• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Ólafur Arnalds – Eulogy for Evolution

 • Birt: 13/02/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

Ólafur Arnalds - Eulogy for Evolution
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: Progress(ion) Records

Fallegasta frumraun sem ég hef heyrt lengi.

Eulogy for Evolution er fyrsta sólóplata Ólafs Arnalds. Hann er þó ekki nýr af nálinni í íslensku tónlistarlífi, var til að mynda í hljómsveitinni Fighting Shit. Það er því óhætt að segja að tónlistin sem hann er að gera núna sé af allt öðrum toga, því Eulogy for Evolution einkennist aðallega af klassískum melódíum og róstemmdum strengjum.

Platan er tekin upp í RMP, Reynivallakirkju og Áslandi og mixuð í Heita Pottinum. Ólafur spilar sjálfur á píanó, gítar, trommur, orgel, bassa og melódiku en auk þess prýða strengir Eulogy for Evolution. Það er ekkert sungið á plötunni, en það kemur varla að sök þar sem stórkostlegar lagasmíðar setja svip sinn á hana svo um munar.

Í raun ætla ég að ganga svo langt að kalla Eulogy for Evolution fallegustu frumraun sem ég hef heyrt lengi – og þar er „falleg“ lykilorðið. Allt við plötuna er fallegt, en þó sérstaklega tvennt: Lögin, sem eru tregafull og sæt og svo tónninn í hljóðfærunum, tær og fagur. Píanóið er í brennidepli auk strengjanna, en inn á milli heyrist í óvenjulegri hljóðfærum t.d. melódiku og orgeli.

Yfir Eulogy for Evolution hvílir einhver einkennileg ró, hlustandinn hrífst með og rankar ekki við sér fyrr en platan er búin. Angurvær lögin hafa mjög róandi áhrif á hvern þann sem hlustar, áhrif sem jaðra við það að vera svæfandi – en þó er alltaf eitthvað athyglisvert að gerast í lögunum sem heldur hlustandanum föstum allt til enda.

Sumir vilja meina að þessi frumburður Ólafs Arnalds sé einum of líkur Sigur Rós, en það er fjarri lagi. Áhrif frá Sigur Rós eru vissulega greinileg, en það eru þá helst strengirnir sem minna mann á þá félaga. Hins vegar finnst mér vel hægt að líkja lögunum á Eulogy for Evolution við eitthvað úr smiðju Hilmars Arnars Hilmarssonar og er þar ekki leiðum að líkjast.

Eulogy for Evolution er að vissu leiti undirspil, þar sem enginn er söngurinn og lögin oft óþægileg lík. Hins vegar rennur platan mjög vel í gegn og þrátt fyrir að vera heldur einsleit á köflum er vel hægt að hlusta á hana mörgum sinnum án þess að fá leið á henni.

Plötuna er varla hægt að slíta niður í einstaka lög – hún er hugsuð sem heild.
Þetta má sjá á því að lögin renna nær alltaf beint yfir í það næsta og sameinast. Einnig heita lögin ekkert, þau eru merkt með tölum. Þetta er samt frekar kostur en ókostur þar sem það passar hreinlega ekki að búta lögin niður, platan er heilsteypt verk sem ekki má slíta í sundur.

Eins og á öllum öðrum plötum er þó viss hápunktur á Eulogy for Evolution. Það sem hinsvegar er sérstakt við plötuna er það að þessi tiltekni punktur er alveg í lokin á síðasta laginu! Þá er lag 7 búið að renna saman við hið stutta nr. 8 og er afskaplega venjulegt þar til allt í einu að lagið leysist upp í einhverskonar rokk-bræðing. Trommurnar eru ekki til sparaðar og allt er keyrt á fullu þar til svona rispu-hljóð heyrist (eins og platan sé rispuð) og lagið dettur aftur inn í kyrrðina sem áður ríkti.. og með því endar platan. Mjög flottur endir, vægast sagt.

Eins og (nær) alltaf hefur platan þó sína neikvæðu punkta. Á Eulogy for Evolution eru ekki neinir stórir gallar beint, en eitthvað vantar þó upp á til að hún nái að heilla mann upp úr skónum. Lögin eru líka, eins og áður kom fram, helst til einsleit á köflum. Sumir eiga svo ábyggilega eftir að segja það galla hversu lágstemmd hún er.. en eins og alltaf er hægt að deila um það. Það er þó víst að platan er ekki fyrir alla, jafnvel þótt hún tilheyri mjög breiðum hlustendahópi.

Ég mæli hinsvegar eindregið með því að allir gefi Eulogy for Evolution tækifæri – hún er allavega ekki að fara úr mínum spilara á næstunni, svo mikið er víst.

Ólafur hélt útgáfutónleika vegna Eulogy for Evolution þann 12. febrúar síðastliðinn, í Von (S.Á.Á.) í Efstaleiti 7. Með honum var strengjakvartett sem stóð sig ágætlega, ég hef þó séð betri strengi. Út á Ólaf sjálfan var ekkert að setja. Hann gerði plötunni góð skil auk þess sem hann tók og breytti „Sofðu, unga ástin mín“ sem flestir ættu að kannast við.

Tónleikarnir voru í styttri kantinum, tæpur klukkutími, en áhorfendur voru djúpt sokknir í tónlistina og virtust njóta tónleikanna vel, allavega gerði ég það. Salurinn var kannski ekki upp á marga fiska, en þó var hljómburðurinn góður.

Ólafur heldur til útlanda í mars að spila og það er vonandi að hann standi sig jafn vel þar og hann gerði á tónleikunum á mánudaginn, þá er hann Íslandi til sóma.

5 Athugasemdir

 1. Símon Böðvarsson · 15/02/2007

  Maður ætti kannski að kíkja á þessa

 2. Gunni · 15/02/2007

  Flottur dómur, fær maður plötuna í öllum þessum venjulegu búðum?

 3. Óli · 15/02/2007

  Takk fyrir góðan dóm! vel skrifuð og skemmtileg lesning.. Langar reyndar að benda á, ef þú áttaðir þig ekki á því sjálf, að nokkur lögin eru í rauninni mismunandi útfærslur af sama laginu/sömu hugmyndinni – og platan því kannski svolítið “einsleit”, en það er gert fullkomlega viljandi. Auðvitað má svo deila um hvort það sé góður eða slæmur hlutur 🙂

  Já, platan ætti að fást í öllum helstu plötubúðum, en er auðvitað ódýrust í 12 Tónum – enda sjá þeir um dreifingu plötunnar á íslandi.

 4. Hildur Maral · 15/02/2007

  Takktakk, ég hafði ekki áttað mig á því nei!

  En platan fæst allavega í 12 Tónum og Skífunni, endilega að tjekka á henni.

 5. Kjartan Holm · 26/02/2007

  Ég eeeeelllllsssskkkkkaaaa humar!

  Fíla einnig Óla!

Leave a Reply