• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Bonnie ‘Prince’ Billy – The Letting Go

 • Birt: 25/09/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 7

Bonnie 'Prince' Billy - The Letting Go
Einkunn: 4
Utgafuar: 2006
Label: Drag City

…þrátt fyrir ófrumleika hittir The Letting Go algjörlega í mark.

Ég kem inn úr vetrarkuldanum. Vindurinn gnauðar úti fyrir og það blæs köldu inn um rúðuna. Ég dreg fyrir gluggana, kveiki á reykelsi og kertum, fer í mjúku innskóna og hita kakó. Þegar kakóið er tilbúið set ég svo The Letting Go með Bonnie ‘Prince’ Billy í spilarann og hnipra mig saman undir sæng. Ah. Fullkomið.

The Letting Go er nefnilega einn af þessum kósý-diskum sem þú átt uppi í hillu hjá þér. Þeir eru kannski ekki margir, en þú getur alltaf treyst á þá og þeir standa ávallt fyrir sínu. The Letting Go er kósý-diskur í hæsta gæðaflokki og ég held að það sé alveg óhætt að mæla með honum fyrir alla sem vilja dekra við sig í kuldanum sem hrjáir okkur Íslendingana, læra undir próf.. nú, eða bara gefa góða jólagjöf!

Will Oldham, öðru nafni Bonnie ‘Prince’ Billy, verður seint talinn leiðinlegur listamaður. Hins vegar er vel hægt að kalla hann einsleitan og hika ég ekki við að gera það. Hljómurinn er nær alltaf sá sami, lögin nauðalík og raddbeitingin ekki sú djarfasta. Málið er bara það að hann veit upp á hár hvað hann er að gera – og gerir það vel. Þegar eitthvað er vel gert er svo algjör óþarfi að kvarta, en það er einmitt ástæða þess að þrátt fyrir ófrumleika hittir The Letting Go algjörlega í mark.

Platan var tekin upp í Reykjavík og sá snillingurinn Valgeir Sigurðsson um upptökurnar. Íslenskir hljóðfæraleikarar prýða plötuna, en sérstaklega er vert að minnast á fiðlurnar sem ljá lögunum örlítið skuggalegan blæ og bæta vel á dramatíkina.

Við hlustun The Letting Go dettur manni margt skemmtilegt í hug. Ég hugsaði mikið um Mugison, indíána og hangikjöt… en hey, það er bara ég. Það er allavega bókað mál að hugmyndaflugið fer á flug, lögin eru þess eðlis að maður hreinlega neyðist til þess að hlusta á textana sem eru mjög sterkir og flottir, en Oldham hefur einmitt löngum verið þekktur fyrir góða texta.

Auk textanna er vert að hrósa söngnum. Hugljúfur, einlægur söngur Oldhams blandast angurværu rauli söngkonunnar Dawn McCarthy, en hún syngur bakraddir í nánast öllum lögum plötunnar og semur línurnar sínar sjálf. Spes raddanir eru þar í fyrirrúmi og tekur það dálitinn tíma að venjast söngstíl hennar sem er á háu nótunum. Þrátt fyrir afar venjulega rödd á McCarthy samt sem áður nokkrar af bestu laglínum plötunnar. Einfaldleikinn í fyrirrúmi – og það svínvirkar.

Að lögunum. Besta lag The Letting Go er að mínu mati annað lag plötunnar, „Strange Form Of Life“. Það er í drungalegri kantunum og er afar kröftugt. Eðal söngur og textasmíð í þessu lagi og ég mæli sterklega með því að þið reynið að nálgast það á einhvern hátt. Reyndar er frekar spes að besta lag plötu sé nr. 2 og setur það mann í hálfskrítna stöðu að bíða eftir hápunktinum sem aldrei kemur. Þrátt fyrir þetta er ekkert út á hin lögin að setja og eru þau flestöll alveg hreint frábær. Meðal þeirra má nefna lögin „Love Comes To Me“, „Cursed Sleep“ og „The Seedling“. Tveggja mínútna intro í lokalagi plötunnar, sem er ónefnt leynilag (aðeins 12 lög tilgreind á hulstrinu en það 13. er síðasta lag plötunnar) lokar svo plötunni á smekklegan hátt og skilur mann eftir vel sáttann með sitt.

Eins og á öllum plötum er svo einhver galli á The Letting Go. Það slæma að þessu sinni er t.d. hversu einsleit hún er. Maður er við það að fá ógeð á plötunni oftar en einu sinni, en það líður þó alltaf hjá og alltaf finnur maður eitthvað nýtt til þess að elska við plötuna. Þó varð ég fyrir vissum vonbrigðum með hana, þrátt fyrir að ég gefi henni 4 stjörnur af 5. Ég hefði viljað fá í hendurnar meistaraverk, ég hefði viljað gefa The Letting Go 5 stjörnur. Vona bara að Will Oldham, Bonnie ‘Prince’ Billy, lesi þetta og gefi sig 120% í næstu plötu – því ég veit hann getur það.

.

7 Athugasemdir

 1. Anton · 30/11/2006

  Mér þykir leiðinlegt að segja það, en þessi gagnrýnandi er ekki starfi sínu vaxin.

 2. Ásgeir · 30/11/2006

  Og á hverju ert þú að byggja það, ef ég má spyrja? Mér finnst þetta nú vera hinn ágætasti plötudómur og ég er nokkuð sammála honum, hefði bara hækkað einkunnina ef eitthvað er. Finnst hálf furðuleg að koma með svona fullyrðingu og rökstyðja ekki.

 3. Ívar Erik · 30/11/2006

  Mér finnst óréttlátt að vera alltaf að bíða eftir því að hann sendi frá sér plötu jafngóða og I See A Darkness. Finnst þessi stórgóð skemmtilegt að heyra í Will Oldham svona jákvæðum.

 4. Ívar E. · 30/11/2006

  “stórgóð og skemmtilegt..” átti þetta að sjálfsögðu að vera.

 5. Eiríkur · 30/11/2006

  Já, það er rétt að hann mun aldrei senda frá sér jafn góða plötu og ISAD. Mér finnst samt töluvert vanta upp á 5una á The Letting Go…

 6. Bogi · 30/11/2006

  „…þrátt fyrir ófrumleika hittir The Letting Go algjörlega í mark.”

  Ófrumlegheit er ekki galli.
  Betra er að gera góða ófrumlega tónlist en að gera slæma frumlega tónlist.

  Þetta er samt eins og þú segir vel 4 stjarna virði 🙂

 7. Júlíus Arnarson · 26/02/2007

  Hahahaha….

  “blandast angurværu rauli söngkonunnar Dawn McCarthy”

  “Maður er við það að fá ógeð á plötunni oftar en einu sinni”

Leave a Reply