• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Fjórði í Airwaves

 • Birt: 22/10/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 7

Fjórði í Airwaves

Ljúfur laugardagur

Airwaves er hátíð. Þetta er voða einfalt. Fyrir tónlistaráhugafólk og tónlistarmenn er þetta vika engri annarri lík.
Airwaves er hátíð. Þetta er voða einfalt. Fyrir tónlistaráhugafólk og tónlistarmenn er þetta vika engri annarri lík. Bærinn er fullur af fólki. Erlendir gestir á hverju strái. Allir að ræða saman um tónlist og flestir virðast vera í hljómsveit – eða að minnsta kosti vilja það. Tónleikarnir skipta miklu auðvitað en stemmningin jafnvel ekki minna máli. Það er afskaplega góður andi. Airwaves er frábær. Ekki spillir fyrir að í ár virðist framkvæmdin hafa gengið miklu betur en í fyrra, allt mun skilvirkara og raðirnar hóflegar.

Í gær byrjaði ég á að sjá Bigga í Hafnarhúsinu. Hljóðið spillti fyrir, frekar fátt í salnum en ég er sem fyrr áhugasamur um að heyra plötuna hans. Erfitt að átta sig á því þarna hvort að hún sé spræk eða ekki. Biggi hefur alltaf verið flottur en það örlaði á því að maður saknaði Maus þegar fyrstu tónarnir fóru að hljóma.

Sá restina af Fortuna á Grand Rokk sem voru í miklu rokkstuði þar til ég skipti um gír og sá Togga á Þjóðleikhúskjallaranum. Þar var þétt setið og stemmning með ágætum. Fyndið að rólegheitapopparinn skildi slíta streng í fyrsta lagi. Stórsveitin Hjaltalín sem skartar selló, fiðlu og fagotti meðal hljóðfæra var áhugaverð. Hafði aldrei heyrt í þeim áður en væri til í að heyra meira. Söngkonan Sigríður var ansi góð.

Kíkti á Cribs í Hafnarhúsinu sem heilluðu mig ekki og hina bresk-íslensku Fields á Nasa. Fields voru sprækari, voru auðmjúk og Þórunn Antonía er með falleg söngrödd. Gæti verið eitthvað þarna á bak við. Væntanleg smáskífa þeirra hljómaði að minnsta kosti vel. Heyrum endilega meira.

Ætlaði að heyra í Brazilian Girls en yfirgaf tuttugu mínútum eftir að bandið átti að hefja leik til að sjá Jens Lekman í Þjóðleikhúskjallaranum.

Þegar ég gekk fram hjá Hressó voru einhverjir útlendingar að spyrja verðina þar hvar The National Theatre Basement væri og ég sagði þeim að ég væri á leiðinni þangað og myndi bara vísa þeim veginn. Derick, þeirra forsprakki, var sáttur og við ræddum málin heillengi. Hann var sérlega ánægður með dvölina og þegar ég spurði hann hvað stæði upp úr þá sagði hann mér að það væri líklega spilamennskan en hann var þá úr Tilly and the Wall sem spiluðu á fimmtudaginn. Ég notaði tækifærið auðvitað til að hvetja hann til að hvetja vini sína að koma að ári. Ég meina þau eru gefin út hjá Team Love sem er á vegum Conor Oberst (Bright Eyes) og þessi Omaha kreðsa inniheldur ekki bara Bright Eyes heldur líka Cursive, Rilo Kiley (og Jenny Lewis þar með), M.Ward, Cursive og fleiri og fleiri. Gaman að því. Gaman að hitta fólk á Airwaves. Vonandi fer hann heim og sannfærir allar hetjurnar um að mæta að ári.

Í Þjóðleikhúskjallaranum var margt um manninn. Hápunkturinn þegar Jens og hluti Benna Hemm Hemm, það er að segja hljómsveitarinnar ekki Benna sjálfs, tók örtónleika með Jens í lokin. Jens minnti mig á Jonathan Richman á köflum í nördapoppi sínu en hann á mörg góð lög og sum þeirra fengu að hljóma þarna. Jens og Jenny Wilson voru örugglega hin fínustu skipti en Jens kom í hennar stað á síðustu stundu.

