• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Ég skal sjá Metallica

 • Birt: 28/04/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

Ég skal sjá Metallica

Vinningssaga Hróarskelduleiks Rjómans

Ólafur Tómas Guðbjartsson er sigurvegari Hróaskelduleik Rjómans. Hann sigraði með ferðasögu sinni af Hróaskeldu árið 1999.
Ég skal sjá Metallica.

Árið var 1999 og ég var nýorðinn 18 ára. Ég var um það bil að detta úr skóla vegna fjárskorts og svona til stuðnings sparkaði kærastan mér. Sambandið var hvort eð er dautt. Maður getur séð það fyrir eftir því hvaða lag verður „lagið okkar“ og lagið okkar var „You stole the sun from my heart“ með Manic Street Pretchers. Það sagði allt sem segja þurfti.

Ég skakkalappaðist heim úr skólanum með skömm og einsemd. Þegar svartasta myrkrið hafði leikið mig svona grátt sá ég loks ljósstýru í sortanum, Metallica spilar á Hróaskeldu. Ég sem þekkti öll lögin, öll nöfnin, átti allar plöturnar og var í fan klúbbnum vissi það strax að miðað við aldur og fyrri störf þessara snillinga þá væri þetta líklega seinasti séns til að bera þá augum. Ég varð að komast en líkurnar voru afar litlar. Ég var sveitalubbi sem átti engan pening og þekkti engan sem vildi fara með og verst af öllu, það voru aðeins 5 vikur í hátíðina og miðamöguleikar sáralitlir.

Ég fylltist eldmóð. Skólinn má fara í rassgat, hugsaði ég, og ætli kærustu greyið geti ekki farið þangað líka en ég verð að sjá Metallica. Daginn eftir vaknaði ég snemma og þræddi bæinn eftir vinnu, en fáir voru tilbúnir að ráða mann sem þyrfti frí til utanfarar fljótlega eftir að hefja störf. Á endanum náði ég samkomulagi við lítið frystihús um að vinna við að tína orma úr fiskflökum fyrir skítakaup en kosturinn var fyrirframgreiðsla eftir fyrstu viku og frí til að fara út.

Eftir viku af ormatínslu hafði ég unnið mér inn nóg til að kaupa miða. Ég hringdi í ferðaskrifstofu eina og vildi svo til að miði var laus, og ekki bara einn heldur þrír. En miðinn var ekki seldur sér á báti heldur þurfti ég að versla rándýra ferð um leið, en ég átti alls ekki nóg fyrir öllum pakkanum en náði þó að sannfæra mannin um að borga inn á ferðina og greiða restina upp viku seinna. Það virtist allt vera að ganga upp. Ég var meira að segja búinn að finna ferðafélaga tvo sem borguðu einnig inn á sína miða. Ég hlustaði vandlega á allt Metallica safnið mitt næstu daga og var dauðöfundaður af öllum kaupstaðnum fyrir komandi ferð mína á stórsveitina.

Dagur ferðar

Ég var búinn að pakka öllu hugsanlegu í bílinn og marg athuga listann sem mamma hafði gert fyrir mig. Sokkar, nærur, handklæði, aukaskór, allt á sínum stað. Mér datt í hug að athuga með ferðafélagana og hvort þeir hefðu not fyrir listann góða. Sá fyrri tilkynnti mér að hann hefði gleymt að borga fyrir alla ferðina og gæti því ekki komið , hann bað mig einnig afsökunar á að hafa ekki látið mig vita þessar tvær vikur sem hann vissi um komandi ástand. Sá seinni svaraði ekki í símann en mamma hans hélt að hann hefði farið suður um morgunin og gerði ég mér upp að hann væri þá lagður af stað á flugvöllinn. Ég kvaddi fjölskylduna að hermanna sið og mátti sjá tár á kvarmi móður minnar er ég bakkaði úr innkeyrslunni. þá var ég lagður af stað. Ég hafði reyndar aldrei keyrt sjálfur til Reykjavíkur og þó ég hefði aldrei viðurkennt það þá vissi ég ekki alveg hvar Hvalfjarðargöng væru eða hvernig þau virkuðu. En mér var sagt að koma mér þjóðveg 1 og keyra bara beint þangað til ég sæi skilti sem á stæði keflavík.

