• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Fréttir Vikunnar

  • Birt: 08/03/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

Fréttir Vikunnar

Hróaskelda, Reykjavík!, GusGus og Blonde Redhead

Fréttir vikunnar í hnotskurn
Beastie Boys og The Killers á Hróaskeldu

Enn bætist við listann á Hróaskeldu. Nú hefur verið staðfest að bandarísku stórsveitirnar Beastie Boys og The Killers munu skemmta tónleikagestum. Varla þarf að kynna sveitirnar fyrir lesendum en Beastie Boys hafa verið leiðandi í hip-hop menningu Bandaríkjanna um áratugaskeið og eru þekktir fyrir mikla orku á tónleikum. Slagarakóngarnir í The Killers eru nú að fylgja eftir sinni annari breiðskífu, Sam’s Town, en frumburður þeirra Hot Fuzz hefur selst í milljónum eintaka og er varla mannsbarn sem kannast ekki við tónlist þeirra.

Einnig hafa þrjár sænskar sveitir bæst í hópinn. Mado Diao spilar blöndu af New York-ættuðu bílskúrsrokki og britpoppi með rokkriffum og grípandi melódíum. Peter Bjorn and John, sem mun spila hér á Nasa þann 13. apríl næstkomandi, blandar saman rólyndisrokki við þjóðlagapopp og hefur lagið þeirra „Young Folks“ verið talið til bestu laga síðasta árs. Að lokum er það pönkrokk sveitin Quit your Dayjob sem er þekkt fyrir hnyttna texta og að blanda surfrokki og raftónlist inn í lög sín.

Miðar á Hróaskeldu fást á Miði.is
Heildarlisti hljómsveita er hægt að sjá á heimasíðu hátíðarinnar.

Ný smáskífa frá Reykjavík!

Sem fyrr eru drengirnir í Reykjavík! ekkert að slóra. Ný smáskífa, sem tekin var upp um síðustu helgi, kemur í búðir í dag og ber nafnið Dirty Weekend With Reykjavík!. Hljómsveitin ætlar að standa við nafgift skífunnar og bíður í útgáfu- og afmælispartý í kvöld á Kaffibarnum þar sem þeir munu stíga á stokk ásamt Árna plús einum en samhliða smáskífunni kemur út endurhljóðblönduð útgáfa Árna af henni. Hljómsveitin heldur svo í víking til Bandaríkjanna þar sem þeir munu m.a. spila á hinni rómuðu SXSW hátíð í Texas áður en haldið er til Danmerkur og Hollands. Báðar skífurnar verða seldar í partýinu á vægu verði en fjörið byrjar kl. 21:00 og er aðgangur ókeypis.

GusGus kemur úr felum

Miðasala á útgáfutónleika GusGus er hafin á síðunni Miði.is en tónleikarnir eru þeir fyrstu í heilt ár og verða haldnir á Nasa. Breiðskífan Forever kom út fyrir réttri viku en hún er búin að vera í vinnslu undanfarin fimm ár og hefur fyrsti singullinn „Moss“ hlotið mikla útvarpspilun undanfarið. Ásamt GusGus kemur fram hljómsveitin Petter and the Pix, sveit Petter Winniberg úr Hjálmum, og fagnar jafnframt útgáfu plötu sinnar Easily Tricked, sem kom út í lok síðasta árs.

Blonde Redhead snýr aftur

Bandaríska indierokksveitin Blonde Redhead spilar hér á landi í fjórða sinn þann 5. og 7. apríl, fyrst í höfuðborginni á Nasa og svo á landsbyggðarhátíðinni Aldrei fór ég Suður á Ísafirði. Með henni er í för er söngkonan Kristin Hersh, aðalsprauta sveitarnnar Throwing Muses, og íslensku djöflarnir í Reykjavík! Sjöunda plata Blonde Redhead kemur svo út í kjölfarið en hún hefur hlotið heitið 23. Miða á tónleikana er hægt að nálgast á Midi.is

Blús í reykjavík

Hin árlega Blúshátíð í Reykjavík nálgast senn en hún fer fram á Hótel Nordica 3. – 6. apríl auk þess að sálmatónleikar fara fram í Fríkirkjunni að kvöldi föstudagsins langa og klúbbastemning verður á Domo, Þingholtsstræti, að dagskrá dagsins lokinni. Meðal gesta á hátíðinni eru Ronnie Baker Brooks en hann er ein skærasta unga stjarna bandarísku blússenunnar og Zora Young, sem var eitt stærsta númerið á hátíðinni í fyrra og syngur með Blue Ice bandinu. Meðal íslenskra flytjenda eru KK, Andrea Gylfa, Laylow og Kentár. Hægt er að fá miða á hátíðina eða einstaka viðburði á Midi.is.

Josh Groban í Laugardagshöll

Poppbarítóninn Josh Groban mun koma fram í Laugardagshöll þann 16. maí í boði Concert. Groban hefur náð alheimshylli með því að blanda saman klassískri tónlist við popp og er einn söluhæsti klassíski tónlistarmaður heimsins í dag. Með Groban kemur fram Sinfóníuhljómsveit Íslands og Gospelkór Reykjavíkur. Miðasala á tónleikana verður auglýst á næstu dögum.

Jamiroquai enn starfandi

Jay Kay, söngvari fönksveitarinnar Jamiroquai, hefur blásið á þær fregnir um að sveitin hafi látið af störfum. Segir hann fréttirnar spunnar upp af fjölmiðlum sem rangtúlkuðu orð hans um að sveitin tæki sér frí á meðan upptökuhljóðver þeirra væri endurinnréttað. Jay Kay er harðorður í garð fjölmiðla sem hann sakar um að hagræða sannleikanum fyrir ódýrar fyrirsagnir og að sveitin, sem nýlega losnaði undan sjö platna samning við SonyBMG útgáfufyrirtækið, ætli aðeins að taka sér tíma til að ákveða áframhaldandi stefnu sína nú þegar þeir hafa listrænt frelsi.

Ný plata frá Velvet Revolver

Ofurgrúppan Velvet Revolver hefur tilkynnt að upptökum á nýrri breiðskífu er lokið og hefur hlotið nafnið Libertad. Samkvæmt sveitinni er platan melódískari en forrennarinn, Contraband en segja þó að rokkið sé enn til staðar. Ekki er búið að ákveða útgáfudaginn en einnig er von á sóló plötu frá Scott Weiland, söngvara sveitarinnar.

Endurkoma Blur möguleg

Graham Coxon, fyrrum gítarleikari hljómsveitarinnar Blur, hefur ekki útilokað endurkomu sveitarinnar. Coxon yfirgaf sveitina árið 2002 í óþökk margra aðdáenda og ber við að hann hafi þurft að fara sína eigin leiðir og koma lífi sínu á réttan kjöl. Hingað til hefur hann tekið fyrir að snúa aftur með sveitinni en hefur nú sagt opinberlega að hann íhugi möguleikann. Blur hefur aldrei opinberlega hætt störfum en eftir útkomu sjöundu plötu sveitarinnar Think Tank og fráhvarf Coxon hafa aðrir meðlimir einbeitt sér af sóló verkefnum.

Ef þú hefur frétt sem þú telur eiga heima á síðum Rjómans sendu þá póst á rjominn[at]rjominn.is

1 Athugasemd

  1. Sigurður · 11/03/2007

    Frábærar fréttir. Er enn að vona að Smashing Pumpkins spili á Hróa. Þá verð ég þar!

Leave a Reply