• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Gavin Portland – iii: Views of distant towns

 • Birt: 25/01/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 14

Gavin Portland - iii: Views of distant towns
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: 12 Tónar

Nýtt hágildi íslenskrar rokktónlistar.

Í This is Spinal Tap er frábært atriði þar sem gítarleikarinn Nigel útskýrir hvernig Spinal Tap létu smíða fyrir sig sérstaka magnaratakka sem ná upp í 11, í staðinn fyrir 10, fyrir þessi augnablik þegar maður þarf aðeins meiri kraft. Á iii: Views of distant towns hafa magnaratakkarnir verið snúnir af og útkoman er langbesta rokkplata sem hefur komið frá íslenskri sveit í mörg ár.

Sveitin er nokkuð nafnlaus út á við, hana skipa strákar úr hljómsveitunum Fighting Shit og Brothers Majere sem heita Kolli, Þórir, Addi og Sindri. Sá eini sem ég veit einhver deili á er Þórir, sem er einnig þekktur undir listamannsnafninu My summer as a salvation soldier. Mér skilst þó að allir hafi þeir verið virkir í harðkjarnasenunni í nokkurn tíma, sem kemur ekki á óvart því iii: Views of distant towns er þéttari er demantur frá Suður-Afríku.

Eftirá kemur harðkjarnabakgrunnurinn ekki mikið á óvart, því iii er harðari en flest sem mér dettur í hug í fljótu bragði. Fyrsta lagið hefst á frábæru gítarriffi sem grípur mann um leið og áður en maður veit af er platan hálfnuð. Það eru eiginlega bara tveir punktar á plötunni, í „Breathing is hard work“ og „Watch out for the bears“, þar sem er dregið eitthvað úr keyrslunni, en þeir eru báðir stuttir og er fylgt hressilega eftir. Restin af plötunni er svo Skeiðarárhlaup af öskrum og bjöguðum gítörum.

Fyrri lágpunkturinn hlýtur þó að vera eitt eftirminnilegasta augnablik á íslenskri plötu fyrr og síðar; í miðju stefi kemur dauðaþögn og gamli kallinn úr Nóa Albínóa byrjar að röfla:

„Hlustaðu á þetta: Annað hvort giftir þú þig eða þú giftir þig ekki, þú iðrast hvors tveggja… Hengdu þig eða hengdu þig ekki, þú munt iðrast hvors tveggja. Annað hvort hengir þú þig eða þú hengir þig ekki, þú iðrast hvors tveggja. Þetta, herrar mínir, er kjarninn í allri lífsvisku.“

og svo heldur lagið áfram eins og ekkert hafi gerst. Að detta yfir höfuð í hug að bæta svona bút inn í lag er eitt, að ná að framkvæma það á þann hátt að viðbótin gerir lagið ennþá betra ber aðeins vott um gríðarlega skýra sýn á hvað maður vill gera.

Allir þeir dómar sem ég hef lesið um iii hafa gagnrýnt hvað hún er stutt. Það ætti vissulega að koma fram að hún er ekki nema hálftími eða svo, en ég held að lengdin hafi verið sterkur leikur hjá Gavin Portland. Bæði er tónlistin þannig að ef maður hlustar á of mikið af henni dofna áhrifin og vegna þess að platan er svo stutt vill maður meira um leið og hún klárast. Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef rennt iii í gegn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í röð.

Á meðan ég stend við að þetta er besta plata sem ég hef heyrt lengi verður að segjast að hún er alls ekki fyrir alla. Jafnvel góður hluti þeirra sem fíla rokktónlist gætu þurft nokkrar tilraunir til að venjast henni, og það er eina ástæðan fyrir því að ég gef henni ekki fimm stjörnur á staðnum. En ef maður gefur iii tækifæri fer maður fljótt að meta hana sem þá gersemi sem hún er, og þá er ekki aftur snúið.

14 Athugasemdir

 1. Árni Viðar · 26/01/2007

  Góður dómur og góð hljómsveit!

  Annars er ekkert til sem heitir of stutt plata….ég meina, hvað er Pink Moon t.d. löng? Það eru hins vegar til of langar plötur en ég vil frekar fá smá quality control í stað þess að hrúga allt of mörgum lögum á eina plötu.

