• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Ghostface – Fishscale

 • Birt: 22/06/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Ghostface - Fishscale
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2006
Label: Def Jam

Góð hip hop plata undir soul og fönk áhrifum.

Það verður að viðurkennast að strax í byrjun að hip hop er ekki sterkasta hlið undirritaðs. Góð tónlist nær hins vegar alltaf athygli minni og það hafa verið ófá lögin, frekar en heilu plöturnar, í þessum geira sem hafa fengið spilun í geislaspilaranum eða ipodnum.

Ég er á þeirri skoðun hægt sé að taka tvenns konar gagnrýni. Annars vegar þar sem rýnirinn veit allt um það sem er að gerast í tiltekinni stefnu, hvernig listamaðurinn hefur þróast, eigi hann sér sögu, og hvað hefur haft áhrif á hann. Sá rýnir getur síðan sett tiltekna plötu í samræmi við eitthvað annað sem er að gerast og sagt hvort hérna sé góð eða slæm plata miðað við annað sem er að gerast.
Hins vegar er það rýnirinn sem kemur ferskur að plötunni. Öll „ættfræðin“ skiptir minna máli en þess í stað getur hann dæmt um hvernig tónlistin á plötunni tekst að ná til hans sem nýs hlustenda. Hvort hún nái t.d. að teygja sig yfir þessa fyrirfram skilgreindu stefnur sem svo oft er tíðrætt um.
Hættan er samt sú að fólk muni ekki taka mark á þessari rýni og þá sérstaklega af þeim sem eru unnendur hip hops. Það er áhætta sem ég verð að leggja á mig en vona að unnendurnir skilja frá hvaða vinkli ég er að koma. En nóg um útskýringar á því hvernig rýna eigi plötuna, víkjum okkur að henni sjálfri.

Umfjöllunarefni plötunnar er líf Ghostface og þá helst hans dökku hliðar. Kókaín, krakk og önnur eiturefni koma mikið við sögu enda vísar nafnið, Fishscale, til ákveðinnar tegundar af kókaíni frá Perú. Í „Kilo“ gæti maður haldið að Ghostface væri að kenna dílerum götunnar eitthvað því í viðlaginu er sífellt endurtekið að það séu 1000 grömm í einu kílói, eitthvað sem dílerar verða auðvitað að hafa á hreinu. Lagið sjálft er undir miklum fönk áhrifum og reyndar er stór hluti plötunnar með soul og fönk áhrifum í sömplunum. Almennt finnst mér undirspilið og taktarnir virkilega flottir, þá sérstaklega lögin undir soul og fönk áhrifum. Þegar vikið er frá þeirri formúlu þá ná lögin ekki jafn vel til mín og þá einna helst r’n’b lögin.

Platan byrjar mjög sterkt á lögum eins og „Shakey Dog“, „Kilo“, „The Champ“ og „9 Milli Bros“ þar sem gömlu félagar hans úr Wu Tang Clan kíkja í heimsókn. Við tekur kafli sem einkennist af sketsum og mis-góðum lögum í mínum bókum eins og t.d. tvennan,„Whip You With a Strap“ sem er ljúfsár minning um flengingar móður Ghostface í æsku og „Back Like That“. Ýti maður hins vegar tvisvar á skip þá kemur eitt albesta lag plötunnar á eftir þeim, „Be Easy“. Undirspilið er í lágmarki en byggist þess í stað á mjög hörðum takti og röddunum hjá Ghostface og Trife sem er honum til aðstoðar. Í kjölfarið fylgir annar jafn góður kafli og í upphafi plötunnar þar sem lög eins og „Jellyfish“, „Dogs of War“, hið sálarlega „Big Girl“ sem líklega er hvað útvarpsvænast af lögunum og “Underwater“.

Ég get ekki neitað því að mörg lögin minna mig á Kanye West, aðallega undirspilið og þarf engan að undra þar sem þeir sækja báðir í sama brunn þegar kemur að sömplum, gömul soul og fönk lög eru ráðandi. Umfjöllunarefni og flæði þessara tveggja kappa er hins vegar tvennt ólíkt. Kanye er kórdrengur við hliðina á Ghostface og hinn síðarnefndi mun betri rappari. Samt myndi ég mæla með að þeir sem fíla Kanye gefi þessari plötu séns. Þeir sem fíla hip hop ættu líka að vera óhræddir við að kíkja á þessa plötu.

2 Athugasemdir

 1. Darri · 23/06/2006

  Gleymdir Beauty Jackson.

 2. Darbó · 24/06/2006

  Mér finnst þessi Kanye West samanburður óviðeigandi…en það er kannski vegna þess að ég er hiphop hrokagikkur.
  …góð plata.

Leave a Reply