Keflavík

Ég svipaðist um eftir ferðafélaganum en sá hann hvergi. Ég átti ekki farsíma á þessum tíma, þó pabbi hefði lánað mér hlunkinn sinn sem fór nánast í yfirvigt einn og sér þá gat ég ekki hringt úr honum fyrir einhverjar sakir. Ég fann tíkallasíma og hringdi í ferðafélagan. Hann svaraði og sagðist vera í vinnunni þegar ég spurði um tilhlökkun. Hann gat víst ekki farið frá vegna anna. Kjaftæði, hugsaði ég, helvítis kjaftæði. Ég hafði plokkað orma í fimm vikur til að sjá Metallica og ef hann getur ekki tekið sér frí þá á hann ekki skilið að sjá þá hvort eð er. En nú var ég einn. Ég hafði bara einu sinni farið til útlanda með mömmu og pabba þegar ég var ellefu ára en ekkert meir. Minnsti heimsborgari í heimi stóð með bakpokann sinn og vissi ekkert hvert hann átti að snúa sér.

Ég settist á kannstein fyrir utan leifsstöð og hugsaði málin. Ætti ég að gefast upp og snúa heim í sveitina. Hvað vissi ég um Danmörk eða Hróaskeldu? Ég vissi ekki einu sinni hvert ég ætti að fara eftir að flugvélin lenti. Þegar ég var við það að standa upp og labba í átt að bílnum fannst mér ég heyra illgreinanlegt gítarriff, „dangdararang dararang“. „Fight fire with fire“, upphafslag Ride the lightning með Metallica hljómaði á endanum svo skýrt í höfðinu á mér að ég furðaði mig á því af hverju aðrir gestir á plani flugvallarins heyrðu ekki snilldina. Ég snéri við á punktinum og henti mér inn í vél.

Kastrup

Þegar ég steig út úr vélinni á Kastrup reyndi ég að spotta bakpokara sem hugsanlega gætu verið að fara á hátíðina. Ég sá tvo líklega og ákvað að elta þá í lestina. Ég spurði þá í lestinni hvort þeir væru ekki örugglega að fara og þeir játuðu því. Ég elti þá síðan í rútu og á endanum elti ég þá inn á svæðið. Allan tíman yrtu þeir ekki á mig heldur gengu tvemur til þremur metrum á undan mér.

Það var almyrkur þegar við komum á svæðið og ég gat ekkert greint nema óhljóð í fullum útlendingum. Ég elti bakpokarana þangað til þeir fundu sitt svæði. Það voru mikil fagnaðarlæti þegar þeir komu og ég reyndi að brosa og hlægja með eins og ég þekkti þá. Þegar ég ætlaði svo að tjalda litla þúsund króna tjaldinu mínu vatt annar þeirra sér upp að mér og sagði „Hey, drullaðu þér eitthvað annað, þetta er frátekið.“

Ég vafraði um í myrkvinu í góða þrjá tíma í leit að plássi fyrir litla tjaldið. Mér var reyndar byrjað djöfull mikið að langa heim eftir þessa óvelkomnu kveðju fyrr um kvöldið. Loksins fann ég pláss við hliðina á stóru partý tjaldi. Þetta voru Norðmenn hélt ég en gat samt ekki greint muninn. Þeir sögðu ekkert við því þegar ég byrjaði að tjalda en ég var orðinn svo örmagna að ég setti ekki einu sinni niður hæla heldur settist fyrir utan og sullaði í mig tollinum til að öðlast kjark til að sofna í þessum látum.

Ég vaknaði um morguninn við eitthvað þrusk. Ég opnaði augun og sá mér til mikillar skelfingar að það var maður kominn inn í tjaldið hjá mér og var hann að róta í töskunni minni. Öll fötin sem mamma hafði svo snyrtilega pakkað niður lágu í hrúgu í annari tjald hliðinni. Ég vissi ekki hvort ég ætti að öskra, kýla eða æla. Þegar hann sá að ég var vaknaður spurði hann mig á lélegri harðburða ensku hvort ég ætti sígarettu. Ég heyrði það strax að þetta var íslendingur, bara á hörðum ensku framburðinum. Ég var í senn reiður en samt á furðulegann hátt ánægður að geta talað við einhvern. Ég bað hann um að fara út úr tjaldinu og ég skildi láta hann hafa einn pakka af winston. Þegar ég kom út sat hann fyrir utan. Þetta var fullorðinn maður, mikið eldri en ég. Ég kastaði til hans pakkanum og við spjölluðum í stutta stund. Hann var óvenju leiðinlegur, næstum alveg drullu leiðinlegur og hann fór ekki fyrr en eftir tvær til þrjár klukkustundir.

