Pétur Ben – Wine For My Weakness

Pétur Ben - Wine For My Weakness
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2006
Label: 12 Tónar

Wine For My Weakness er litla, blíða systir Mugimama, Is This Monkeymusic?.

Fyrir stuttu kom út afar athyglisverð plata. Hún ber nafnið Wine For My Weakness og er frumburður Péturs Þórs Benediktssonar, sem kýs einfaldlega að kalla sig Pétur Ben. Pétur þennan kannast eflaust margir við en hann er einnig þekktur sem „Pétur sem spilaði oft með Mugison” og „náunginn með flotta hárið”. Ég var ekki sú eina sem beið með öndina í hálsinum eftir plötu frá kappanum og spenningurinn var orðinn vel mikill núna í sumar. Loksins, loksins, loksins kom gripurinn út og það er óhætt að segja að biðin hafi verið vel þess virði.

Wine For My Weakness er litla, blíða systir Mugimama, Is This Monkeymusic?. Platan var tekin upp í Sundlauginni, hljóðveri Sigur Rósar, er því ekki að furða að hún sé að gera góða hluti þar sem flest sem þaðan kemur virðist slá í gegn. Vert er að minnast á umslag og hönnun plötunnar en teikningarnar gerði Gunnar Vilhjálmsson og eru þær ekki af verri endanum.

Á plötunni kennir ýmissa grasa. Ásamt því að heyra frábæran gítarleik Péturs, einkennismerki hans, þá tekur maður líka eftir laga- og textasmíð en hann sér alfarið um að semja. Einnig sér hann um sönginn og ferst það nokkuð vel úr hendi. Hann fær svo konu sína, Önnu Kristínu Guðmundsdóttur, sér til aðstoðar með sönginn í þremur lögum, „Pack Your Bags”, „Wine For My Weakness” og „Morning Light”. Anna Kristín er með mjög venjulega og óeftirtektarverða rödd en hún svínvirkar og kemur mjög vel út með rödd Péturs. Því eru lögin þar sem hún syngur með honum með þeim bestu á plötunni.

Fyrst og fremst má nefna upphafslag plötunnar, lagið „Look In The Fire”. Það grípur mann við fyrstu hlustun og rígheldur sér svo í þannig að ekki er annað hægt en að telja það besta lag plötunnar eftir að hafa hlustað vandlega á hana. Lagið er einstaklega vandað og flott. Hljóðfæraleikur, söngur og texti er frábær og uppbygging lagsins ekki síðri. Lagið hefur örlítið „edge“, er rokkað en samt ekki. Það batnar líka og batnar við hverja hlustun. Allt sem þarf til að koma sér í útvarp sem fyrsta smell… ég verð ekki hissa ef ég heyri upphafraulið á Rás 2 bráðum.

Fleiri lög sem vert er að nefna eru nokkur, þar á meðal ljúfa ballaðan „Pack Your Bags” og titillag plötunnar, „Wine For My Weakness”, sem er annað dæmi um rokkaðri hlið Péturs Ben og í alla staði flott lag. Athyglisverðasta lag plötunnar verður svo að teljast lagið „Where Children Rule”, en það er byggt á smásögu eftir Oscar Wilde sem nefnist „The Selfish Giant”. Eins og vill svo oft verða er fyrri hluti plötunnar töluvert flottari, meiri heild og betri uppröðun laga er á honum. Ekkert sérstakt er þó að seinni hlutanum og er lokalagið, „Make Way For The Flood”, með fallegri lögum plötunnar.

Auk Önnu fær Pétur til liðs við sig úrvals hljóðfæraleikara. Þeir eru mismunandi eftir lögum en í laginu „I’ll Be Here” er það aðallega yngri kynslóðin sem aðstoðar Pétur, ungir einleikarar fara á kostum og bæta lagið um helming. Með því er ég samt ekki að segja að þess þyrfti þar sem Wine For My Weakness stóðst fyllilega mínar kröfur og gott betur. Pétur Ben sýnir að hann er hæfileikaríkur á mörgum sviðum og vandar verk sitt. Vonandi þurfum við ekki að bíða eins lengi eftir næstu plötu!

