• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Fréttir Vikunnar

 • Birt: 12/04/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

Fréttir Vikunnar

Peter, Bjorn & John, Wulfgang, The Police o.fl.

Fréttir vikunnar í hnotskurn
Fimm ný atriði á Hróaskeldu

Fimm ný atriði voru kynnt á lista Hróaskeldu í gær og koma þau öll úr sitt hvoru horninu, en hljómsveitirnar eru bandaríkjamennirnir í pönksveitin Against Me!, gangster rappsveitin Eclipse, fönksveitin brasilíska Bonde do Role, þjóðverjarnir í Booka Shade en þeir þykja stefnumótandi í klúbbavænni house tónlist, og norsku metalhausarnir í Zyklon.

Það líður senn að því að endanlegur atriðalisti hátíðarinnar verði gerður opinber og af því tilefni verður efnt til Hróaskelduviku hér á Rjómanum. Við biðjum því lesendur Rjómans að hafa augun hjá sér á næstunni því ekki verður aðeins hægt að fræðast um hátíðina heldur geta heppnir lesendur nælt sér í miða á hátíðina.

Miðar á Hróaskeldu fást á Miði.is
Heildarlista yfir hljómsveitirnar er hægt að sjá á heimasíðu hátíðarinnar.

Peter, Bjorn & John á Nasa

Sænska tríóið Peter, Bjorn & John mun troða upp á Nasa annað kvöld. Sveitin hefur vakið athygli hér á landi sem og um allan heim með þriðju breiðskífu sinni Writer’s Block og var lagið þeirra „Young Folks“ m.a. valið fjórða besta lag ársins 2006 af hlustendum X-ins 977 og lenti í öðru sæti á árslista breska tímaritsins NME. Til að koma kvöldinu í gang munu Pétur Ben og Sprengjuhöllin sjá um upphitun. Hægt er að nálgast miða á tónleikana á midi.is, nasa.is, Skífunni og BT út á landi.

GusGus með aukatónleika

Vegna fjölda áskoranna hafa partýljónin í GusGus ákveðið að halda aukatónleika til að anna þeirri eftirspurn sem myndaðist kringum útgáfutónleika þeirra 24. mars sl. Aukatónleikarnir verða haldnir á Nasa þann 21. apríl og mun sveitin halda í tónleikaferðalag um Evrópu í kjölfarið þar sem hún kemur m.a. fram á Europa Vox Festival í Frakklandi, Visur í Hollandi og Glastonbury í Englandi auk fjölmargra annara landa. Miðasalan er þegar hafin á midi.is og er miðaverð í forsölu 2.500 krónur.

Wulfgang gefur út

Frumburður rokksveitarinnar Wulfgang kom út á dögunum og er platan samnefnd sveitinni. Hljómsveitin hefur vakið athygli að undanförnu með spilamennsku sinni í höfuðborginni og kom m.a. fram á styrktatónleikum Forma 1. apríl síðastliðinn þar sem þeir voru í félagskap með ekki ómerkara fólki en Björk, Mugison og KK. Í framhaldi af útgáfunni stefnir sveitin í tónleikaferðalag til Kína í byrjun maí og halda svo áfram til Bandaríkjanna. Forsmekk af plötunni má finna á myspace síðu sveitarinnar.

Pétur Ben og Ólöf Arnalds í Danmörku

Tónleikahátíð, tileinkuð tónlist norðurlandanna, verður haldin í dönsku menningarmiðstöðinni Nordatlantens brygge í kvöld og annað kvöld og munu tvö atriði frá Íslandi koma þar fram. Í kvöld mun Pétur Ben stíga á stokk en annað kvöld er svo komið af nýstirninu Ólöfu Arnalds. Báðir tónleikarnir byrja kl. 20:00 en einnig mun Ólöf koma fram í verslun miðstöðvarinnar kl. 17:00 á morgun. Við hvetjum lesendur Rjómans sem búsettir eru í Danmörku að mæta og láta orðið berast.

Nýr meðlimur hjá Lights on the Highway

Lights on the Highway héldu tónleika á Dillon í gær þar sem þeir kynntu bæði nýtt efni og nýjan meðlim hljómsveitarinnar en það er Konráð Bartz, gítarleikari Without Gravity, sem hefur slegist í hópinn. Sveitin lýsti því yfir á myspace síðu sinni fyrr á árinu að hún væri að leggja lokahönd á lög fyrir aðra breiðskífu sína sem áætlað er að komi út á árinu.

Möguleiki á sjöttu plötu The Police

Endurkoma hljómsveitarinnar The Police hefur farið fram úr öllum vonum og hafa meðlimir sveitarinnar nú tilkynnt að ef allt gangi vel á tónleikaferðalagi sínu sé möguleiki á sjöttu breiðskífu frá sveitinni. Miðar á fyrirhugaða heimsreisu seldust upp á innan við klukkutíma og kom þessi mikli áhugi sveitin í opna skjöldu en færa þurfti nokkra af tónleikunum á stærri vettvanga. Sveitin mun flytja eitthvað af nýju efni á ferðalaginu og sagði Andy Summer, gítarleikari sveitarinnar, að miðað við eftirspurnina ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að sveitin færi aftur í stúdíó saman að því gefnu að samstarfið gengi sem skildi.

Klaxons vinna með Chemical Brothers

Chemical Brothers hafa fengið New Rave sveitina Klaxons í lið með sér við upptökur á laginu „All Rights Reserved“ sem mun koma út á væntanlegri plötu dúetsins We Are The Night. Til stendur að platan komi í búðir 18. júní nk. og auk Klaxons mun Midlake, Willy Mason og Ali Love eiga sitt framlag á henni.

Nýtt efni frá Radiohead á myndbandi

Mynband með því sem talið er ný tónlist frá Radiohead hefur gengið manna á milli á netinu undanfarið. Í myndbandinu má sjá svipmyndir af hljómsveitinni í hljóðveri á meðan lög og samtöl hljóma yfir og er talið að hluti laganna séu efni af sjöundu breiðskífu hljómsveitarinnar sem búist er við að komi út seinna á árinu. Myndbandið er sett saman af The Vapour Brothers kvikmyndateyminu sem hafa áður séð um kynningarmyndbönd fyrir hljómsveitina og má sjá myndbandið á síðu þeirra vapourbrothers.com

Ef þú hefur frétt sem þú telur eiga heima á síðum Rjómans sendu þá póst á rjominn[at]rjominn.is

4 Athugasemdir

 1. Jóhannes · 12/04/2007

  Hahaha!!! Chemical Brothers eru að gera plötuna We Are the Night þar sem þeir fá Midlake, Willy Mason, Klaxons o.fl. til sín – ekki öfugt.

 2. Ívar E. · 12/04/2007

  Meh, ég finn ekki helvítis Peter, Bjorn & John miðann minn.

 3. björn flóki · 12/04/2007

  takk fyrir vapour brothers linkið. ég held að þetta sé samantekt af gömlum webcasts frá hljómsveitinni þar sem þeir hafa flippað, dj-að og spilað lög… meginefnið er tekið úr því en er vitað hvort inn á milli séu sannarlega nýný lög?

 4. Halldór · 13/04/2007

  Samkvæmt þeim fréttum sem ég las þá er inn á milli efni sem hefur ekki heyrst áður en ekki er vitað hvort það muni vera af nýju plötunni

Leave a Reply