• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Fréttir Vikunnar

  • Birt: 05/04/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

Fréttir Vikunnar

Aldrei fór ég Suður, Silvía Nótt, Proclaimers o.fl.

Fréttir vikunnar í hnotskurn
Mika mætir en Slayer skrópar

Þær eru daprar fréttirnar sem bárust af Hróaskelduhátíðinni í gær. Metalsveitin Slayer boðaði forföll sín á hátíð þessa árs og gáfu einungis þær skýringar að sveitin hefði ákveðið að enda tónleikaferðalag sitt þann 1. júlí. Aðstandendur hátíðarinnar harma þessar fregnir og ljóst er að þónokkrir metalhausar verða af góðum tónleikum í ár.

Heldur ánægjulegri eru þær fregnir að bresk-líbanski tónlistarmaðurinn Mika muni verma sviðið í ár en hann hefur tröllriðið öldum ljósvakanna undanfarið með lagi sínu „Grace Kelly“ auk þess að plata hans Life in Cartoon Motion þykir með því besta sem komið hefur út í ár. Aðrir listamenn sem hafa staðfest komu sína á Hróaskeldu eru brasilíska gleðisveitin Cansei de Ser Sexy, norsku danskóngarnir í Datarock og orkuboltarnir í Goose sem kemur frá Benelux svæðinu.

Miðar á Hróaskeldu fást á Miði.is
Heildarlista yfir hljómsveitirnar er hægt að sjá á heimasíðu hátíðarinnar.

Aldrei fór ég suður

Ísfirska tónlistarhátíðin Aldrei fór ég Suður fer fram núna um helgina, dagana 6. og 7. apríl, þar sem áhorfendum gefst tækifæri að sjá rjómann af íslensku tónlistarflórunni auk þess að fjölþjóðlega hljómsveitin Blonde Redhead kemur fram. Alls verða 37 tónlistaratriði á hátíðinni auk þess að tíu erlendir blaðamenn munu sækja hátíðina og verður danski útvarpsmaðurinn Jan Sneum heiðraður fyrir störf sín í þágu íslenskrar tónlistar. Þeir sem hyggjast fara á hátíðina þurfa að hafa hraðann á því ásókn í bæði flug og gistingu er mikil. Upplýsingar um hátíðina og atriði hennar má finna á heimasíðu hátíðarinnar aldrei.is

Fyrstu tíðindi af Iceland Airwaves

Fregnir af níundu Iceland Airwaves hátíðinni eru farnar að berast en hún fer fram í höfuðborginni dagna 17. – 21. október þessa árs. Listinn er þegar að verða bitastæður því meðal erlenda listamanna sem mæta eru hin breska Bloc Party, bandarísku sveitirnar !!! og Of Montreal og kanadabúarnir í Buck 65. Alls hefur verið tilkynnt um 34 atriði og má sjá listann á heimasíðu hátíðarinnar.

Silvía gefur út Gullnámuna

Ofurstirnið Silvía Nótt gaf út á dögunum breiðskífuna Goldmine á vegum Reykjavik Records og eru þetta hennar fyrstu skref á sólóferli hennar ef frá er talið ævintýrið í Eurovision. Lagasmíðar voru í höndum Birgis Arnar Steinarssonar og Sölva Blöndal, en hann sá einnig um upptökur. Hljóðblöndun annaðist hinn heimsþekkti upptökustjóri Warren Riker, sem er þekktur fyrir samstarf sitt með stjörnum á borð við Beyoncé Knowles, Lauren Hill og Michael Jackson.

Proclaimers aftur á toppnum

Skosku tvíburarnir í Proclaimers eru komnir aftur á topp breska vinsældalistans með endurútgáfu gamla smellsins „I’m gonna be (500 miles)“ þar sem þeir fá grínleikarana Peter Kay og Matt Lucas úr þáttunum Little Britain í lið með sér. Grínistarnir syngja í gervum Lou Todd og Andy Pipkin í laginu sem má finna á smáskífu sem gefin var út til styrktar Comic Relief góðgerðarsamtökunum og mun ágóðinn renna til bágstaddra í Bretlandi og Afríku.

Starbucks útgáfa

Kaffihúsakeðjan Starbucks hefur nú stofnað útgáfufyrirtækið Hear Music eftir að plötusala í búðum keðjunnar hafa farið fram úr bestu vonum. Fyrsti listamaðurinn sem gefur út á vegum þeirra er enginn annar en bítillinn Paul McCartney og hafa fleiri nöfn verið nefnd, þar á meðal Radiohead sem hafa þó neitað þeim orðrómi.

Robert Smith aðstoðar Ashlee Simpson

Óvæntasta frétt vikunnar hlýtur að vera þau tíðindi að Robert Smith söngvari hljómsveitarinnar The Cure hafi samþykkt að koma fram á nýju plötu poppsöngkonunnar Ashlee Simpson. Fréttin hefur farið sem eldur um sinu á veraldarvefnum en engin staðfesting hefur fengist úr herbúðum beggja aðila þannig enn sem komið er verður þetta að teljast orðrómur.

Ef þú hefur frétt sem þú telur eiga heima á síðum Rjómans sendu þá póst á rjominn[at]rjominn.is

1 Athugasemd

  1. maggi · 05/04/2007

    Buck 65 er bara einn gaur, ekki hljómsveit.

Leave a Reply