• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Airwaves dómur: Tilly and the Wall – Bottoms of Barrels

 • Birt: 16/10/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 3

Airwaves dómur: Tilly and the Wall - Bottoms of Barrels
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2006
Label: Team Love

Klassískt dæmi um sumarplötu

Það fyrsta sem ég heyrði um hljómsveitina Tilly and Wall var að trommarinn spilaði ekki bara á trommur, heldur kæmi megnið af trommutaktinum frá steppskóm og klappi. Það eina sem ég gat hugsað var, gífurlega er það tilgerðarlegt. Án þess að hafa heyrt eitt einasta lag með þessari hljómsveit var ég búinn að dæma hana. Þetta var klárlega hljómsveit sem ég myndi ekki þola.

Svo fór ég að hugsa aðeins meira um þetta. Hversu ólýsanlega töff hlýtur þetta að vera á tónleikum. Að horfa á konu steppa og klappa allan taktinn. Svo færðist leiðindarökhyggja yfir mig á ný og ég hugsaði: Þetta virkar samt pottþétt ekki á plötu.

Svo leið nokkur tími og ég hugsaði ekkert meira um þessa tilgerðarlegu hljómsveit sem ég líklegast hataði. Ég hafði engan áhuga á því að hlusta á þetta rusl. Það er, þangað til að ég loksins heyrði í hljómsveitinni. Ég var að hlusta á hið stórskemmtilega podcast, All songs considered þegar ég heyrði lag sem mér fannst stórskemmtilegt. Þegar kynnirinn tilkynnti hvaða hljómsveit þetta var rann upp fyrir mér að ég hafði rangt fyrir mér. Hér var á ferðinni algerlega heillandi hljómsveit, og það að trommarinn væri steppari tengdist málinu ekki neitt. Það eina sem skipti máli var að lögin voru skemmtileg og grípandi.

Bottoms of Barrels er önnur plata Tilly and Wall og er á margan hátt mjög rökrétt framhald af fyrstu plötu þeirra, Wild like Children. Bottoms of Barrels er betri á allan hátt, en skortir hina óumlýsanlegu spilagleði sem var að finna á Wild like Children, en Þó Bottoms of Barrels sé betri, þá er Wild like Children sennilega skemmtilegri. Mörg lögin sem hér má finna eru frábær og þá má helst nefna upphafslagið „Rainbow in the Dark,” „Black and Blue,” „Bad Education” og „The Freest Man,” sem er sennilega það lag sem færir sig hvað lengst frá stepptaktinum.

Það er mjög auðvelt að hunsa Tilly and Wall sem tilgerðarlegt band með fáránlegt gimmick, en þá er verið að gera sömu mistök og ég gerði í upphafi: Gleyma að hlusta á tónlistina.

Bottoms of Barrels er klassískt dæmi um sumarplötu. Plata sem er skemmtileg, með svolítið sniðugum hugmyndum dreifðum um lögin, ekki of löng og oftar en ekki er söngur uppfullur af samspili nokkra radda. Þetta er fullkomlega óeftirminnileg plata, en á allan hátt stórskemmtileg. Ég mun hlusta á hana frekar mikið í sumar, en gleymi henni þegar kemur að næsta sumri. Ég bíð ekki í eftirvæntingu eftir næstu plötu Tilly and Wall, en þegar hún kemur út eftir eitt sumar eða tvö, þá set ég hana í spilarann og flyst á ný í sumargleði þeirra.

Tilly and the Wall spila í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu, fimmtudaginn 19. október kl. 21:15

3 Athugasemdir

 1. Atli · 16/10/2006

  Mér finnst þetta skemmtileg plata og hlakka til að sjá þau á Airwaves.

  Af hverju kommentar enginn? Er enginn að lesa lengur?

 2. Sævar · 16/10/2006

  Ég er að lesa en commenta aldrei. Góð plata og ágætis dómur

 3. Gummi Jóh · 17/10/2006

  Það er reyndar staðreynd að aðeins 1% lesenda eru virkir notendur, sem nota flesta fídusa og kommenta.

  9% lesa komment og fylgjast með.

  90% les meginmál og skiptir sér ekki af restinni.

  Heimsóknartölur Rjómans eru góðar drengir, þið eruð ekki einir hérna 🙂

Leave a Reply