• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Roger Waters í Egilshöll

 • Birt: 16/06/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

Roger Waters í Egilshöll

Tónleikar 12.06.06

Hvað gerist þegar guðir mæta mönnum?
Mánudagurinn 12.júní.
Þessi dagsetning er búin að vera föst í hausnum á mér alveg síðan fyrst var tilkynnt um komu Roger Waters til Íslands. Nú loksins get ég farið að hugsa um eitthvað annað og hætt að telja niður, en mér skilst að það hafi verið ansi pirrandi þegar ég nánast heilsaði fólki með orðunum „5 dagar!!!“ eða setningum á borð við „á morgun get ég sagt að tónleikarnir séu ekki á morgun heldur hinn!“.
Eins og lesendur hafa kannski getið sér til um þá hlakkaði ég mikið til tónleika Roger Waters síðastliðinn mánudag, og ekki að ástæðulausu. Ég er mikill Pink Floyd aðdáandi og er sveitin á meðal minna uppáhalds. Þessir tónleikar voru því engir venjulegir tónleikar fyrir mér heldur stóð ég, óverðug manneskjan, frammi fyrir tveimur af mínum guðum!

Ég mætti á ágætis tíma upp í Egilshöll á mánudaginn en þurfti svo reyndar að bíða í smá stund í frekar langri biðröð. Þið sem voruð sínöldrandi út af þessari röð – hættið því. Svona hlutir eru óhjákvæmilegir þegar yfir 10.000 manns safnast saman á sama tíma á sama stað. Það hjálpar ekkert að kvarta, frekar að mæta þá bara fyrr!

Tónleikarnir voru sagðir byrja stundvíslega kl. 20:00 en þó töfðust þeir um korter þar sem ekki voru allir komnir inn og ennþá röð fyrir utan Höllina. Að lokum komst hreyfing á sviðið og inn kom hljómsveitin með Roger Waters síðastan í röðinni. Hann var ekkert að hika og hóf tónleikana á laginu „In The Flesh“ af meistarastykkinu The Wall. Lagið „Mother“ fylgdi strax á eftir og ég get með sanni sagt að ég hafi verið í ruglinu, geðshræringin var algjör á meðan á laginu stóð. Mér leið hálf kjánalega, en hristi þetta fljótt af mér og tók undir fagnaðarlætin sem mynduðust fyrir næsta lag – „Set The Controls For The Heart Of The Sun“. Undir laginu voru sýnd myndbrot af yngri árum Pink Floyd, en þetta lag er einmitt af plötunni A Saucerful Of Secrets sem var það tímabil þegar allir meðlimir Pink Floyd voru í hljómsveitinni í einu. Þegar lagið kláraðist tók við ekki síðra lag, „Shine On You Crazy Diamond“. Tónleikagestir virtust kunna að meta lagavalið og létu vel í sér heyra. Það var samt svolítið leiðinlegt að lagið var tekið í styttri útgáfu, en kannski vel skiljanlegt þar sem því hefði annars þurft að sleppa (enda rúmlega 10 mínútur). Á meðan Roger og félagar fluttu þetta meistaraverk voru sýndar myndir af Syd Barrett á skjánum og var ekki laust við að maður fengi smá kökk í hálsinn. Næst tóku þeir lagið „Have A Cigar“ af plötunni Wish You Were Here, en það er víst mjög sjaldgæft að heyra á tónleikum með þeim félögum. Því fylgdi svo sjálft lagið „Wish You Were Here“ við frábærar undirtökur viðstaddra. Að sjálfsögðu saknaði maður samt Davids Gilmour enda er gítarpartur lagsins flottasti partur lagsins. Eftir að lögin „South Hampton Dock“ og „The Fletcher Memorial Home“ af The Final Cut höfðu fengið að njóta sín tók við sólóferill Roger Waters. Af honum spilaði hann lögin „Perfect Sense“ (1&2) ásamt nýlegu lagi sem heitir „Leaving Beirut“. Þar sagði hann sögu af því þegar hann fékk húsaskjól hjá allslausri fjölskyldu sautján ára gamall og hversu mikið það hefði breytt lífi sínu. Undir laginu var svo sýnd myndasaga þeirrar frásagnar og var hún alveg hreint út sagt átakanleg. Textinn er fullur fyrirlitingar á Bush, Bandaríkja- og Bretlandsstjórn, auk árásanna á Mið-Austurlöndum. Mjög flott lag þarna á ferðinni og greinilegt að Roger er ennþá í fullu fjöri! Eftir þessa törn ekki eins þekktra laga enduðu Roger Waters og félagar fyrri hluta tónleikanna á einu uppáhalds Pink Floyd lagi undirritaðrar, „Sheep“ af plötunni Animals. Fyrr en varði var svo komið hlé, og orðið ansi þröngt og sveitt stemmning í þessari stóru íþróttahöll…….