 2. Árni Þór · 28/01/2007

  fínasti dómur og frábær plata! Ég er sammála því að þetta sé ein af allra allra bestu íslensku plötunum sem komu út 2006 en .. mig langar að spurja út í eitt varðandi dóminn.

  Er ekki svolítið kjánalegt að taka 0,5 af vegna þess að “góður hluti þeirra sem fíla rokktónlist gætu þurft nokkrar tilraunir til að venjast henni.” Á ekki dómur um plötu að vera skoðun þess sem skrifar hann og ekki láta stjörnugjöf ráðast af því hvað almenningu gæti eða gæti ekki fundist?

  Annars, eins og ég sagði, mjög fínn dómur!

 3. Ívar E. · 28/01/2007

  Ég er ekki viss um hvort einhver meðlima Gavin Portland sé í Fighting Shit, en ef ég man rétt voru það þeir sem sömpluðu kvót úr High Fidelity inn í eitt lagið sitt.

 4. Hildur Maral · 28/01/2007

  Flottur dómur. Get ekki beðið eftir að heyra þessa!

 5. Haukur · 29/01/2007

  Gott mál. Það á að fara mjög sparlega með hæstueinkunn.

  Og GP er kikk ass plata.

 6. Haraldur · 29/01/2007

  Það eru nú alveg þrjár plötur búnar að fá 5.0 í einkunn hjá Rjómanum eftir því sem ég veit best, þannig að fordæmið hefur nú þegar verið sett.

 7. Þórir · 29/01/2007

  Jú það er alveg hárrétt að það séu meðlimir úr Fighting Shit í Gavin Portland. Tveir okkar koma úr Fighting Shit.

  Og ég er hjartanlega sammála því að hæstu einkun á helst nærri aldrei að gefa.

  Annars þakka ég nú bara hlý orð.

  -Þórir

 8. Árni Viðar · 29/01/2007

  Persónulega ætti ég mjög erfitt með að gefa plötur 5 stjörnur, jafnvel þó það sé fordæmi fyrir því hér……

 9. Símon Böðvarsson · 29/01/2007

  Hafið þið nokkura hugmynd um hvar ég gæti nálgast þessa plötu, hef gríðarlegan áhuga á henni.

 10. Árni Viðar · 30/01/2007

  Hún á að vera til í 12 tónum

 11. Gísli · 30/01/2007

  Svakaleg plata.

  Besta rokkplata síðari ára að mínu mati. Ég man reyndar ekki eftir neinni betri íslenskri rokkplötu.

 12. Hildur Maral · 30/01/2007

  Platan fæst í 12 Tónum og verlsunum Skífunnar.

 13. Árni · 06/02/2007

  Gunni: Ég var ekkert að setja út á að þú gæfir þeim ekki fullt hús en ástæðan sem þú gafst fannst mér mjög svo furðuleg.

  En já ég er líka sammála með að það á aldrei að gefa fyrstu einkunn .. eða .. mjög sjaldan þá!

  Annars: klikkuð plata og fínasta dómur!

 14. Orri · 21/02/2007

  Þessi plata er klikkaðslega geggjað góð.

  Það eru færri sem vita að þetta er þriðja platan sem Gavin Portland gerði árið 2006 (já! þeir gerðu 3 plötur á einu ári).

  Á undan komu út tvær EP plötur og fór lítið fyrir útgáfu þeirra, ég hafði töluvert fyrir því að eignast þá fyrri (fór oft og spurði um hana). Seinni EP plötuna fann ég aldrei en fékk hana senda á msn…
  Þetta eru ekki öll afköst þessara drengja því Fighting shit gáfu líka út plötu sem og Best Hardcore band in the band sem trommarinn er í.
  Allar þessar 5 plötur eru í efstu sætum yfir þær plötur sem ég hlustaði á árið 2006.

  Varðandi stuttar og langar plötur þá finnst mér mörgum sinnum betra þegar plata er of stutt heldur en þegar hún er of löng (samt finnst mér þessi ekki of stutt).

Leave a Reply