• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Mastodon – Blood Mountain

 • Birt: 12/02/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Mastodon - Blood Mountain
Einkunn: 4
Utgafuar: 2006
Label: Warner Brothers

Greddumetall af bestu gerð.

Mastodon er nýr í hópi þeirra sveita sem hafa fengið á sig goðsagnakenndan blæ, þar sem aðdáendur hennar verja hana fram í rauðan dauðann. Þeir hafa unnið sér inn þá hylli með þeirri hugsjón að spila á smærri stöðum til að öðlast meiri nálægð við aðdáendurnar. Það í bland við hylli gagnrýnenda hefur komið hljómsveitinn hratt á þann stall sem hún er í dag og með nýjustu plötu sinni Blood Mountain sýnir hún að hún stoppar ekki lengi þar á leið sinni enn hærra.

Það fyrsta sem grípur mann hjá Mastodon er hin gífurlega keyrsla sem einkennir plötuna. Sveitin spilar greddumetal af bestu gerð og trommuleik sem þennan hef ég ekki upplifað síðan ég heyrði Jon Theodore berja húðirnar á fyrstu plötu Mars Volta, Deloused in the Comatorium. Brann Dailor á það sameignlegt með Theodore að flækja trommuleikinn ekki um of en ekkert lát er á hamaganginum alla plötuna og yrði ég ekki hissa að sjá þá tvo skokka saman í næsta maraþoni.

Aðrir hljóðfæraleikarar gefa Dailor lítið eftir og er gítarleikur plötunnar alveg stórfenglegur. Mikið er rúnkað út í gegn og melódískar línur skreyta plötuna á mjög sannfærandi hátt. Fyrst ég er búinn að nefna Mars Volta einu sinni þá er gaman að nefna að gítarleikur lagsins „Capilliarian Crest“ er einmitt mjög í anda þeirra sveitar og er eitt besta lagið á plötunni en sem betur fer er það ekki ráðandi áhrif. Þéttleikinn er ríkjandi á kostnað frumleikans en nær að fá hlustandann til að líta framhjá þeirri staðreynd.

Caprilliarian Crest

Söngurinn er kraftmikill og er öskurstíllinn ráðandi en af og til koma lágstemmdar melódíur í bland. Mig grunar að Brent Hinds sé áhugaverðari sem gítarleikari en söngvari því þótt söngurinn sé viðeigandi og skemmi alls ekki fyrir þá er hann engan veginn það sem er heillandi við sveitina. Ég gef ekki mikið fyrir textana en flestir þeirra hafa kunnuglega D&D fílinginn, fjallað um dauða, ævintýrakennda hluti á borð við villtar skepnur og frumkrafta jarðar sem og málefni sálarinnar. Allt farið eftir gátlistanum í þeim málefnum en Mastodon er ekki sveit sem hlustað er á út af textunum. Þar sem skortir á í textagerðinni er bætt um all svakalega þegar kemur að hljóðfæraleik.

Það er erfitt að missa sig yfir disknum þar sem hann er það ágengur út í gegn. Hlustandinn fær ekki hvíld fyrr en í lokalaginu „Pendelous Skin“ og hentar það áðdáendum þessarar stefnu líklega vel en þar sem Mastodon er óðum að teygja sig til eyrna almennings þá er hætt við að það dragi úr þeim áhrifum sem platan gæti haft sem heildarverk. Þrátt fyrir það er þetta plata sem sveitarinnar verður minnst fyrir og er ég mjög nálægt því að kalla hana meistaraverk. Ef litið er eingöngu á hljóðfæraleik þá er hún það út í gegn.

2 Athugasemdir

 1. Óskar · 12/02/2007

  Já snilldarplata og hefur hún varla vikið úr spilaranum hjá mér að undanförnu. Klárlega ein af betri eða jafnvel sú besta metalplata ársins 2006

 2. Dóri · 23/02/2007

  Það er margt til í því sem þú segir með söngin og svo sem textan líka en það er ástæða fyrir því að þetta er svona. Upphaflega var hljómsveitin með sér screamo söngvara sem að svo þurfti að hætta. Mastodon menn voru á leiðinni á túr þannig að úr varð að þeir sömdu texta fyrir öll lögin sem komin voru og sungu það bara sjálfir. Það virkaði ágætlega og þessvegna héldu þeir sig við það. Söngurinn er kannski ekki angurvær eða margbreytilegur enn hann kemur sínu til skila, sem er kraftur. Sérstaklega ef hlustað er á fyrri plötu þeirra “Leviatan” þá marrar í hátölurunum út í gegn. Fyrir utan náttla í rólaga laginu undir endan líkt og á þessari plötu. En þeir hafa verið duglegir að fá gesta söngvara á plöturnar sínar í staðin.
  Hvað textan varðar er þetta náttúrulega þemaplata og sem slík með afmarkaða texta.
  Allavega, fínn dómur og frábær plata

Leave a Reply