Ed Harcourt – The Beautiful Lie

Ed Harcourt - The Beautiful Lie
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: EMI

Bráðviðkunnalegur nostalgíukall með myndarlegan lagabanka.

Bretland er gott og réttvíst land. Fyrir utan smávægilega hnökra í fortíðinni eins og til dæmis aðeins of einhlíta nýlendustefnu og uppfinningu custardkremsins sem veldur hjartveikindum, þá hefur Bretland farið með eitt mikilvægasta hlutverkið í þróun vestrænnar popptónlistar á seinni helming síðustu aldar. Tónlistin er jú það sem við höfum áhuga á að ræða um á Rjómanum. Bandaríkin bjuggu til rokkið, en litlu Bretlandseyjarnar tóku rokkið, hristu það og teygðu til og bjuggu til fyrstu heimsmælikvarðapopptónlistina, ásamt fullt af öðrum stefnum og stílum. Bretland gaf af sér Bítlana, Rólíng Stóns, Jimi Hendrix (Bretland var stökkpallurinn, því er ekki hægt að neita), Pink Floyd, Led Zeppelin, Gentle Giant, Duran Duran, The Police, Pet Shop Boys, Depeche Mode, Queen, Kate Bush og nú seinast Radiohead. Stiklað á stóru að sjálfsögðu.

Þessi stórfenglega kynning á breskri tónlist gefur kannski ranga mynd af Ed Harcourt, því hann er hvorki brautryðjandi né sérstakur framúrstefnumaður. Maðurinn er aftur á móti bráðviðkunnalegur nostalgíukall sem semur grípandi laglínur þar sem iðar saman öllum andskotanum. Á nýjustu plötunni sinni, The Beautiful Lie, tókst honum nefnilega að vekja upp og leiða hugann minn að a.m.k. 20 hljómsveitum og tónlistarmönnum frá mismunandi tímabilum. Áhrifanna gætir víða, þ. á m. frá Amríkunni, en Ed Harcourt er á sama tíma löngu búinn að skapa sér sérstæðan og einlægan stíl sem fáir gætu hermt eftir.

Mér er spurn hvort eftir tvær eða þrjár kynslóðir muni fólk ennþá kannast við nafnið hans. Aðeins tíminn getur leitt slíkt í ljós og það er eflaust tilgangslaust að velta slíku fyrir sér. Ég vil bara meina að á a.m.k. þremur plötum Ed (Here Be Monsters, Strangers og sérstaklega umræddri, The Beautiful Lie) hafi honum fullkomlega tekist að ná til kynslóðarinnar okkar. Hann fær lánað hitt og þetta úr nánustu fortíð, púslar úr því eitthvað einstakt með eigin sköpunargáfu og færir okkur á silfurplatta, ásamt Earl Gray te frá Fortnum & Mason. Hann færir okkur nær fortíðinni á sama tíma og hann leiðir okkur áfram. Hann sameinar kynslóðirnar – og fyrir þá allra móttækilegustu eykur hann þannig skilning milli manna, stuðlar að friði og þar af leiðandi að betri heimi. Heimurinn er aftur á móti ekki svo einfaldur að einhver tónlistarmaður frá Sussex nái að breyta honum svo um muni. Allir verða þó að leggja eitthvað af mörkunum, ekki satt?

Ed Harcourt fær hlustendur semsagt til að hugsa og til að nýta ritstöðu sína á Rjómanum til að röfla um óskilmerkilega hluti. Lögin hans eru ýmist eins og Amorör í hjartað, eins og „Until Tomorrow Then” eða kærleiksríkt klapp á bakið („Visit From The Dead Dog”). Lögin fjalla um allt mögulegt, alveg eins og lög alvöru trúbadora eiga fullkominn rétt á að gera, þó að örli aðeins meira á tilfinningunum en hitt. Ed spilar á píanó og gítar, syngur ljómandi vel með bjartri röddu sinni og hefur sér til stuðnings litla hljómsveit. Lögin hans eru vel uppbyggð, í góðu jafnvægi og standa öll fyrir sínu. Það eina sem má gagnrýna á umræddri plötu er frágangur laganna. Það eru til dæmis himinn og haf á milli „You Only Call Me When You’re Drunk” og „Good Friends Are Hard To Find”. Hið fyrrnefnda er dæmi um fullkomna lagasmíð Ed, toppað af með skemmtilegri útsetningu, á meðan hið síðarnefnda hljómar eins og aðeins og tilfinningasöm tilraun til að endurskapa stemmninguna í Paul McCartney ballöðunni „The Long And Winding Road”. Það er ekki nóg að skella bara inn nokkrum fiðlum og lúðrum sem glassúr á kökuna.

Ríflega helmingur plötunnar er sumsé algjört lúxuskonfekt, restinn er prýðilegur. Ed Harcourt heldur bara áfram að byggja upp myndarlegan lagabanka sem vonandi verður ekkert lát á í framtíðinni. Bretland er einstakt land sem getur af sér einstaka tónlistarmenn og ég er ánægð með að Ed Harcourt er í hópi þeirra. Þessi plata mun rata ó svo auðveldlega í spilarann héðan í frá.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.