• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

The Thermals – The Body, The Blood, The Machine

 • Birt: 09/11/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

The Thermals - The Body, The Blood, The Machine
Einkunn: 4
Utgafuar: 2006
Label: Sub Pop

Vá hvar hefur The Thermals verið allan þennan tíma?

Það hendir að maður heyrir lag í útvarpinu og hugsar. Vá þetta er rosalegt. Ný hljómsveit? Af hverju hef ég ekki heyrt í þessari hljómsveit áður? Það verður uppljómun og mikill áhugi vaknar. Frábær tilfinning fyrir tónlistaráhugamann. Hvar varst þú þegar þú heyrðir fyrst í Arcade Fire? Þegar ég hlustaði í bílnum á fyrstu tónana á The Body, The Blood, The Machine þriðju plötu hljómsveitarinnar The Thermals sem ég hef verið svo óheppinn að hafa aldrei heyrt í áður vaknaði svona tilfinning. Góð tilfinning það. Hækkaði vel í græjunum. Uppljómun? Síðan hef ég hlustað mikið og lengi. Þetta er rosalegt stöff.

Gegnumgangandi á plötunni er stefið að Bandaríkjunum sé stjórnað af íhaldskristnum fasistum sem eru að fara með allt til andskotans. Framreitt undir formerkjum postpopppönks, (hvað eru mörg pé í því) en þannig skilgreina þau sjálf tónlistina sína. Fyrir mér er þetta einfaldlega bjart gítarrokk á sterum.

Fyrsta lagið, „Here’s Your Future“, hefst með orgelhljómi líkt og í messu. Trúarstefið ljóst strax frá fyrsta tóni. Skömmu síðar hefst þó skerandi rokkgítarleikur. Grípandi þriggja hljóma gítarrokk með pönkbragði og skerandi söng. Guð talar til Nóa fyrir syndaflóðið að ég held.

God reached his hand
down from the sky
He flooded the land
then he set it afire

He said fear me again
know I’m your father
Remember that no one
can breathe underwater

Platan er frábær, lagasmíðar og flutningur til fyrirmyndar. Ákafir sannfærandi pólitískir textar sem vinna sem ein heild í gegnum plötuna án þess að um eiginlega sögu sé að ræða. Klárlega ein af sprækari plötum ársins. Ef hún heldur áfram að vaxa eins og hún hefur verið að gera frá fyrstu hlustun verður hún klárlega á mínum topp tíu árslista – og hugsanlega skrambi ofarlega. Alls 36 mínútur í tíu skömmtum af frábæru rokki með gítar, trommu og bassa í aðalhlutverkum. Ekki flókið en frábært er það.

Í forgrunni er ætíð hinni ákafi gítarleikur en áberandi er hvass orgelleikur sem aðalsprauturnar tvær skipta með sér. Rythmaleikur er einnig til fyrirmyndar enda Fugazi trommarinn Brendan Canty upptökustjóri plötunnar. Athyglisvert er að þau Hutch Harris sem syngur og spilar á gítar og Kathy Foster sem öllu jöfnu ber ábyrgð á bassaleiknum spila bæði á trommur á plötunni eftir að gamli trommarinn, Jordan Hudson, yfirgaf hljómsveitina. Nýr trommari er þó gengin til liðs við þau, Lorin Coleman, og því er bandið aftur orðið tónleikafært. Tónleikarnir virðast ansi mikið fjör.

„Here’s Your Future“ á tónleikum

Af mikilli góðmennsku býður Sub Pop okkur upp á að sækja hið frábæra „Pillar of Salt“. Lagið er ágætlega lýsandi fyrir stemmninguna á plötunni. Kraftmikið rokk, flottir „synthar“ og ákafur rokksöngur. Þarna finnst mér platan ná einna mestu flugi en önnur tilbrigði við stefið eru klassískari poppmelódíur eins og létt-pönk ballaðan „Test Pattern“ sem er vin í eyðimörk depurðar plötunnar og saknaðarástarsöngurinn „St. Rosa and the Swallows“ sem boðar öryggi í núinu en þó óvissu innan tíðar.

Það væri hægt að líkja The Thermals við Pixies, Guided by Voices, Green Day eða Ramones. Líkindin eru vissulega til staðar en bræðingurin er fyrst og fremst þeirra eigið „sound“ sem hvetur mig til að kynna mér það sem þau hafa áður gefið út – sem ég hef ekki gert til þessa. Tvær plötur hafa komið út áður og síðasta Fuckin’ A kom út árið 2004 og virðist hafa fengið góða dóma en litla athygli. Ótrúlegt að svona fínt rokkband gefið út hjá Sub Pop hafi ekki vakið meiri athygli til þessa. Stundum virðist manni að samningur hjá Sub Pop dugi sem flugmiði hálfa leið til heimsfrægðar.

Ég mæli með þessari plötu fyrir þá sem hafa gaman að „post-pop-pönki“ hvað sem það nú þýðir eða þá sem finnast þeir of töff til að hlusta á American Idiot með Green Day en líkar hún í laumi. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að hlusta á The Body, The Blood, The Machine með The Thermals því hér er hreinræktaður töffaraskapur á ferð. Sem er gott.

4 Athugasemdir

 1. Árni Viðar · 13/11/2006

  Fínasta plata sem kemur á óvart. Ég skil samt ekki samlíkinguna við drasl eins og Green Day (???????) Mér finnst hins vegar vera dálítill Pavement bragur á þessu af og til.

 2. bió · 13/11/2006

  Haha ég átti von á þessu…

  Þú ert bara indíþræll og vertu stoltur af því 🙂

 3. Andri · 14/11/2006

  Eftir reyndar þónokkrar hlustanir, þá byrjaði hún að vera dálítil þreytt. Samt sem áður er þetta mjög góð plata, byrjaði sem 4.5 plata en núna hjá mér, frekar svona 3.5 plata.
  Ég mu örugglega aldrei fá nóg af Here’s Your Future, A Pillar of Salt, Test Pattern og I Hold the Sound.

 4. Andri · 14/11/2006

  „He said fear me again
  know I’m your father
  Remember that no one
  can breathe underwater“

  Já, ég hélt að „know“ væri alltaf „Noah“.

Leave a Reply