Hinir kanadísku Patrick Watson komu næstir og þá var salurinn troðfullur. Áður en þeir hófu leik stóðst ég ekki mátið og gekk að meistaranum Spencer Krug úr Wolf Parade sem var kominn til að fylgjast með löndum sínum og þakkaði honum fyrir frábæra tónleika í gær. Hann var auðmjúkur sagði að þeir hefðu skemmt sér vel og væru sérlega ánægðir með dvölina. Klárlega ekki töff að labba að kappanum en ég varð bara að votta honum virðingu mína og þakka fyrir mig. Um leið að vona að hann komi bara að ári með stjörnubandinu sínu Swan Lake. Það er ekkert smá band með hann, Carey Mercer úr Frog Eyes, Daniel Bejar úr Destroyer og The New Pornographers innanborðs (Bíðið spennt: platan kemur út 21. nóvember).

Tónleikarnir þeirra í gær voru klárlega upplifun hátíðarinnar í mínum bókum og hann fékk bara að heyra það og hana nú.

En að Patrick Watson. Þeir voru skemmtilegir. Ég hafði lítið sem ekkert kynnt mér þá fyrir tónleikana en mun klárlega gera það í framhaldinu. Stemmningin var góð og þeir lögðu allt í sitt furðurokk.

Kvöldið var flott. Margir skemmtilegir tónleikar. Enginn augljós hápunktur eins og kvöldið áður nema þá helst allt fína fólkið sem maður náði að spjalla við og fanga hina frábæru Airwaves stemmningu með.

Airwaves er frábær (hlustið á Airwaves podcastið, Airwaves Rokkland og Airwaves hlaupanótu)!

7 Athugasemdir

 1. Hildur Maral · 22/10/2006

  Mér fannst persónulega Biggi hundleiðinlegur. Ekki alveg að gera sig. Hinsvegar stoð Pétur Ben (á undan honum) sig eins og hetja, mjög þéttir tónleikar þar á ferðinni. Svo voru Brazilian Girls alveg klárlega einn af hápunktum hátíðarinnar! Góð hátíð, veit samt ekki alveg hvort hún náði að toppa Airwaves 2005.

 2. Ívar E. · 22/10/2006

  Það var vitað fyrir að Jens Lekman yrði bestur í heimi en stemmningin sem að minnsta kosti ég upplifði í gær náði eitthvað út fyrir það. Fannst Patrick Watson og bandið hans líka virkilega góðir.

 3. Ívar E. · 22/10/2006

  Mikið var síðasta málsgreinin klaufalega orðuð…

 4. Gummi · 23/10/2006

  Lekman var algjör toppur, frábærir tónleikar og frábær stemning. Samt náði Patrick Watson að stela senunni í mínum huga, ekki síst eftir tónleikana á Gauknum í kvöld (sá hann bæði kvöldin).

 5. haukur hallssonur · 23/10/2006

  Ég hefði líklega aldrei skilgreint Jens Lekman sem nördapoppara en þú um það. Ég er hins vegar á því að tónleikar Jens hafi verið alveg frábærir. Stemmingin sem myndaðist þegar hann söng bæði ‘A Sweet Summer’s Night On Hammer Hill’ og ‘Black Cab’ var ólýsanleg. Svo fannst mér líka mjög fyndið að sjá Erlend Øye “spila” með honum.

  Þrátt fyrir að ég hafi misst af mörgu þá fannst mér af því sem ég sá; Jens Lekman og Mates of State toppar hátíðarinnar í ár. Svo voru Islands og The Go! Team mjög flott.

 6. bió · 23/10/2006

  Ætlaði ekki að móðga neinn en mér finnst nörd alls ekki neikvætt orð. Og hann er svona frekar nördalegur í smágítargírnum sínum.

  Annars skipta þessar skilgreiningar litlu máli þar sem JL var flottur. Er það ekki?

 7. Haraldur Ágústsson · 24/10/2006

  Mér finnst það bara klárlega mjög töff hjá þér að labba að Wolf Parade kappanum og þakka honum fyrir góða tónleika.

Leave a Reply