Jet Black Joe – Full Circle

Jet Black Joe - Full Circle
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: COD Music

Jet Black Joe eru komnir aftur á upphafspunkt eða einfaldlega nýtt upphaf með nýju skipulagi og sándi. Fortíðin þurrkuð út og nýir tímar framundan

Fyrst sá ég Jet Black Joe 1992 á marmaranum í Verzló. Þetta hefur væntanlega verið eitt af fyrstu giggunum þeirra en maður heyrði strax að þarna var eitthvað óvenjulegt á ferðinni. Eða fann það jafnvel. Þessir gaurar væru fæddir rokkarar og spruttu upp alskapaðir með sitt einstaka sánd og virkilega grípandi rokk.

Rage against the Machine spiluðu í Kaplakrika 12. júní 1993 og þá rokkuðu Jet Black feitt sem upphitunarhljómsveit. Komu út einni plötu á ári á þessum tíma, Jet Black Joe (1992), You ain’t here (1993) og Fuzz (1994) ásamt slatta af lögum á safnplötum.

Þeir voru eitt af þessum böndum sem mönnum fannst að ætti að meikaða í útlandinu. Ekki það að þeir hafi bara legið ofurölvi á sviðinu, pissað á fólk á börum og grínað um nasisma í viðtölum, nefni engin nöfn, heldur reyndu þeir hefðbundnari leiðir. Gáfu til að mynda út tvær plötur erlendis og einhverjar smáskífur.

Árið 1996 hætti bandið og þótti mörgum leiðinlegt að sjá á eftir þeim í önnur verkefni. Þannig hefur Páll iðulega átt metsölu cover-plötur í jólageðveikinni, eins og flestir hafa sjálfsagt tekið eftir. Ekki sérlega mikið rokk, en maðurinn hefur svo sannarlega röddina í þetta. Það verður ekki tekið af honum. Þeir komu síðan nokkuð óvænt fram á Eldborg 2001 og gáfu út safnplötu 2002. Sögulegu ágripi lýkur.

Platan Full Circle hefst á greddulegu nótunum með laginu Revelation, gæjalegu gítarriffi. Við fyrstu tónana hugsar maður með sér, að þarna séu Jet Black svo sannarlega komnir aftur. En lagið er alls ekki lýsandi fyrir plötuna. 7 fylgir í kjölfarið, og orgelið sem einkenndi Jet Black ómar. Gott melódískt lag, skemmtileg útsetning og raddanir, en strax í rólegri kantinum.

Lagið We Come In Peace er ofsalega mellow, kannski ekki rólegt þó, daðrar við kraftleysi en keyrir upp á lítilli brú með orgeli fyrir viðlagið. Sadness róar leikinn enn meira en keyrir síðan upp á viðlaginu, líkt og WCIP. Mjög töff lag og vel útsett. Far away heldur áfram á sömu nótum en Scarecrow er stutt og mjög athyglisvert lag. Í laginu No One setjum við síðan í lága drifið, algjör ballaða.

Titillag plötunnar er fantagott, ekta Jet Black Joe. Þarna blómstra þeir, enda hefur það fengið talsverða spilun í útvarpi. Maður fær næstum gæsahúð þegar orgelið læðist aftan að manni.

Páll á svo síðustu 3 lögin, Misunderstood, Salvation og Love alveg skuldlaust, texta og lög. Þau skera sig talsvert úr, kassagítar og söngur með léttu trúarívafi í ætt við það sem Páll hefur að einhverju leyti verið að fást við síðustu árin.

Nafnið Full Circle kannski táknrænt. Jet Black Joe eru komnir aftur á upphafspunkt eða einfaldlega nýtt upphaf með nýju skipulagi og sándi. Fortíðin þurrkuð út og nýir tímar framundan. Enda er það ný Jet Black sem spilar á þessari plötu skipuð Gunnari Bjarna (gítar, bassi, orgel) og Páli Rósinkranz. Það veldur því kannski að sándið er ekki alveg hið sama, rokkið er í skammarkróknum en fær þó við og við að viðra sig.

Í heildina er þetta rólegri útgáfa af Jet Black Joe. Platan er fín en í styttri kantinum, rúmur hálftími. Spilamennskan góð, enda ekki við öðru að búast. Söngurinn frábær á köflum.

Persónulega, og nú veit ég að það er glatað að biðja um meira af gamla sándinu með hljómsveitum, hefði ég kosið meira af gamla sándinu. Sem gamall Jet Black aðdáandi er erfitt að díla við léttari plötu, forhertur af öllum rokkþyngingum sem átt hafa sér stað á síðustu 12 árum.

4 responses to “Jet Black Joe – Full Circle”

 1. Dóri says:

  Og massa fínt kover…

 2. Dagur says:

  Alveg einstaklega leiðinlegt band að mínu mati…hvað eru þeir eiginlega búnir að spila marga “lokatónleika”? Voru kannski altílæ í gamla daga en þessi plata finnst mér vond.

 3. asgeir says:

  þeir verða að setja punktinn…… algjörlega blóðmjólkuð leiðindi.

 4. Viquel says:

  3,0 fyrir þetta rusl er algjörlega óásættanlegt… mesta lagi 1,0 fyrir þessa plötu, algjört hámark.
  Málið er að þeir höfðu það einu sinni en hafa það ekki lengur.. sorry svo einfalt er það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.