• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Pearl Jam – Pearl Jam

 • Birt: 28/05/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 7

Pearl Jam - Pearl Jam
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2005
Label: Sony

Pearl Jam fullnýta aldeilis hæfileika sína í þetta sinn.

Á meðan fyrstu plötur margra hljómsveita heita eftir hljómsveitunum sjálfum (Franz Ferdinand – Franz Ferdinand, Benni Hemm Hemm – Benni Hemm Hemm, Foo Fighters – Foo Fighters… o.sv.frv.), þá taka Pearl Jam menn ekki til þess bragðs fyrr en við útgáfu 8.stúdíóplötu þeirra. Hver svo sem skýringin á því kann að vera þá hentar nafnið ágætlega og athyglin beinist ekki að plötuheitinu heldur flottu kóverinu sem er skærblátt með mynd af krúttlegu avókadó á (held alveg ábyggilega að ég sé að nefna réttan ávöxt.. eða er það kannski grænmeti?). Þegar gluggað er í meðfylgjandi bækling tekur svo við allt annar handleggur en þar eru lík og annar óbjóður í fyrirrúmi.
Bæklingurinn er vel útilátinn, en í honum má finna texta við öll lög plötunnar. Ég mæli sérstaklega með því að þið rennið yfir textana og hlustið svo að því loknu aftur á lögin, Textarnir eru nefnilega óvenju góðir, en það skiptir miiiiiklu máli. Það er eitt að geta samið lag, annað mál er að geta komið orðunum frá sér þannig að úr verði heilsteyptur texti og svo þegar þetta tvennt er tengt saman verður útkoman vægast sagt frábær.

Þessi plata ásamt svo mörgum öðrum er þeim kosti gædd að hún venst frábærlega og við nokkrar hlustanir er maður orðinn illa háður. Hún verður einfaldlega betri og betri í hvert sinn sem hlustað er á hana. Flæðið er gott (betra en það hefur verið á fyrri plötum Pearl Jam) og shuffle-fíklarnir geta sest í helgan stein þar sem uppröðun laganna er til fyrirmyndar. Róleg lög í bland við hress, en það er einmitt það sem einkennir þessa plötu. Lögin eru alveg frá ljúfustu ballöðum upp í hráasta rokk; Pearl Jam fullnýta aldeilis hæfileika sína í þetta sinn.

…Að öðru mikilvægu málefni. Söngurinn. Rödd Eddie Vedder er auðþekkt og hann myndi eflaust ekki spjara sig lengi sóló. Hinsvegar er söngur hans orðinn vörumerki Pearl Jam og klikkar seint. Háværar raddir hafa verið uppi um að honum hafi hrakað og hrakað á síðustu plötum, ég var sammála því hér áður fyrr en eftir að heyra hvernig maðurinn beitir röddinni á Pearl Jam neyðist ég pent til að skipta um skoðun. Eddi veit nákvæmlega hvað hann getur og hvað hann gerir best. Ég vil meina að hann sé eins og ostur.. þið vitið.

Lög plötunnar eru að sjálfsögðu misgóð eins og gengur og gerist en mér finnst persónulega ekkert lag á Pearl Jam slæmt. Upphafslagið, „Life Wasted“, er kröftugt og flott – eiginlega hefði ég frekar viljað fá það sem fyrsta lag plötunnar í spilun á útvarpsstöðvum, en ekki lagið „World Wide Suicide“ sem fylgir strax á eftir. „Severed Hand“ er lag sem grípur mann strax og er tvímælalaust með betri lögum plötunnar.
Gott dæmi um rólegu hlið plötunnar er lagið „Parachutes“ sem er einstaklega notalegt og með frábærum texta. Stuðlög plötunnar eru óneitanlega fleiri en rólegu lögin, enda eru Pearl Jam frekar þekktir fyrir hressleika en annað. Það er nú samt varla hægt að telja flottustu lögin upp, svo mörg eru þau. „Wasted Reprise“ er eina lag plötunnar sem ég get ekki hlustað á aftur og aftur.. einhverra hluta vegna fer það óstjórnlega mikið í taugarnar á mér og þegar þannig er komið er ekkert við því að gera. Nokkrum lögum seinna er svo komið að lokalagi plötunnar, hinu tæplega sjö mínútna langa „Inside Job“.
Ég er þess fullviss að orðtakið „rúsínan í pylsuendanum“ hafi verið búið til bara til að lýsa þessu lagi. Tveggja mínútna intro í byrjun lagsins gefur strax til kynna að þetta lag sé vert athugunar. Rólegt gítar- og píanóspilið sem einkenndi byrjunina verður að ótrúlega flottum og kraftmiklum endi á frábærri plötu. Held að það sé óhætt að segja að „Inside Job“ sé í hópi bestu laga Pearl Jam. Klárlega mitt uppáhald á plötunni.

Þótt Pearl Jam sé ekki endilega byltingarkennd plata (við höfum nú alveg heyrt þetta allt áður) eða eitthvað meistarastykki, þá er hún samt frábær. Það skiptir ekki máli hvort þú ert byrjandi í Pearl Jam fræðum eða lengra kominn, þessi plata er „must“ á hvert einasta Pearl Jam elskandi heimili.

7 Athugasemdir

 1. Ari Gunnar · 28/05/2006

  Þetta er vissulega ávöksturinn avókadó, eða Lárpera eins og það heitir á móðurmálinu.

 2. Pétur Valsson · 28/05/2006

  vá, þetta er ljótasta umslag sem ég hef séð lengi

 3. b. jóns · 28/05/2006

  þessi diskur er alveg þokkalegur, en efti áttunda lag rennur hann út í sandinn, og verður máttlaus og tilgerðarlegur, en Pearl Jam hafa aldrei átt voða erfitt með að verða tilgerðarlegir

 4. jerome turner · 28/05/2006

  engin tilgerð á þessari plötu. Tvö síðustu lögin, come back og inside job, þau bestu á plötunni ásamt marker in the sand. Reyndar finnst mér lítið hafa verið um tilgerð hjá pearl jam ef undanskilin eru kannski nokkur lög á vitalogy, þannig erfitt er skilja hvað b. jóns er tala um. Gaman væri ef radiohead myndi taka pearl jam sér til fyrirmyndar í þessum málum. Að lokum má benda á að pearl jam gefur út alla tónleika sína á yfirstandandi tónleikaferð á pearljam.com . Alvöru tilgerðalaust rokk og ról

 5. DaC · 29/05/2006

  Mér finnst þetta kover flott. Avókadó eru alltaf frábær.

 6. Hallster · 29/05/2006

  Virkilega góð plata. Finnst skrítið að enginn skuli minnast á comatose sem er frábært lag!

 7. bibb brók · 15/01/2007

  Mér fynnst kóverið á þessari plötu alveg hel magnað… þetta er kóver sem ég myndi taka eftir í aragrúu geisladiska!

Leave a Reply