Amon Tobin – Foley Room

Amon Tobin - Foley Room
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Ninja Tune

…með útgáfu Foley Room sannar Amon Tobin það í eitt skipti fyrir öll að hann er einn af fremstu raftónlistarmönnum nútímans.

Amon Adonai Santos de Araujo Tobin fæddist í Brasilíu árið 1972. Hann fluttist ungur til Englands þar sem áhugi hans á Hip-Hoppi, Djassi og Drum n Bass fæddist. Hann kom fyrst fram undir listamansnafninu Cujo og gaf m.a. út plötuna Adventures in Foam undir því nafni. Eftir að hafa komist á samning hjá Ninja Tune árið 1996 hóf hann að koma fram undir eigin nafni og hefur síðan gefið út einar sex breiðskífur og fjöldan allan af smáskífum og samvinnuverkefnum.

Nafn plötunnar, Foley Room, vísar í þá vinnu sem unnin er, oftar en ekki með hversdagslegum hlutum, til að skapa umhverfishljóð og hljóðeffekta fyrir kvikmyndir. Eitt frægasta dæmið um slíkt er að nota kókoshnetuhelminga til að líkja eftir hófataki hesta. Hvað Amon Tobin varðar þýðir þetta að nánast öll hljóð geta orðið að takti og/eða þau notuð til að skapa hljóðheim sem á sér fáar ef einhverjar hliðstæður.

Hljóðvinnslan á Foley Room er einstök og ber þess merki að hvert einasta hljóð hefur verið meðhöndlað sérstaklega og niður í minnsta smátriði. Er samverkamanni Tobins, Vid Cousins, þar ekki síðst að þakka en tölvu- og tækjagaldrar hans gera það að verkum að undirritaður man varla eftir öðru eins sándi á plötu. Tónlistin, hljóðin og taktarnir umlyggja allt, steypast yfir mann með þungum höggum, og skella á manni með bylgju eftir bylgju af sónískum stórsjó. Minnstu smellir og suð eru mögnuð upp í tilkomumiklar drunur og önnur hljóð teygð, toguð, brengluð og breytt.

Vopnaður fyrsta flokks upptökutæki fór Amon Tobin og sankaði að sér ótrúlegu magni af hljóðupptökum. Hann fór í dýragarðinn og tók upp urrið og malið í tígrisdýrunum. Hann tók upp hljóðin frá leikfangabílum, mótorhjólum, skordýrum, hnífapörum og borðbúnaði og jafnvel uppvaskinu í eldhúsvasknum eins og heyra má í laginu “Kitchen Sink”. Öllum þessum upptökum sat hann svo yfir meirihlutann af síðasta ári, ásamt hljóðmanninum Cousins, og vann svo lögin upp úr afrakstrinum. Tobin fékk einnig til liðs við sig ýmsa nafntogaða listamenn og er talsvert um gestagang á plötunni. Má þar m.a. nefna Kronos strengjakvartettinn, Stefan Schneider trommara úr Belle Orchestre, Norsola Johnson sellóleikara úr Godspeed You Black Emperor! og píanistann Patrick Watson.

Þó rætur Amon Tobin liggi í Breakbeat og Drum n Bass hefur hann fetað aðrar og töluvert ótroðnari slóðir en samferðamenn sínir. Tónlist Tobin hefur oft þótt eiga meira skilt við Djass og Avant-garde hlóðtilraunastarfsemi heldur en hin hefðbundnu form dans- og raftónlistar. Hann er óragur við að vitna í tónlistina sem hann ólst upp við í heimalandinu Brasilíu og því samba-, batucada- og baile fönktaktar aldrei langt undan. Einnig hefur mátt finna brot úr verkum hinna klassísku meistara í sumum lögum hans og gott ef ég heyrði t.d. ekki smá Sibelius bregða fyrir í laginu “Nightlife” af Permutation sem kom út 1998.

Undirstaðan af tónsmíðum Tobin hefur legið í hljóðsmölun (sampling) af gömlum vinyl plötum en á Foley Room hefur hann ákveðið, eins og áður sagði, að vinna nánast eingöngu með hljóð sem hann tók upp sjálfur. Hjá Tobin getur allt orðið að takti. Hann hunsar allar reglur, öll lögmál og fer út fyrir ystu mörk tónlistarlegra viðmiða en gerir það þó aldrei á kostnað hlustandans. Foley Room verður aldrei of tormelt, aldrei svo illskiljanleg að hlustandi missi þráðinn. Tobin er samkvæmur sjálfum sér og heldur tryggð við sitt víða og tilkomumikla sánd og þunga og einkennandi trommutakta. Þó platan sé stórt skref fram á við fyrir Tobin reynir hann ekki að fela hvar rætur sínar liggja. Hann reynir ekki um of að helga sig listrænum hugsjónum sínum og týnir sér ekki í tæknilegum útfærslum.

Platan hefst á laginu “Bloodstone” þar sem skerandi og draugalegt undirspil Kronos strengjakvartettsins og píanóleikur Patrick Watson magna upp afar drungalega stemmingu. Á köflum minnir lagið mann á einhverskonar myrka og undarlega útgáfu af sirkustónlist sem gerir það óneitanlega enn dimmra og kuldalegra fyrir vikið.

Í næsta lagi, “Esther’s”, sem er án efa það magnaðasta á plötunni, taka á móti manni rymjandi mótorhjóladrunur í takt við þungt og dynjandi Breakbeat. Hljóðin sveiflast til og frá eins og hafalda í óveðri og urrandi mótorarnir eru allt um kring eins og hrægammar. Stórkostleg tónsmíð sem toppar flottheitaskalann auðveldlega og gott betur.

Eftir þetta rúllar platan ljúflega áfram og í fullkomnu samræmi við það sem við búast mátti við miðað við fyrri plötur Tobin. Lögin valda ekkert sérstökum hughrifum en þó langt því frá að vera leiðinleg. Það er ekki fyrr en um miðbikið, í lögum eins “Horsefish” og framan af titillaginu, þar sem platan missir aðeins dampinn og tilraunamennskan verður helst til of mikil. Stundum hljóma tilraunir þessar meira eins og draumkennd og súrealísk kvikmyndatónlist og hefði eflaust sómað sér betur í kvikmynd eftir David Lynch heldur en á þessari plötu. Fyrir mitt leiti er þetta þó það eina sem ég gat fundið þessari plötu til vansa.

Foley Room er án efa íburðarmesta og heilsteyptasta verk Amon Tobin en verður sjálfsagt ekki talin hans besta né aðgengilegasta verk þó góð sé. Kannski það sé ekki á færi nema hörðustu aðdáanda hans að skera úr um hvaða sess hún á eftir að skipa sér þegar farið er yfir útgáfusöguna. Eitt er þó víst að með útgáfu Foley Room sannar Amon Tobin það í eitt skipti fyrir öll að hann er einn af fremstu raftónlistarmönnum nútímans.

2 responses to “Amon Tobin – Foley Room”

  1. Ari says:

    hressandi og áhugaverð plata.

  2. Matti says:

    Frábær dómur, frábær plata og frábær tónlistarmaður.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.