Dýrðin – Dýrðin

Dýrðin - Dýrðin
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Skipping Stones Records

Dýrðleg skemmtun

Rifsber og rjómi! Umslag frumburðar Dýrðarinnar gefur vissulega fyrirheit um sykursæta tónlist en er að öðru leyti afskaplega óspennandi. Hér gæti komið langur fyrirlestur um íslensk plötuumslög en sem betur fer er lesendum hlíft við því að sinni. Það sem skiptir máli er innihaldið og þar kemur Dýrðin skemmtilega á óvart.

Sveitin mun hafa verið starfandi frá því fyrir miðjan síðasta áratug en með löngum hléuum þó. Kjarninn í sveitinni eru bassaleikarinn Magnús Axelsson og Einar Hreiðarson gítar- og hljómborðsleikari sem upprunalega stofnuðu sveitina ásamt Dodda sem flestir kenna við Trabant. Systir Einars, Hafdís Hreiðarsdóttir, sér svo um sönginn og þannig skipuð átti tríóið tvö lög á safnplötunni Strump í fótinn árið 1995. Sveitin lagðist svo í dvala til ársins 2003 og tveim árum síðar gekk Þórarinn (Tóti) Kristjánsson trommari til liðs við Dýrðina, en hann hefur einnig trommað með Vonbrigðum, Risaeðlunni, Bubbleflies ofl sveitum.

Dýrðin spilar ofureinfalt, kraftmikið og bráðskemmtilegt popp sem myndi falla undir indie-katagóríuna. Undirliggjandi er svakaleg leikgleði sem minnti undirritaðan strax á tvær aðrar íslenskar sveitir, Rúnk og Bag of Joys, enda er tónlist Dýrðarinnar náskyld þeim. Hin hefbundna hljóðfæraskipan, gítar trommur bassi, er í fyrirrúmi en það er hljómborðið sem gerir gæfumuninn hjá Dýrðinni. Skemmtilegir og stundum nett hallærislegir hljómborðshljómar gefa lögunum nýja vídd og eru það hljómborðslaglínurnar sem límast best við heila hlustenda.

Þrátt fyrir að platan sé gefin út af Bandarísku útgáfufyrirtæki þá aftrar það ekki hljómsveitinni að syngja að mestu á íslensku sem er til fyrirmyndar. Textar Dýrðarinnar eru stórskemmtilegir og fjalla t.d. um býflugur, froskaprinsa, geimverur, skíðakennara og Jón Sigurðson. Textarnir þættu líklega ekki fínn pappír í bókmenntalegum skilningi, enda er sjaldnast farið eftir bragfræðireglum og er rím fremur undantekning en regla. Það kemur þó alls ekki að sök því það er eitthvað sérstaklega heillandi við naïva textana sem hefði að öllum líkindum farið forgörðum ef haldið bragfræðin væri í heiðri höfð. Tvö lög plötunnar eru þó á ensku, „Wake up“ og „Bubble girl“ og verður að segjast að þau eru sístu lögin á skífunni. Það er því óskandi að fleiri íslenskar sveitir fylgi fordæmi Dýrðarinnar og reyni að gera íslenska texta fremur en klambra saman klisjum á ensku sem í flestum tilfellum tekst afar illa.

Það eru nokkur lög sem strax standa upp úr og grípa samstundis og fer þar yfirleitt saman leikandi laglínur og skemmtilegir textar. Krúttleg hljómborðslaglínan í „Hunangsdropum“ gerir lagið eitt af þeim bestu á plötunni og „Brottnuminn“ er dásamlegt orkupopp. „17. júní“ vakti strax hrifningu undirritaðs, ekki síst vegna textans sem fjallar um hversu erfitt það sé fyrir styttuna á Jóni Sigurðssyni að geta ekki tekið þátt í 17. júní hátíðarhöldunum: „hann heitir Jón og á afmæli í dag / hann getur sig hvergi hreyft / og enga pulsu keypt / ekki haldið ræðu eða sungið lítið lag“. Nú er bara vonandi að „hæj-hó-jibbí-jei“ lagið fái hvíld eftir 30 ár og útvarpsstöðvar spili Dýrðina á þjóðhátíðardag Íslendinga í framtíðinni.

Nokkurskonar ástarsöngvar eru áberandi á Dýrðinni en þeir eru mis-jarðbundnir. Jarðarstúlka verður ástfangin af marsbúa í „Brottnumin“ og hálfvúlkanska Spock úr Star Trek í „Mr. Spock“. Í „Prins í álögum“ er reynt að galdra fram draumaprins með slímugum frosk og „Snjófólk“ er ástarsöngur til snjókarls: „Pípuhatturinn / fer svo vel við trefilin / og mér finnst svo sætur gulrótarnebbinn þinn“. Skemmtilegastur af þessum ástarsöngvum er þó lokalagið „Meistari á skíðum“ sem hefur ákaflega skemmtilegan íslenskan hvunndagssjarma, byrjar með brosi í Bláfjöllum og endar á 25 ára bið eftir símtali.

Platan er í styttri kantinum, svo stutt að hún rétt slagar í það að geta talist breiðskífa. Það er plötunni þó til tekna að hún rennur vel í gegn og lögin standa fyrir sínu. Langar plötur eiga það til að verða langdregnar og oft óskar maður að hljómsveitir hefðu sleppt uppfyllingarlögunum og skilað af sér styttri og þéttari skífu. Dýrðin lendir ekki neinum slíkum vandræðum og platan er nógu skemmtileg til þess að hlusta á hana tvisvar, jafnvel þrisvar í röð (eða oftar eftir smekk).

Vefurinn kemur sér alltaf vel þegar maður ætlar að kynna sér hljómsveitir og því er sjálfsagt að benda lesendum á að sækja má mp3 af lögunum

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

og „Bubble girl “ af heimasíðu Skipping Stones Records og á Myspace. Einnig má finna demó af nokkrum lögum plötunnar á heimasíðu Dýrðarinnar. Það verður að segjast að undirritaður kemst alltaf í gott skap þegar Dýrðin er sett á og bíður spenntur eftir að sveitin spili í höfuðstaðnum næst. Þangað til það gerist kemur YouTube sér að góðum notum og er við hæfi að enda dóminn á flutningi Dýrðarinnar á „Mr. Spock“:

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

One response to “Dýrðin – Dýrðin”

  1. breki says:

    Dýrðin spilar kannski ofureinfalt popp, enn kraftmikil og stórskemmtileg er þessi hljómsveit ekki…. langt frá því að vera útgáfuhæft.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.