• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Frikki Frikk og Fautarnir – Birtingur

  • Birt: 25/06/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

Frikki Frikk og Fautarnir - Birtingur
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2007
Label: Herranótt

Þessi tónlist er í raun undirspil einhverrar sögu, í þessu tilviki frábærrar sögu, og reynist alveg ábyggilega betri eign ef maður fór á leikritið.

Nú eru sumir kannski ruglaðir. Frikki Frikk og Fautarnir? Birtingur??

Hljómsveitin Frikki Frikk og Fautarnir samanstendur af fimm krökkum í Menntaskólanum í Reykjavík. Þau sáu um að semja og flytja (ásamt El Dóradó kórnum í nokkrum lögum) tónlist við leikritið Birting eftir franska rithöfundinn og heimspekinginn Voltaire. Þessi saga er víðfræg, lærdómsrit en samt ekki. Voltaire kallaði ritið heimspekilegt ævintýri og á það vel við og smellpassar við skólann. Leikfélag MR, Herranótt, setti verkið upp vorið 2006 undir handleiðslu Friðriks Friðrikssonar. Eftir margar áskoranir var svo tónlistin tekin upp í Stúdíó Sveinbarni í Hafnafirði og hér er afraksturinn.

Það getur verið flókið að dæma svona plötu. Þessi tónlist er í raun undirspil einhverrar sögu, í þessu tilviki frábærrar sögu, og reynist alveg ábyggilega betri eign ef maður fór á leikritið.

Það sem fyrst ber að minnast á er flott umslag plötunnar, en það eru tveir efnisbútar saumaðir saman og Birtingur skrifað með tippexi framan á. Eitthvað grey hefur þurft að sitja tímunum saman og handsauma….

Lögin eru 23 talsins og eins fjölbreytt og þau eru mörg.
Fyrsta lagið, „Upphafsstef“, er flott og grípandi og flytur mann í huganum í leikhús. Tónlistin ber ekki með sér aldur krakkanna og er ekkert út á hana að setja. Stöku lög eru leiðinleg og stöku lög standa upp úr líkt og alltaf. Þeirra á meðal má nefna hið dularfulla „Allt er gott, allt miðar til hins besta“, fjöruga lagið „Til Lissibónar“ og hið krúttlega „La Valse D’Paris“.
Alls kyns áhrifa má gæta í tónlistinni og er hún afar fjölbreytt eins og áður segir. Tangó og vals eru í brennidepli en einnig er þarna að finna reggí, t.d. í laginu „Garðrækt í grasagarði“ sem er næstsíðasta lag plötunnar. Síðasta lagið, „Hvalur“, er eitthvað algjört rugl og fyndið að enda plötuna á léttu nótunum.

Í heildina er þetta fín plata, en ég er ekki beint að fara að setjast niður heima hjá mér eftir erfiðan vinnudag og hlusta á þessa tónlist. Þetta er fyrst og fremst minningabrunnur fyrir aðstandendur leikritsins og sniðugt fyrir þá sem vilja heyra hvað ungir tónlistarmenn eru að gera í dag. Það er ekkert út á gæðin að setja og hljóðfæraleikurinn er óaðfinnanlegur. Svo af hverju ekki að styrkja krakkana eftir góða frammistöðu og kaupa plötuna? Bara að hafa samband við Herranótt og athuga málin.. leitið og þér munið finna!

1 Athugasemd

  1. kiddi · 25/06/2006

    skemmtileg plata! kom mér á óvart, samt fannst mér að bestu lögin mættu vera aðeins lengri. Fallegt umslag líka og vona ég heyri og sjái meira frá þessum krökkum í framtíðinni.

Leave a Reply