Reykjavík! – Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol

Reykjavík! - Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol
Einkunn: 4
Utgafuar: 2006
Label: 12 Tónar

..tvímælalaust ein af plötum ársins.

Frumburður hljómsveitarinnar Reykjavík! kom í verslanir fyrir stuttu. Platan heitir því skemmtilega nafni Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol og þar sem það er kominn nóvember og fólk byrjað að spá í topplistum ársins 2006 þá læt ég það bara flakka strax: platan er tvímælalaust ein af plötum ársins.

Nú er rétt að taka fram að þessi plata er alls ekki fyrir alla. Ekki fyrir viðkvæma, hjartaveika, hommafælna, heyrnarskerta og húmorslausa. Hins vegar eru þetta allt minnihlutahópar og ég treysti mér algjörlega til að mæla með Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol fyrir þá sem þora!

Platan er allt annað en auðmelt. Það tekur margar hlustanir til að fíla þessa plötu smá, og enn fleiri til að fíla hana í botn. Ég hef hinsvegar gefið þessarri plötu alveg yfirdrifið nóg af tíma og þess vegna er hún búin að ná sér í fjarka og er á góðri leið með að komast hærra upp stjörnustigann. Ég er ekkert einsdæmi þegar kemur að þessu tímamáli í sambandi við plötuna, þvert á móti hafa allir sem ég þekki sem fjárfest hafa í plötunni annaðhvort hent henni frá sér strax við fyrstu hlustun eða þá gefið henni tíma og lært að elska hana.

Þeir sem ekki hafa heyrt í Reykjavík! hafa alveg pottþétt heyrt um Reykjavík! en þeir eru búnir að vera út um allt undanfarið og þá sérstaklega að spila á tónleikum í kringum útgáfu plötunnar, en þeir eru einmitt afar duglegir við að halda tónleika og oftar en ekki kostar ekkert á þá. Meðal annars spiluðu þeir á Airwaves hátíðinni í ár og hlutu góða dóma fyrir frammistöðu sína þar, enda mjög góðir ‘live’. Þar kemur krafturinn sem þeir búa yfir virkilega í ljós og ég mæli sérstaklega með því að þið kíkið á næstu tónleika þeirra, en þeir eru auglýstir á myspacesíðu þeirra félaga.

Sérstaða Reykjavík!ur er tvímælalaust söngur Bóasar Hallgrímssonar. Bóas er með mjög sérstaka rödd, hálf syngur og hálf öskrar á meðan kynþokkafullar stunur hljóma í bakgrunni. Spennandi og öðruvísi. Hljóðfæraleikurinn er líka til fyrirmyndar, einstaklega hrár og skemmtilegur, en það sem gerir plötuna einmitt svona hressa er hversu hrá hún er. Það myndi aldrei passa við hljómsveitina Reykjavík! að gera of pródúseraða plötu og mér finnst frábært að þeir hafi ekki fallið í þá gröf. Það sem einkennir plötuna er hressleiki á borð við Trabant, nema Reykjavík! er töluvert sveittari – sem er auðvitað ekkert nema gott mál. Karlmennskan skín í gegn og hún ásamt hávaðasamri geðveikinni gerir Reykjavík! að því sem þeir eru. Það er alveg augljóst mál að þeim finnst skemmtilegt að gera það sem þeir gera og sá boðskapur breiðist út til hlustandans. Mikið afskaplega hafa þeir skemmt sér í upptökuferlinu! Ég sé alveg fyrir mér æfingarhúsnæðið þeirra sem einkar kaótískt umhverfi: bjór, blóm, svitalykt, smákökur.

Það er vonlaust að komast ekki í gott skap við að hlusta á þessa plötu, allavega er ekki fræðilegur möguleiki að brosa ekki út í annað. Húmorinn er hvergi langt undan hjá þeim Kristjáni!, Valdimar!, Bóasi!, Hauki! og Guðmundi! – og það sama má segja um upphrópunarmerkin. Ástæða upphrópunarmerkisins sem fylgir nafni hljómsveitarinnar er sú, að sögn hljómsveitarmeðlima, að enginn getur verið hlutlaus þegar kemur að því að dæma tónlistina þeirra – og þetta er alveg rétt. Þess vegna er upphrópunarmerkið tekið með í reikninginn og fólk segir því ýmist „oh maður… djöfull hata ég Reykjavík!“ eða „vá hvað ég dýrka Reykjavík!“ (báðum setningum fylgt á eftir með upphrópunarmerki, annaðhvort í reiði- eða gleðitón.)

Að lögunum. Þau eru 14 talsins og er byrjunarlagið, „Blame It On Gray“, sanngjarnt loforð um gott framhald. Síðan streyma lögin í gegn hvert á fætur öðru og hvort öðru betra. Þótt fílingurinn í plötunni haldist sá sami út hana alla þá eru lögin mörg hver mjög ólík. Sérstaklega má nefna lagið „You Always Kill“ í þessu samhengi, sem og lagið „Advanced Dungeons & Dragons“. Bestu lög Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol að mínu mati eru þrjú. Fyrst ber að nefna lagið „7-9-13“ sem er einmitt fyrsta lagið sem ég heyrði með Reykjavík! og klárlega það hressasta með þeim félögum. Svo eru lögin „All Those Beautiful Boys“ og „O, Lord“ alveg hreint frábær líka og ég hvet alla til að kynna sér allavega þessi þrjú lög ef ekki er lagt í alla plötuna.

