• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Oceansize – Everyone into position

  • Birt: 31/01/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Oceansize - Everyone into position
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Beggars Banquet

Fínasti progrokk skammtur til að hlýja manni í skammdeginu.

Nú þegar árið er nýliðið fara að detta inn plöturnar sem mann langaði rosalega til að dæma í fyrra en gleymdi því alltaf. Everyone into position með Manchester bandinu Oceansize er ein af þeim. Henni tókst að fljúga undir ratsjá hjá næstum öllum sem ég þekki, sem er ver og miður því þetta er sérdeilis prýðileg plata.

Tónlist Oceansize er ágætlega lýst sem því sem Sigur Rós og Isis eiga sameiginlegt. Hér er allt vaðandi í flottum og dreymandi gítarlínum með traustum bassa og trommugrunni undir, og það koma kaflar sem minna mikið á fyrrnefndar hljómsveitir. Oceansize sker sig helst úr í söngnum; bæði er kökuskrýmslið úr Isis er víðsfjarri og það vantar allt „ítjú“ í þá. Í staðinn fáum við svona líka skemmtilega venjulega rödd Mike Vennart sem er yndi að hlusta á.

En aftur að plötunni; við fyrstu hlustun grípa þrjú lög mann strax. Það eru „Meredith“, „Music for a nurse“ og lokalagið „Ornament / The last wrongs“ sem eiga það öll sameiginlegt að vera nokkuð lágstemmd framanaf, og „Meredith“ hefur meira að segja heyrst í The O.C. eins og allir góðir hlutir.

Þetta eru allt frábær lög, sérstaklega „Ornament…“ sem komst beint inn á listann minn yfir topp tíu lokalög, en það er ekki fyrr en eftir nokkrar hlustanir sem restin af plötunni fer að vinna á. Þá áttar maður sig hinsvegar á því að Everyone into position er mjög heilsteypt plata þar sem hugsað hefur verið fyrir hverju smáatriði. Fiffið er auðvitað að vera ekki hættur að hlusta áður en maður áttar sig á þessu síðasta.

Þrátt fyrir hina ýmsu kosti er líftími Everyone into position ekki mjög langur. Ég gef henni svona tvo til þrjá mánuði, þá er hún orðin að skemmtilega gaurnum úr gömlu vinnunni sem maður hringir aldrei í lengur. Þetta endingarleysi er einmitt helsta ástæðan fyrir að hún fær ekki betri einkunn frá mér, eins skemmtileg og hún er.

Þeir sem gefa Everyone into position tækifæri verða örugglega ekki fyrir vonbrigðum. Á henni er fínasta progrokk til að fleyta manni í gegnum skammdegið, en til langtíma litið er ansi hætt við að hún gleymist í kassa næst þegar maður flytur.

The Charm Offencive

Leave a Reply