• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

The Killers – Sam´s Town

 • Birt: 27/12/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

The Killers - Sam´s Town
Einkunn: 3
Utgafuar: 2007
Label: Mercury

Bandarískt indie rokk af bestu gerð.

Það verður að segjast að það telst alls ekki fínt að fíla The Killers, svipað og með Coldplay. Allir indie krakkarnir hrista hausinn þegar kemur að Killers og Coldplay, það hugnast þeim ekki að fíla eitthvað sem venjulega fólkið fílar líka. Það er auðvitað bara innihaldslaust snobb. Báðar sveitirnar og fjöldi annarra sem detta í sama flokk gera góða tónlist og það er auðvitað það sem telur.

Hot Fuss, fyrsta plata Killers tók tíma að slá í gegn en þegar það loks gerðist varð sveitin fáránlega vinsæl. Brandon Flowers, forsprakki sveitarinnar fór mikinn og fór t.d. í opinbert stríð við The Bravery sem börðust um hylli sama hlustendahóps með svipaðri tónlist og lét margar fleygar yfirlýsingar frá sér um að Killers myndu sigra heiminn og hvaðeina.

Sam´s Town, nýjasta plata Killers er öllu rokkaðri og bandarískari en Hot Fuss og meira t.d. í ætt við Bruce Springsteen og aðra þungavigtarmenn bandarískrar tónlistar. Platan byrjar af krafti á titilaginu og svo byrjar ballið.

Killers gætu seinna meir verið arftakar U2 (sem falla í sama pytt að hugnast ekki indie krökkum heimsins) svo þéttar eru gítarlínurnar sem eru fyrir framan allt annað ásama sudda þéttum bassalínum. Með þessu sem hliðar réttir eru svo synthar Brandons og góður trommusláttur.

Platan er langt um betri en Hot Fuss í mínum huga þó að á plötunni sé kannski engin stjarnfræðilegur hittari eins og Mr. Brightside eða Somebody Told Me. When You Were Young og Bones slaga þó langleiðina með það. When You Were Young er lag sem heillar mann við fyrstu hlustun og er svona eftirminnilegasta lagið. Bones aftur á móti kemur í gegnum bakhurðina, svona eins og plebbarnir sem fara inná Vegamót í gegnum eldhúsið þegar röðin er pökkuð fyrir framan. Bassinn í Bones er líka frábær ásamt blásturshljóðfærum sem færa lagið í hærri hæðir.

Killers nýta líka samsöng í mörgum lögum á plötunni svipað og Jeff Who , Toggi ásamt Drengjkór Breiðholts og síðast Ampop. Þetta er eitthvað sem mun væntanlega bara færast í aukana, það er töff að vera í kór og með kór.

Platan er góð, eiginlega bara mjög góð en það er svosem ekkert nýtt hér á ferðinni. Með því að hlusta t.d á Singles safn U2 væri betri gripur á ferð eða best of plötur The Smiths. Allt eru þetta áhrifavaldar Killers sem þeir leita til.

The Killer eru komnir til að vera, þeir eru ekkert allra en flestir geta þó sammælst um það að sumt af því sem þeir gera er bara helvíti gott.

2 Athugasemdir

 1. Jón · 08/01/2007

  Indie er orðið helvíti stórt hugtak í dag. Eina sem þú þarft til að vera indie band er að láta það byrja á the. En þú mátt kalla mig indie krakka ef þú vilt en ég verð að segja að the killers er nú ekkert spes hljómsveit þótt þessi diskur er mun betri en sá fyrri.

  En þú segir: „Bandarískt indie rokk af bestu gerð.” og svo fær diskurinn 3 af 5. Vill nú meina að það finnst Bandarískt indie sem á skilið 5 af 5.

  En með Coldplay þá eru þeir bara að hjakka í sama farinu. Maður fær bara leið af því, ágætis band engu að síður.
  U2 er hins vegar bara viðbjóður. U2 og carlsberg, draumablandan hjá fótboltaplebbum.

 2. Árni Viðar · 09/01/2007

  Hvað er annars indie-rokk?

  Ég held að enginn viti lengur hvað þetta indie hugtak þýði lengur….þetta er að stórum hluta bara snobb og tískufyrirbrigði hjá fólki sem vill vera “spes” en áttar sig ekki á því að það er nákvæmlega eins og allir hinir.

  Það er löngu búið að mainstream-væða þetta hugtak….alveg eins og gert var með pönkið á sínum tíma. Það er í sjálfu sér ekkert að því og þess vegna finnst mér bara fyndið að hlusta á fólk sem predikar stanslaust hvað það er rosalega indie (og allt sem það gerir sé svo indie að enginn annar fatti það!) en þekkir síðan ekki neinar hljómsveitir sem ekki hafa verið í the oc eða fengið góðan dóm á bitchfart….nei, ég meina pitchfork.

Leave a Reply