• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Guðlast og Tvíburaást

 • Birt: 13/04/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 10

Guðlast og Tvíburaást

Blonde Redhead á Nasa 5. apríl

Kristin Hersh hitaði upp
Blonde Redhead er ein af þessum alternative rokksveitum sem hafa alltaf fengið mjög blíðar móttökur á íslandi, enda eiga þau sér dyggan hóp stuðningsmanna á klakanum. Einn þeirra treysti mér m.a.s. fyrir því að ef hann myndi eignast tvíbura, myndi hann vilja skýra þá Simone og Amedeo. Kannski orðin innantóm, en sýnir hverskonar tilfinningar fólk á það til að búa yfir í garð uppáhalds hljómsveitanna sinna.

En líkt og með Sonic Youth og Pixies, aðrar tvær hljómsveitir sem eiga svipað blóðheita aðdáendur hér á landi og hafa einnig komið hingað oftar en einusinni, þá datt ég aldrei almennilega inn í þessa alternative ást sem margir ríghalda svo fast í. Samt hef ég farið á tónleika með öllum þessum hljómsveitum, og nú síðast á Blonde Redhead í annað skiptið eftir að hafa séð þau fyrst á innipúkanum 2005. Þau tendruðu enga ástarblossa í mér þá, en ég vonaði að nú þegar þau væru aðalnúmerið á eigin tónleikum en ekki bara eitt nafn á lista á fylleríshelgarkonsert, að þau myndu sýna mér hvað í þeim býr.

Ég var það sem oft kallast “fashionably late”, sem er eftir á að hyggja sennilega ekki viðeigandi hegðun þegar maður á víst að skrifa umfjöllun um tónleika, þannig að ég vona að Reykjavík! fyrirgefi mér að ég hafi ekki séð þá í þetta skiptið. Þeir hafa samt alltaf verið óhugnalega hressir og fullir lífsorku þegar þeir hafa spilað fyrir mig, og ég efast stórlega um að það hafi verið annað upp á teningnum í þetta skiptið, þó ég viti ekki hvort það hafi vakið kátínu í því fólki sem var komið til að hlusta á gráhærða ítala og þreytulega japani.

Þegar ég mætti á staðinn var Kristin Hersh á sviðinu. Hún er forsprakki Throwing Muses, sem komu hingað á innipúkann í fyrra og vöktu víst ágætis lukku þar, og sú tilfinning var greinilega gagnkvæm því hún vildi endilega koma hingað aftur og leyfa okkur að heyra efni af sólóferli sínum. Ég verð að viðurkenna að sú músík var svo lítt grípandi og stemmningin svo takmörkuð í salnum, að ég ráfaði um staðinn í móki þar til ég rakst á fyrrnefndan tvíburadraumóramann og kærustuna hans sem deildu bæði með mér vandræðalegum sögum af því að hitta átrúnaðargoð sín og vita ekkert hvað þau áttu að segja – annað en hvað tvíburarnir áttu að heita.

Og þetta setti svolítið tóninn fyrir þetta kvöld fannst mér. Fólk var þarna komið til að hlusta á Blonde Redhead, því að fólk var Blonde Redhead aðdáendur og vildu ekkert með Kristin Hersh eða annað glamr gera. Ég aftur á móti, var engin sérstaktur Blonde Redhead fan, og vissi því ekkert hvað ég átti að gera við mig. Þannig að þegar að það styttist í að þessar elskur mættu upp á svið ákvað ég bara að njóta tónlistarinnar, sleppa öllum vangaveltum um settlista og tæknileg atriði, og leyfa tónlistinni bara að tala.

Og það gekk bara ágætlega. Skúli Sverrisson spilaði á bassa með þeim, sem þýddi að Amedeo (myndarlegari bróðirinn) og Kazu gátu bæði glamrað á gítara, sem jók vissulega rokkgetuna á sviðinu. Af viðbrögðum fólksins í kringum mig að dæma tóku þau mikið af sínum bestu lögum, sem er alltaf vel metið. Hljóðvinnsla tæknimanna á NASA hefði samt getað verið betri, en krafturinn í bandinu var vonum framar, og vonir mínar voru ekki háar þegar að Kazu Makino steig á svið, en sá ágæti kvenskörungur hefur greinilega ekki alltaf tekið lýsið sitt, þó hún hafi sennilega oft tekið eitthvað annað….

Allt í allt þá voru þetta hinir ágætustu tónleikar, og ekki skemmdi það fyrir þegar að hljómsveitarmeðlimir ákváðu að vanvirða minningu Jesú Krists og spila fram á föstudaginn langa, en slík hegðun er mér alltaf að skapi. Tónlist fram yfir trúarbrögð – eða í þessu tilviki, þá var tónlistin trúarbrögðin frekar en eitthvað annað fyrir flesta tónleikagesti.

Svona í lokin þá er vert að minnast óstaðfestra frásagna um að það hafi kviknað í sviðinu á generalprufunni, og að Kazu hafi fengið hljóðnema í hausinn og hlotið heilahristing… hversu mikið rokk er það?