Nú, svo er það veiki hlekkur plötunnar – textagerðin. Það verður að segjast að það er heldur erfitt að greina hvað Bóas syngur/öskrar af þvílíkri innlifun. Þessvegna á ég heldur erfitt með að fjölyrða eitthvað um texta hljómsveitarinnar og tek undir með gagnrýnanda Morgunblaðsins sem stakk upp á því að með næstu plötu fylgdi textablað. Ég er þessi týpa sem vil geta sungið með af fullum krafti og það er frekar flókið þegar ég þekki ekki orðin, þá þyrfti ég bara að mumla eitthvað sem enginn skildi og það er ekki alveg málið held ég. Texta næst takk.

Svo að lokum er vert að minnast á gjafmildi hljómsveitarinnar, en þeir félagar ákváðu að gefa Rjómanum og lesendum hans sérstaka Vef-EP plötu með nokkrum óútgefnum lögum. Lögin eru ekki af verri endanum (kóver af Bowielaginu „Changes“ ber af) og vonandi að þau lendi bara á næstu breiðskífu hljómsveitarinnar. Til að nálgast gripinn, smellið hér. Nú hugsa sumir kannski um mútur en Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol er frábær plata sem á 4 stjörnur af 5 alveg fyllilega skilið – mútur eður ei. 12 Tónar voru sniðugir að ná þeim félögum strax til sín og það líður ábyggilega ekki á löngu þangað til heimurinn fer að veita þeim verðskuldaða athygli!

11 responses to “Reykjavík! – Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol”

 1. Addi says:

  Þessi plata fær að minnsta kosti 4,5 stjörnur hjá mér, endalaust góð og verður bara betri með hverri hlustun. 7-9-13, You Always Kill og O, Lord finnst mér bestu lögin.

 2. Finnbogi says:

  Ég veit það ekki….Það er eins og íslenskir gagnrýnendur rýni í vini sýna í músíkbransanum alltof vægt,svona yfir höfuð. Ég efast stórlega að þessar íslensku plötur sem þið sparið ekki stjörnurnar á myndu fá nokkuð hjá reyndum og alvöru,hlutlausum gagnrýnendum.

 3. Einar A says:

  Það er nokkuð til í þessu varðandi morgunblaðið og fleira en rjóominn hefur til þessa ekki verið þekktur fyrir að dæma íslenska tónlist sérstaklega jákvætt. og hvað gefur manni rétt til að kalla sig reyndan og alvöru hlutlausan gagnrýnanda? hvernig á maður þá að byrja? þitt mál er þvogult.

 4. Finnbogi says:

  Það sem ég á við er að láta ekki pérsónuleg sambönd lita niðurstöðuna í dómunum. Og einnig set ég spurningarmerki við það að ef maður sem hefur ástríðu og unun af tónlist geti endilega verið hæfur í að skoða málin frá heiðarlegri og hlutlausri hlið. Og Einar,þetta er ekki árás á neinn sérstakan. Það má alveg líta gagnrýnum augum á hvaða einstaklinga maður er tilbúinn til að treysta hvaða plötur væri sniðugt að hlusta á og kaupa.

 5. Einar A says:

  og þú þar með dæmdir þig úr leik með einu kommenti…. “sá sem hefur ástríðu og unun af tónlist…” hver annar?

  þú klárlega lýtur á tónlist sem einhverskonar vísindi, en ekki eitthvað frá hjartanu eða sálinni. og þá ert þú betur settur með uh fagmannlega og vandaða tónlist sem á ekkert skylt við list heldur meira pípulagnir eða önnur vísindi.

 6. Árni Viðar says:

  Ég veit reyndar ekki til þess að Hildur þekki Reykjavíkur! pilta eitthvað persónulega.

  Annars er margt til í þessu hjá ykkur báðum, Einari A með tilfinninguna og Finnboga með dóma um íslenskar plötur. Ég gæti t.d. aldrei dæmt margar íslenskar plötur því það er svo algengt að þekkja a.m.k. einhvern í hljómsveitinni.

 7. Finnbogi says:

  Gaman að því. Ég er ekki að setja útá dóm Hildar í þessu samhengi.Ég er einfaldlega að segja skoðun mína á því að ef að gagnrýnendur eru með geðþáttarákvarðanir í dómum sínum útfrá því að þeir þekkja þá og geta ekki lagt það til hliðar þá er ekki hægt að treysta því að það sé heiðarlegur dómur.
  Ég lít ekki á tónlist sem vísindi heldur er hún mitt hjartans mál og sáluhjálp en gerir það mig að góðum rýni eitt og sér?

 8. Einar A says:

  Ekki eitt og sér nei en það gerir þig hinsvegar heldur ekki óhæfan til þess að tala um hana eins og þú varst að segja hérna rétt áðan.

 9. Jón says:

  Ég held reyndar að margar íslenskar hljómsveitir sem hafa fengið frábæra dóma hérna myndu ekki fá eins góða umfjöllun utanlands en málið er þær eru íslenskar og þess vegna elskum við þær. Sumar gætu “meikað það” í útlöndum en ég efast það að margir myndu skilja mikið af þessum íslensku böndum, ef einhver myndi henda í ykkur disk með sæmilega vinsælli “indí” rokksveit frá Færeyjum sem væri að fá hæstu dóma þar í landi þá efast ég að margir Íslendingar myndu fíla hana, allavega ekki margir. Þetta eru hljómsveitir sem höfða til Íslendinga, ekki heimsins.
  Glacial landscapes, religion, oppression & alcohol er frábær plata og á alls ekki skilið undir neitt undir fjórum.

 10. júsless says:

  Gagnrýnendur þurfa að þola gagnrýni líka og kunna að taka því

 11. izlandi says:

  Halló! Þetta er geðveik plata, og hef ég notið hennar síðan ég keypti hana blindfullur í tollinum rétt fyrir jól, rétt eftir útgáfu. Eftir nokkur svöll á 11’unni. Er ennþá til linkur á þessi aukalög?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.