• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Laddi – Hver er sinnar Kæfu Smiður

 • Birt: 20/04/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Laddi - Hver er sinnar Kæfu Smiður
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Sena

Mikið grín, mikið gaman

Ég er kominn aftur í leikskóla. Mér líður alla vega þannig þessa dagana því einn farsælasti grínisti landsins, Þórhallur Sigurðsson, helst þekktur sem Laddi, fagnar nú sextugsafmæli sínu með þjóðinni í formi leiksýningarinnar Laddi 6-Tugur og með útgáfu sinna frægustu laga á ferlinum. Undir slíkt þarf tvöfalda plötu sem ber nafnið Hver er sinnar Kæfu Smiður og inniheldur hún efni af sólóplötum Ladda auk annars efnis sem hann gerði frægt, m.a. með Halla bróður sínum og HLH flokknum. Ég var svona beggja blands þegar ég fékk plötuna í hendurnar en hef komist af því að ef einhver getur vakið barnið í mér þá er það Laddi kallinn.

Eins og svo hjá mörgum Íslendingum þá átti Hurðarskellir það til að skilja eftir plötu með Ladda í gúmmístígvélinu (stærði 45, að sjálfsögðu) sem hvíldi á gluggasyllunni hjá mér fyrir jól. Vínyl útgáfur af Einn voða Vitlaus og Of Feit fyrir Mig rykfalla nú inni í kompu, of rispaðar eftir mikla notkun til að skella á fóninn og minningarnar frá þeim farnar að dofna. Endurfundirnir við Jón Spæjó, Tóta Tölvukall, Eirík Fjalar og fleiri karaktera Ladda voru því bæði óvæntir og ánægjulegir.

Ýmislegt kom mér á óvart við hlustunina, sérstaklega þegar svona langt var frá því að ég heyrði þessi lög síðast. Það að húmorinn heldur sér mjög vel er vitnisburður út af fyrir sig um hvað Laddi er góður grínisti en það sem ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir er hvað lögin eru mörg hver alveg virkilega góð og eldast vel. Lagasmíðarnar eru nú ekki allar úr smiðju Ladda sjálfs en flutningurinn og útsetningarnar hafa flestar tímalaust yfirbragð, fyrir utan einstaka syntha hljómborð, og þýðingar sem þarna birtast eru yfirleitt eins og best verður á kosið. Það er líka gleðiefni að mikið hefur verið lagt í stafræna endurhljóðblöndun og því eru afbragðs hljómgæði út í gegn.

Skemmtilegasta uppgötvunin mín var þó sú að lögin hans Ladda eru gædd þeim eiginleikum að höfða til bókstaflega allra aldurshópa. Ég viðurkenni að ég fylgdi straumnum þegar tvíhöfði kom fram á sjónarsviðið, þegar fjölskylduhúmorinn fékk á sig frekar slæman stimpil og tilvitnun í spaugstofuna jafngilti félagslegu sjálfsmorði. Plöturnar fengu þar af leiðandi gott frí í gegnum árin og því er það hálfgert áfall að heyra Skúla rafvirkja lýsa því yfir að hann hafi verið með öllum innstungum bæjarins og heyra lítið barn spyrja pabba sinn hvar G-bletturinn sé. Tvíræðnin í textunum er oft á tíðum alveg stórkostleg og eitthvað sem algerlega fór framhjá mér á uppvaxtarárunum enda gerð þannig að hún vekur sjaldan upp spurningarmerki hjá litlum börnum en foreldrarnir geta brosað út í annað.

Ef það er eitthvað sem ég set út á plötuna þá er það að uppáhaldslagið mitt er ekki á henni, harmsöngurinn um krítarkortaeyðslu jólavertíðarinnar, sem ég verða að játa að ég þekki ekki titilinn á. Lengdin er jú talsvert bákn en skiljanleg miðað við allt það efni sem Laddi hefur gefið út í gegnum tíðina og því amast ég ekki út í það en lögin eru að mestu leyti vel valin og gefa góðan þverskurð á feril grínistans og því er þetta góður gripur til að rifja upp gamlar minningar eða kynna yngri kynslóðirnar fyrir Ladda.

2 Athugasemdir

 1. Eyþór Ingi · 20/04/2007

  Laddi er einfaldelga goðsögn í lifanda lífi þannig er það bara, hvaða grínisti á eftir að lifa svipað og laddi hefur gert. sett alskins persónur og kæki inní líf okkar og komandi kynslóðar sem munu fylgja þeim.

 2. Pétur Valsson · 20/04/2007

  úff, ég fæ hroll við nafnið – alveg einstaklega ófyndinn brandari.

  hins vegar er það lokkandi að rifja upp gömlu ladda lögin, enda hlustaði ég varla á annað þegar ég var barn

Leave a Reply