-Björgvin Óli Friðgeirsson

10 Athugasemdir

 1. Anonymous · 13/04/2007

  “og vonir mínar voru ekki háar þegar að Kazu Makino steig á svið, en sá ágæti kvenskörungur hefur greinilega ekki alltaf tekið lýsið sitt, þó hún hafi sennilega oft tekið eitthvað annað….”

  á þetta að vera fyndið. þónokkuð ósmekklegt.

 2. Anonymous · 13/04/2007

  samt mjög svo satt… hún var alveg útúrdópuð á Nasa í fyrra.. synd, því þetta dregur hana algjörlega niður í áliti!

 3. Pétur Valsson · 13/04/2007

  voða vinsælt að skrifa nafnlaust í dag…

  mér fannst tónleikarnir frábærir, áherslan var aðallega á nýtt efni (8 af 12 lögum voru af 23). Hin lögin mis-obscure lög frá ferlinum – engir gamlir “hittarar” í þetta skiptið, nema kannski Bipolar.

  Annars finnst mér þessi umfjöllun ansi innihaldslítil, aðallega vangaveltur drengs sem fer á tónleika og veit ekki alveg hvað hann á af sér að gera.

 4. björn flóki · 13/04/2007

  ehh… hver segir að hún hafi verið dópuð á NASA í fyrra? fyrir utan herra nafnlausi. ósanngjarnt að varpa þessu fram án ábyrgðar. kazu var þreytuleg og með bauga, þýðir það að hún hafi verið að taka eiturlyf? FYI þá hefur hún alltaf verið mjög “viðkvæm” á tónleikaferðalögum, á erfitt með þetta líferni og sérstaklega núna þegar hún átti eitt versta sándtékk lífs síns að hennar eigin sögn.

  annars fannst mér þetta frábærir tónleikar, var mjög ánægður með að heyra svona mörg lög af nýju plötunni, enda mjög góð plata þarna á ferðinni. fékk gæsahúð við laginu “23”.

 5. Björgvin Óli Friðgeirsson · 14/04/2007

  Neibb sennilega ekki, þetta var skrifað með stuttum fyrirvara sem greiði fyrir vin minn sem komst ekki á tónleikana vegna veikinda, það var stjórnendum rjómans í vald sett hvort þeir myndu birta þetta.. Hefðu sennilega betur sleppt því bara.

 6. Halldór · 14/04/2007

  Ég stend við þá ákvörðun að birta þessa grein þar sem sjálfum finnst mér hún lýsa andrúmslofti tónleikanna vel. Að sjálfsögðu hefði verið betra að vera með mann með meiri þekkingu á hljómsveitinni á svæðinu en Björgvin Óli var svo góður að hlaupa í skarðið með litlum fyrirvara og skrifaði fína grein um málefni sem hann hikar ekki við að viðurkenna fáfræði sína á og gerir það á hreinskilinn hátt, með gagnrýnni hugsun og laus við alla persónudýrkun sem á það til að einkenna íslenskar tónlistarumfjallanir.

  Hafa menn veigrað sér við minna.

 7. Beggi · 14/04/2007

  Eru tónleikaumfjallanir ekki akkúrat bara skoðun einnar persónu sem er með pennann í það og það skiptið?

  Skil ekki hvað menn eru að æsa sig. Fólk er ósammála sem er bara allt í lagi og hluti af þessu. Ég sé samt ekkert að þessari umfjöllun þó að ég sé ekki sammála henni. Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum en ég get ekkert ætlast til þess að allir séu sammála mér um það.

 8. Björgvin Óli Friðgeirsson · 15/04/2007

  Ég skemmti mér að vísu líka mjög vel á þessum tónleikum, þannig að við erum allavega sammála með það!

 9. Finnbogi Þorsteins · 16/04/2007

  Ég sá Blonde Redhead bara hérna í höllinni á upprisuhátíð hljómalindar og heillaðist uppúr skónum. Textarnir eru komplexar tilfinningar og kanski soldið mikið sjálfhverft,eins og þessi umfjöllun.
  Pælingin á bakvið 23 er einnig mjög sjálfhverf,þeas. að þessi tala fylgi henni allstaðar og tengist allri hennar tilveru,eins og Jim Carrey myndin.
  Ég held að ef að Blonde Redhead og sumir pennar hér á rjómnum, kipptu hausnum á sér uppúr rassgatinu,að þá myndi ljósið koma í ljós og þau yrðu miklu stærri fyrir vikið.

  Friður

 10. Anonymous · 16/04/2007

  Ég skil þetta ekki:

  Ég verð að viðurkenna að sú músík var svo lítt grípandi og stemmningin svo takmörkuð í salnum, að ég ráfaði um staðinn í móki þar til ég rakst á fyrrnefndan tvíburadraumóramann og kærustuna hans sem deildu bæði með mér vandræðalegum sögum af því að hitta átrúnaðargoð sín og vita ekkert hvað þau áttu að segja – annað en hvað tvíburarnir áttu að heita.

Leave a Reply