Hléið stóð stutt yfir og var spenningurinn fyrir Dark Side Of The Moon orðinn mikill þegar skjátjaldið var látið síga og Pink Floyd hringurinn, táknrænn fyrir tónleika þeirra, kom í ljós.
Roger byrjaði á því að kynna til liðs við sig gamlan vin, sem var þá gamli Pink Floyd trommarinn Nick Mason. Svo hófust herlegheitin.

Þessi upplifun var ekki lík neinu sem ég hef séð á minni stuttu en viðburðarríku ævi.
Hrollurinn sem kom í byrjun Breathe hélst í manni það sem eftir var tónleikanna. „Time“ var hápunktur kvöldsins að mínu mati, kannski vegna þess að það er uppáhalds lagið mitt af Dark Side Of The Moon, eða kannski vegna þess að það var óendanlega flott spilað hjá Roger, Nick og hljómsveitinni líkt og allt annað þetta kvöld.
Nick Mason gleymdist fljótt þótt hann stæði sig óaðfinnanlega. Hann er að sjálfsögðu frábær trommari en þeir vilja oft gleymast og hálfpartin halda sig í skugganum, sem hann og gerði þetta kvöld.
Hljómsveitin stóð sig frábærlega og Roger var í fantaformi eins og fyrr segir. Bakraddasönkonurnar forðuðu sér frá algerri niðurlægingu með því að vera allar með góðar raddir en ég fékk nú samt nettan kjánahroll við að sjá danssporin þeirra sem voru hreint út sagt ömurleg. Stúlkan í miðjunni stóð sig samt langbest og fór algjörlega á kostum í raddsólóinu í laginu „The Great Gig In The Sky“. Að seinni hlutanum loknum var Roger klappaður upp eins og honum sæmir og tók hann alls 5 uppklappslög: „Another Brick In The Wall“, „Happiest Days Of Our Lives“, „Vera“, „Bring The Boys Back Home“ og að lokum „Comfortably Numb“.

Ég kom út úr Höllinni í sæluvímu, raddlaus og að deyja í fótunum. Leit í kringum mig og allstaðar voru sáttir aðdáendur að labba út. Það var alls ekkert út á tónleikana að setja og voru þeir vel 10.000 króna virði – ég færi aftur á morgun ef ég ætti möguleika á því!

5 Athugasemdir

 1. Rakel · 17/06/2006

  Sá ekkert þótt ég væri á A svæði, datt út um allt á lélegu gólfinu, sé eftir peningum, gæti verið að þetta hafi verið góðir tónleikar, sá þá bara hreinlega ekki´og allir í kringum mig ekki heldur. Við vorum snuðuð. Getur maður fengið endurborgað á tónleika sem maður sá ekki? Hvað er málið? Gátu þeir ekki splæst í hærra svið? Eruð þið á rjómanum að fá borgað fyrir svona umfjöllun? Því ef þið voruð ekki beint fyrir framan sviðið, sáuið þið heldur ekkert. Ömurlegt hype fyrir einvhern sem var einu sinni í Floyd, gott og vel en framkvæmdin sukkaði.

 2. Hildur Maral · 17/06/2006

  Nei, Rjóminn fær ekki borgað fyrir að skrifa greinar og umfjallanir. Ég tróð mér einfaldlega framarlega til að geta séð eitthvað, eins og ég geri venjulega á tónleikum.. þeir sem eru litlir sjá oft minna!

 3. Addi · 17/06/2006

  Ég var nú alls ekkert framarlega samt sá ég alla tónleikana mjög vel.

  Bestu tónleikar sem ég hef farið á.

 4. Heiða · 25/06/2006

  Ég tróð mér líka fremst í pásu og þá var þetta miklu skemmtilegra því maður sá allt sem fór fram á sviðinu. En fyrir hlé var sándið samt alveg jafn gott. Sorrí, þetta var einfaldlega besta sánd sem ég hef upplifað á tónleikum á Íslandi, og hef ég séð þá ansi marga. Manneskja sem heldur öðru fram kann einfaldlega ekki að meta hvort sánd er gott eða ekki. Ógleymanlegt, hreinlega!

 5. Páll Sævar Guðjónsson · 26/06/2006

  Þessir tónleikar voru algjör snilld. Ég er fullkomlega sammála þessum dómi. Þetta var alveg mögnuð upplifun. Maður hefur hlustað á þessa tónlist frá því maður var 7 ára gamall. Maður hefur verið í misgóðu jafnvegi við að hlusta á þessa tónlist og alltaf kemst maður í gott skap við að heyra þessa tónlist. Maður hefur sagt við vini sína að maður gæfi allt til þess að sjá og heyra þessa tónlist LIVE. Maður upplifði það og það finnst mér best af öllu.

Leave a Reply