Næstu daga vappaði ég einn um svæðið. Það var í raun skárra og skárra eftir því sem leið. Mamma hringdi í gemsahlunkinn og fékk næstum kast þegar ég sagði henni að ég væri einn. Tveir dagar búnir af hátíðinni og þrír eftir af ferðinni. Ég var alvarlega að spá í að flýta ferðinni strax eftir Metallica tónleikana. Ég fór að næst stærsta tjaldinu eitt kvöldið, minnir að það sé kallað græna tjaldið og þar var troðið af fólki. Ég var viss um að nú væri eitthvað merkilegt að fara að gerast en gat ekki verið viss því ég gleymdi dagskránni upp í tjaldi. Bandið var byrjað að stilla strengi en ég gat engan vegin séð hverjir þetta voru vegna fjarlægðar. Ég gekk alveg í annan endan við andyri tjaldsins og þar gat ég klifrað upp á vegg. Ég sat þarna uppá og horfði yfir fólksfjöldann og um leið fóru atburðir síðasta mánaðar að renna upp fyrir mér. Ég var kominn, kominn alla leiðina að sjá Metallica.

Ég kveikti mér í sígarettu og fór að finna fyrir einmannaleika við að sjá hópa af vinum skemmta sér saman. Þá byrjaði bandið. Þetta var Manic street pretchers og á meðan ég sat þarna upp á veggnum og hlustaði á „You stole the sun from my heart“ gat ég ekki annað en hlegið upphátt að þessu öllu saman. Næstu dagar voru auðveldir. Einn daginn fór ég til norsku nágranna minna og fékk að grilla pulsu á heitu grilli þeirra. Það var fleira sem var heitt þar því ein sæt norsk blómarós var svo áhugasöm um ferðalag mitt að hún kom yfir til mín um kvöldið og við drukkum saman fram á nótt, tvö ein. Ég átti eftir að hitta hana oft á kvöldin sem eftir var.

Metallica

Nú var komið að því. Ég hafði setið allan daginn fyrir utan tjaldið mitt og hlustað á Metallica. Ég átti reyndar engar græjur en það skipti ekki máli þar sem ég gat hlustað á plötu eftir plötu í huganum, ég þekkti, jú, öll lögin. Ég var mættur tímalega um kvöldið og stóð brosandi eins og verðandi nýbakaður faðir. Ég setti mér takmörk í bjórdrykkju og ætlði bara að leyfa mér 2 bjóra. Ég vildi, jú, eftir allt muna hverja einustu stund af þessum tónleikum. Eftir ekki svo langa bið ætlaði allt um koll að keyra. Hetjurnar voru komnar á sviðið. Tveir Ástralir stóðu við hliðina á mér og rifust um hvaða lag skildi opna showið. Og viti menn… Dangdararang dararang. „Fight fire with fire“. þetta var raunveruleikinn. Jason Newsted sveiflaði hausnum í hringi eins og ég hafði svo oft endurleikið inn í herbergi þegar ég var ungur og Hetfield sagði mér og restinni að fokka sér reglulega. Þetta var þess virði að hætta í skólanum, þess virði að missa kærustuna, þess virði að plokka maðk. Þeir spiluðu í tæpa þrjá klukkutíma. Þetta var allt sem ég þurfti.

Að hátíðinni lokni kvaddi ég norsku vini mína og hélt heim á leið. Ég mætti tíu tímum of snemma í flug og sat á kastrup og rifjaði upp í huganum tónleikana og hvernig ég ætti að segja frá þegar ég kæmi heim í sveitina. Þegar ég keyrði svo aftur heim í sveitina um nóttina fannst mér eins og ég hefði sigrað. Ég hafði frá svo miklu að segja, svo mikið hafði gerst og svo mikið hafði ég upplifað á 5 dögum. Ég hef farið þrisvar á Hróaskeldu síðan þá og séð Metallica tvisvar live síðan þá en ekkert skákar þessari upplifun eins og hún kom fyrir sjónir átján ára drengs.

– Ólafur Tómas Guðbjartsson

Við á Rjómanum óskum Ólafi og öðrum vinningshöfum til hamingju með miðana

4 Athugasemdir

 1. Siggi H. · 28/04/2007

  Ah frábær saga. Maður fyllist bara tilhlökkun við þetta, þrátt fyrir að maður fann fyrir talsverði einsemd í sögunni.

  Til hamingju..

 2. Júlli · 30/04/2007

  ……..en hvað varð um norsku blómarósina?

 3. Símon · 03/05/2007

  Snilld!

 4. Hildur María · 22/06/2007

  Fyndið. Ég lenti eiginlega í því sama nema skiptu roskilde fyrir Pukkelpop og Metallica fyrir Radiohead 🙂
  Með svona sögum eigum við eftir að spilla barnabörnunum í laumi fyrir foreldrum þeirra. Muahaha.

Leave a Reply