nam er einmitt sýnt hvernig lagið er spilað á plötuspilarana og mæli ég með að fólk smelli á hlekkinn hér til hliðar.

Helsti kostur plötunnar er jafnframt hennar helsti galli. Lögin eru mörg hver svo svöl og yfirveguð að maður hreinlega nennir ekki alltaf að hlusta á þessa plötu. Það vantar meiri hressileika í þetta og sérstaklega í ljósi þess að það er að koma sumar. Maður vill heyra hressa tónlist á sumrin þegar sólin skín. Hún verður kannski meira spiluð á rigningardögunum.

Leave a Reply