Beck – The Information

Beck - The Information
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2006
Label: Polydor

Nokkuð rökrétt framhald af Guero.

Í seinni tíð er erfitt að finna listamann sem er jafn skapandi og leitandi í tónlist sinni og Beck Hansen. Það sem gerir afrek hans enn betra er sú staðreynd að í allri tilraunamennskunni nær hann samt spilunartíma í útvarpinu.

Nú er um eitt og hálft ár liðið síðan Guero kom út sem var mikil breyting frá hinni rólegu og kassagítars drifnu Sea Change. Sagan segir að eftir Sea Change hafi vinnan við þessa plötu hafist en hún var sett á hillurnar meðan hann gerði Guero með Dust Brothers. Því er platan nokkurs konar brú milli þeirra tveggja platna þó svo tónlistin hér sé miklu nær Guero heldur en Sea Change. Beck ásamt pródúsernum Nigel Godrich fara um víðan völl í tilraunamennsku sinni. Frá hip hop skotnum lögum yfir í elektróník yfir í ballöður, þú finnur það allt hér. Fjölbreytnin er næstum því of mikil því það er eins og þeir félagar hafi ákveðið að sýna heiminum hversu fjölbreyttir þeir geta verið og leyft því of miklu af efni flakka á plötuna. Þannig missa sum lög hreinlega marks.

Platan er 15 lög, yfir klukkutími í hlustun, og satt best verður að segja að það hefði verið hægt að skafa þónokkuð af þeim tíma. En það er ekki allt á leiðinni til fjandans þó svo þessi ókostur sé á plötunni. Nei aldeilis ekki því Beck sýnir enn og sannar að þegar hann hittir naglann á höfuðið þá fer hann alla leið inn í spýtuna.

Platan byrjar gríðarsterkt, hvert góða lagið á fætur öðru og góð fjölbreytni í gangi. „Elevator Music“ er t.d. í miklu uppáhaldi og er það sérstaklega fyrir góða notkun á simatengdum aukahljóðum sem gera heilmikið fyrir lagið sem er fönkað og melódískt.

Í „Cellphone’s Dead“ tekur Beck fönkið og hrærir saman við hip hop í lagi sem minnir um margt á sum lög á Midnite Vultures, sem er líklega uppáhalds plata undirritaðs með listamanninum. Söngurinn er hinn klassíski Beck sem talar-syngur þannig að það hljómar nokkurn veginn eins og hann rappi. A+ fyrir tilraunamennskuna.
Í laginu sem fylgir, „Strange Apparition“, mætti halda að Jagger og félagar í Stones hafi tekið sér bólfestu í Beck því píanó stefið og takturinn sem lagið er byggt á er eins og snýtt úr nös þeirra félaga. Lagið er því sem næst trúar söngur og væri eflaust geðveikt að vera í kirkju og heyra klerkinn Beck þenja rödd sína yfir söfnuðinnn sem myndi án vafa missa sig á meðan lagið væri spilað en það er annað mál.
Í „New Round“, rólegu elektrónískt lagi, eru þeir félagar Beck og Godrich á svipuðum slóðum og Godrich og Thom Yorke voru á The Eraser og hefði þetta lag jafnvel getað læðst inn á plötu þess síðarnefnda.

Þegar lagi númer tíu er lokið þá fer að halla undan plötunni og lög fá að flakka inn á plötunni sem eru of mikil tilraunamennska og eyðileggja svolítið fyrir lögunum sem áður eru komin. Fremst þar í flokki er „1000BPM“ sem er of mikil tilraunamennska fyrir minn smekk, þó svo ég sé allur fyrir það að tónlistarmenn séu leitandi í sköpun sinni.

Eins og áður sagði er platan heil 15 lög að lengd og það versta er að hann hefði getað sleppt lögunum sem eru eftir lagi númer tíu nema ef vera skyldi „Movie Theme“. Ef Beck hefði gert þetta hefði hann staðið uppi með mjög fjölbreytta, hæfilega langa og góða plötu sem hefði allaveganna verið alveg solid 4 í einkunn hjá mér. En því er ekki fyrir að fara. Því mæli ég með að fólk tjekki á plötunni, leyfi fyrstu tíu lögunum að renna í gegn og séu svo tilbúin á skip takkanum þegar tíunda lagið rennur sitt skeið á enda. Nema fólk sé þeim mun meiri unnendur tilraunamennsku og notkun elektróníkur í rokk tónlist.

2 responses to “Beck – The Information”

  1. Mási says:

    Nokkuð sammála einkunninni. Annars finnst mér 1000 BPM eiginlega eitt besta lagið á plötunni. Virðist vera svolítið þannig að það sé eitthvað fyrir alla á þessari plötu, svakalegur grautur.

  2. Númi Kóla says:

    ég myndi hækka dóminn upp í 4,0 bara fyrir coverið

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.