8 responses to “Pétur Ben – Wine For My Weakness”

 1. Sigurður says:

  ég þarf að hlusta á þessa.
  Virðist mun meira spennandi eftir þessa lestningu.

 2. Kristján says:

  Miðað við þennan lestur hefði ég haldið að Pétur ætti skilið hærri einkunn en 3,5. Á hverju er þessi tala byggð?

 3. Árni Viðar says:

  3.5 er að mínu mati mjög fín tala. ég get náttúrulega ekki talað fyrir aðra en hjá mér þýðir 3.5 yfirleitt það sama og 7-7.5, jafnvel 8 á skalanum 1-10. Ég margfalda t.d. töluna ekki bara með tveimur og voila og þannig er 2 nær því að vera miðlungsplata hjá mér á meðan 2.5 þýðir svona 6….

  Að fá 4 er, að mínu mati, frekar erfitt og hvað þá 5. Ég get ekki nefnt margar plötur sem eiga það skilið…

 4. Hildur Maral says:

  Já, ég hugsa það sama og Árni. 3.5 er sirka 8 hjá mér. Það eru fáar plötur sem fá yfir 3 ef ég ætti að nefna einhverjar. Platan er stórgóð en ekkert meistaraverk og því finnst mér 8, eða 3.5, vera passleg einkunn.

 5. Júlli says:

  Ég dett hérna stundum inn að kíkja á nýjustu dómana en hef aldrei commentað fyrr en núna. Ég hef lesið bæði dóma sem ég er sammála en einnig ósammála, en það er ekki oft sem ég les dóma og það sem situr eftir er hversu undarlega þeir eru orðaðir (vægt til orða tekið).
  Ég er ennþá að hlæja að því þegar ég las hérna á síðunni að nýjasta plata Flaming Lips væri sumarplatan í ár!!!
  Einnig las ég dóminn um plötuna hennar Láru þar sem fyrsta setningin er “Ég hef aldrei verið hrifin af söngkonunni Láru” og í lok dómsins kemur setningin “Lára er ekki góð tónlistarkona”. Þessar tvær setningar eru algjörlega fáránlegar í plötudómi.
  Þessi dómur um plötuna hans Péturs Ben. stakk mig einnig þó ég hafi ekki verið búinn að gera mér grein fyrir því að sami aðili hafi skrifað alla þessa sérstöku plötudóma.
  Fyndnast fannst mér við þennan dóm var setningin “betri uppröðun laga er á fyrri hluta plötunnar” þar með er hún að segja að slæm uppröðun á síðustu 5 lögunum dragi úr gæðum seinni hlutans. Mjög spes!!

  Ég geri mér grein fyrir því að þið eruð ekki tónlistarspekingar (hver svo sem það er) heldur áhugasamir krakkar og eruð að gera góða hluti hérna. En ég les ekki plötudóma til að hneykslast á orðalagi og óvisku þess sem skrifar, þá er markmið rjómans fokið út um gluggann.

 6. Sigrún Eva says:

  Sammála því að þetta er hálfundarlega orðaður plötudómur, miðað við að hann er birtur í fjölmiðli. Rjóminn er ekkert að hækka sig í áliti með honum.

 7. Sigurdur J says:

  Hildur Maral:
  “Já, ég hugsa það sama og Árni. 3.5 er sirka 8 hjá mér. Það eru fáar plötur sem fá yfir 3 ef ég ætti að nefna einhverjar.”
  hmmm? 7 af 10 plötum sem Hildur hefur dæmt hafa fengid 3 eda meira…

 8. Hildur Maral says:

  3 af þeim 8 plötum sem ég hafði dæmt þegar ég skrifaði þessa athugasemd fengu hærra en 3.5 eða meira hjá mér, ég myndi ekki telja það neitt sérstaklega mikið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.