• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Camera Obscura – Let’s get out of this Country

 • Birt: 14/05/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Camera Obscura - Let's get out of this Country
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: Merge

Tvisvar var ég spurður þegar ég var að hlusta á plötuna hvort að hér væru á ferðinni Belle & Sebastian.

Litli indie-strákurinn í mér hefur beðið spenntur eftir nýjustu plötu skosku sveitarinnar Camera Obscura og hér er hún komin. Þessi sex manna Glasgow sveit er eflaust löngu þreytt á því að vera alltaf líkt við Belle & Sebastian en því miður er það mjög skiljanlegt að það sé gert. Sveitin spilar létt og grípandi indiepopp sem er svo sláandi líkt Belle & Sebastian að það mætti halda að Camera Obscura væri litla systir þeirra. Báðar sveitir hafa oft þau áhrif að maður smellir fingrum, klappar, dillir sér og brosir.

Það er ekki bara tónlistin sem fær fólk til að bendla sveitina við skosku risana í Belle & Sebastian heldur fleiri hlutir eins og t.d. það að Richard Colburn, trommari Belle & Sebastian, hefur oftar en einu sinni trommað með sveitinni. Forsprakki Belle & Sebastian, Stuart Murdoch, tók myndina sem prýðir plötuumslagið á Underachievers Please Try Harder og var sömuleiðis við takkaborðið og honum ber að þakka fyrir fyrsta mini-hittara sveitinnar, „Eighties Fan“. Svo til að toppa þetta allt að þá hefur Tracyanne Campbell (ekki skyld Isobel á nokkurn hátt), söngkona Camera Obscura, sungið með Belle & Sebastian í þætti John Peel heitins og þá í hlutverki Isobel Campell. Tengslin eru til staðar og hvort sem að meðlimir Camera Obscura hafa fengið nóg af þessum tengingum eða ekki að þá hlýtur þetta að hafa hjálpað þeim enda aðdáendur Belle & Sebastian manískir á sveitina og hafa því væntanlega leitað á mið Camera Obscura í leit að nýrri tónlist. Ég er dæmi um þennan maníska aðdáanda.

Platan Let’s get out of this Country byrjar á hinu hressandi „Lloyd, i’m ready to be heartbroken”, stórskemmtilegur titill á stórskemmtilegu lagi. Lagið hefur að geyma hressandi gítarriff sem ætti heima í lagi með Joy Division ef að ramminn í laginu væri dekkri. En lög Camera Obscura eru ekki dökk, þau eru hressandi eins og áður segir. Góð byrjun á sumarlegri plötu.

„Tears for affairs“ verð ég að segja er óneitanlega Belle & Sebastian-legt. Harmóníurnar sem B&S hafa næstum fullkomnað á nýjust plötu sinni, The Life Pursuit eru hér mættar og hljómaburðurinn í viðlaginu minnir mig á lagið „Slight return„ sem að The Bluetones gerðu brjálæðislega vinsælt 1995 í miðri britpop sveiflunni. Svo koma lögin eitt af öðru og engin lognmolla hér. „If looks could kill“ finnst mér vera líklegt til vinsælda. Lagið er smellið og dansvænt og Tracyanne Campbell syngur í gegnum fuzz box eða álíka apparat sem passar fullkomlega við orgelið sem svo með feitum bassa minnir óneitanlega á t.d. „White collar boy“ með Belle & Sebastian.

Þið sjáið smá trend hérna er það ekki?

Þessi plata minnir mig alveg óskaplega mikið á gömlu Belle & Sebastian plöturnar fyrir árið 2000 þegar sveitin tók upp í kirkjusal og dældi út smáskífum með hreint ótrúlegum lögum. Mér finnst óttalega ljótt og mikil klisja að segja að textar Tracyanne séu einlægir og einfaldir en þeir eru það nú samt. Þetta eru hreinlega bestu orðin til að lýsa þeim. Textar um fólk, ástina og lífið framreiddir á léttan og einfaldan máta og utan um þá koma frábærar laglínur. Hér smellur allt saman.

Þetta er frábær plata sem kemur að mér finnst á hárréttum tíma. Þessi létta glaðlega plata er tilvalin til að koma manni í sumarskap. Tvisvar var ég spurður þegar ég var að hlusta á plötuna hvort að hér væru á ferðinni Belle & Sebastian. Það er kannski gallinn, þetta eru ekki Belle & Sebastian. Camera Obscura verða alltaf í öðru sæti á eftir vinum sínum og samborgurum í Glasgow og það er kannski þeirra Akkilesarhæll að mér finnst. Plata þessi er þó mjög góð og ekki verður það tekið af Tracyanne Campbell og félögum að þau eiga að vera stolt af Let’s get out of this country. Mjög stolt.

Gleðilegt sumar.

2 Athugasemdir

 1. Davíð · 15/05/2006

  Já vá, ég hugsa alltaf þetta sama þegar ég hlusta á Camera Obscura , þetta er bara diet Belle & Sebastian sem er reyndar bara allt í lagi.

  Vissi ekki að það væri að koma ný plata, verð að tékka á þessu.

 2. Steini · 15/05/2006

  Ætla að skoða þetta, ég er huge Belle & Sebastian aðdáandi.

Leave a Reply