• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Violent Femmes – According to tradition

 • Birt: 14/06/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Violent Femmes - According to tradition
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: Add it up Productions

Dayyyyyyyy, after dayyyyyyyy.

Violent Femmes kunna að halda uppá afmæli. Í tilefni af áratuga vitleysisgangi og sprelli hafa þeir ákveðið að gefa út plötur með vel völdu efni og fyrsta platan er komin út. Live in Iceland: According to tradition kalla þeir gripinn. Platan er ekki bara með tónleikaefni sem hvað Violent Femmes aðdáandi lítur á sem skyldueign heldur er platan eingöngu með lög af tónleikum sínum á Breiðvangi sem haldnir voru þann 22.apríl 2004.

Í umslagi plötunnar er rakin sagan um þá þrjá ungu menn (Friðrik Rúnar Garðarsson, Eirik Sördal og Viðar Örn Sævarsson) sem ákváðu að flytja inn Violent Femmes og hvernig á örlögin gerðu það að verkum að sveitin hafði aldrei komið til Íslands á þessum 24 árum sem þeir hafa verið að. Fallega er talað um landið og fólkið og drengina þrjá og í raun engu við það að bæta. Einu skilaboðin eru að maður hlusti á plötuna með sömu ást og lögð var í hana. Fín skilaboð.

Í mínum huga slefar platan rétt svo í að vera talin alvöru plata en ekki örplata, smáskífa eða hvað sem nú þetta heitir allt. Sex lög sem ná þó næstum 40 mínutum og öll af tónleikum sveitarinnar í Reykjavík. Að sjálfsögðu hefði maður frekar viljað að fá alla tónleikana með svitanum og stemmmingunni sem voru þetta kvöld en maður ræður þessu víst ekki og maður fagnar hreinlega að Violent Femmes hafi ákveðið að gefa þetta út. Frábært hjá þeim.

Violent Femmes eru oft einstaklega vanmetin hljómsveit. Þeim er þakkað fyrir það t.d. að hafa hrundið af stað bylgju háskólasveita sem spiluðu alternatívt rokk og opnuðu hurðir fyrir sveitir eins og R.E.M, Hüsker Dü og Pixies svo eitthvað sé nefnt. Sveitin hefur ótrúlegt aðdráttarafl sem sést hreinlega á því að þeir eru hættir að semja nýtt efni og einbeita sér að því að halda tónleika. Þeir voru vissir um að það væri létt verk enda varla mikil eftirspurn eftir hljómsveitinni Violent Femmes, sem hafði eiginlega gleymst enda alltaf verið á jaðrinum. Þetta gæti ekki verið fjær sannleikanum enda er brjálað að gera hjá þeim og eftirspurning of mikil. Alltaf ný og ný kynslóð að uppgötva plötur eins og Violent Femmes og Hallowed Ground og því fólk alltaf til að sjá sveitina á sviði.

Platan byrjar á hinu magnþrungna „Confessions“ sem kom út á fyrstu plötu sveitarinnar sem heitir hreinlega Violent Femmes. Ótrúleg plata sem skemmdi hátalarana á fermingargræjunum mínum enda full af ótrúlegum slögurum sem maður fær ekki nóg af. Plata sem eldist alveg ótrúlega vel og þótt ótrúlegt megi virðast náði hún ekki platínu sölu fyrr en 10 árum eftir útgáfu. „Confessions“ er helmingi lengra í þessari útgáfu en sú upprunalega enda öll sóló lengd hér og hver og einn fær sinn tíma í þau. Gordon Gano tekur sitt gítarsóló, Victor DeLorenzo lemur húðir og slær taktinn eins og viltur maður og bassameistarinn Brian Ritchie klárar dæmið með stæl. Brian Ritchie er F-ið í bassaFantur. Það tæki margar klukkustundir að skrifa um hæfileika Brian Ritchie þannig að ég sleppi því. Googlið þennan hæfileika ríka mann sem setti órafmagnaðann bassa á kortið og spilar á japanska flautu betur en nokkur annar.

Eftir „Confessions“ er farið yfir í „Black Girls“ af hinni frábæru Hallowed Ground. Lag sem er öllu hressara en opnunarlagið og byrjar á hinum frábæru orðum „I dig the black girls, oh so much more than the white girls.
I was so pleased to learn they were faster.
C’est, c’est, c’est vous I’m after.“.
Lög Violent Femmes fjalla einmitt mörg hver um ástina þá sérstaklega hvolpaást, kynlíf og tilfinningar unglinga enda mörg af helstu lögum sveitarinnar samin þegar Gordon Gano var í menntaskóla. Undir lok lagsins kynnir Brian Ritchie svo bandið við mikil fagnaðarlæti úr salnum. Stemmning, stemmning, stemmning.

Why do birds sing? var gefin út 1991 og gekk ágætlega, af mörgum talin aðgengilegasta plata Violent Femmes. Fyrsta smáskífulag plötunnar „American Music“ fór í annað sæti bandaríska smáskífulistans sem verður að teljst gott hjá jaðarsveit. Á plötunni má einnig finna lagið „More money tonight“ sem Gordon Gano sagði að þeir tækju mjög sjaldan á tónleikum en af því að það var beðið sérstaklega um það að þá skyldu þeir taka það. Lagið snýst í raun um að Gordon Gano skítur á þá sem að stríddu honum í skóla og þá staðreynd að hann geti eflaust grætt meiri peninga í dag en gerendurna dreymi um. Ágætt lag með góðum texta þó að boðskapurinn sé kannski ekkert sá besti á þessum Regnbogabarns tímum.

Eitt af mínum uppáhalds lögum með Violent Femmes er „I held her in my arms“ sem má finna á The blind leading the naked. Einstaklega grípandi lag og raul vænt sem hentar mönnum eins og mér vel, fáir jafn liðtækir í söng í sturtuklefanum eins og ég. Lagið hefur að geyma hreint magnaða laglínu sem saxófóninn afgreiðir lystilega. Þetta er lagið mitt og frábært að heyra það í lengdri útgáfu.

Árið 1993 gáfu Violent Femmes út safnplötuna Add it up sem hafði að geyma það besta sem sveitin hafði gert ásamt nokkrum óútgefnum lögum og þar á meðal var „Waiting for the bus“ sem að er eitthvað það venjulegasta Violent Femmes sem ég man eftir. Matthíasi Hemstock og Óskari Guðjónssyni eru þarna kvaddir og þakkað fyrir sitt hlutverk á sviðinu en þarna höfðu þeir spilað á saxafón og stundað áslátt af miklum móð. Violent Femmes hafa með sér gestaleikara sem mynda bandið The horns of dilemma en Brian Ritchie hafði boðið Matthíasi og Óskari að spila með þeim. Fallegt af honum að gera það.

Hringnum er lokað með stæl. Um leið og Gordon Gano sleppir fyrsta orðinu, þessu langa „Dayyyyyyyy, after dayyyyyyyy“ brjálast áhorfendur og taka undir með sveitinni í einni allsherjar orgíu. Salurinn er undir algjörri stjórn Gordon Gano og félaga. „Add it up“ af fyrstu plötu sveitarinnar er lag sem allir gjörsamlega þekkja út og inn. Næstum öll lögin á plötunni eiga það sameiginlega að vera næstum helmingi lengri á þessum tónleikum á Breiðvangi en í upprunalegum útgáfum og Add it up er engin undantekning þar. Gordon Gano og félagar gjörsamlega rústa sólóunum með ótrúlegri spilagleði. Þeir eru ekki að gera neitt flókið og þetta er engin flugeldasýning en það skiptir akkúrat engu. Þetta eru listasmenn sem eru alveg einstaklega flinkir að spila á sín hljóðfæri og það smitar út frá sér í salinn.

Mér fundust þetta einhverjir bestu tónleikar þetta árið og ég hneigi mig fyrir Violent Femmes að gefa þetta út en maður má alltaf biðja og vona um að tónleikarnir í heild sinni muni líta dagsins ljós. Það vantar töluvert uppá til að þessi plata nái þeim hæðum sem hún gæti náð, ég vill eiginlega bara meira. Það má ekkert skilja mann eftir svona í lausu lofti.

2 Athugasemdir

 1. Bassi · 16/06/2006

  Mögnuðustu tónleikar sem ég hef farið á enda biðin löng. Þvílíkt og annað eins stuð…bið til Guðs um að þessir tónleikar verði endurteknir, aftur og aftur…aftur og aftur. Ég mun aldrei fá nóg. Vissi reyndar ekki af þessari útgáfu en fyrsta verk í fyrramálið verður að finna plötubúð og versla.

 2. Hjörtur · 06/06/2015

  Ég tók þessa tónleika upp fyrir rás 2 gæti reddað þeim í heild

Leave a Reply