• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Stuðmenn – Tívolí – 30 ára afmælisútgáfa

Stuðmenn - Tívolí - 30 ára afmælisútgáfa
Einkunn: 5
Utgafuar: 2007
Label: Sena

Stuðmenn, hljómsveit allra landsmanna, fær fullt hús!

Það er svolítið undarlegt að gagnrýna plötu sem kom út fyrir þrjátíu árum. Ekki hjálpar til að um er að ræða einn af hornsteinum íslenskrar popptónlistar og verk sem meiri spekingar en ég hafa ritað háalvarlegar og lærðar greinar um. Tívoli er að mörgum talin ein besta poppplata Íslandssögunnar og á ég erfitt með að færa rök gegn því.

Tónlist Stuðmanna er án landamæra, þekkir engin takmörk og flakkar áhyggjulaust milli stíla og strauma. Jakob Frímann hefur sjálfur lýst Stuðmönnum sem “póst-módernískum” hvað tónlist varðar og vitnar þar í aðrar liststefnur, eins og myndlist, hvar vitnað er í eldri stefnur og stíla og allt telst leyfilegt. Því mætti með réttu kalla tónlist Stuðmanna “póst-móderníska”.

Textar Stuðmanna og yrkisefni eru hlaðin húmor og háði og ort á þann máta að okkar ástkæra og ylhýra mál fær sín sem best notið. Sem dæmi um þetta má nefna textann við eitt besta lag plötunnar, “Hveitibjörn”:

Hver var það sem kastaði fyllibyttum út
En kogara á svörtum seldi öllum?
Hver er sá sem keypti stork og storka síðan tók
Þeim stað sem fæti stóð þá höllum?

Eftir viðlagið heldur svo sagan um þennan fræga dyravörð áfram:

Hveitibjörn, sem sigraði í firmakeppninni
Og húmbúkkaði kerfið eftir kvöldmat,
Hann er hress og hikar ei, en stöðugt sækir fram,
Það lafir þar til allt fer í rassgat.

Á Tívolí er að finna nokkur af ástsælustu dægurlögum í íslenskri tónlistarsögu. Þarna eru lög eins og “Frímann flugkappi”, “Ólína og ég”, “Hveitibjörn”, Hr. Reykjavík” og hið margfræga “Bíólag”, þar sem bankaræninginn Svartipétur fær makleg málagjöld og Hesma-mál barnanna birtist í, að ég öruggt tel, fyrsta og síðasta skiptið í íslensku dægurlagi.

Í textabókinni sem þessari 30 ára afmælisútgáfu fylgir segir að Tívolí platan hafi orðið til á nokkrum sumarvikum árið 1976. Lögin hafi flest verið samin í bílferð til Lundúna með viðkomu í Norrænu og Færeyjum. Platan mun vera afrakstur skrautlegrar Lundúnardvalar hljómsveitarmeðlima sem, verandi óhörnuð íslensk ungmenni, máttu þola hitabylgjur og ýmislegt annað sem þeir voru ekki vanir. Þrátt fyrir þessar raunir er afurðin stórkostlegt tónlistarafrek og hlaðin þeirri sköpunargleði og frumkrafti sem gjarnan einkennir hæfileikaríka unga menn.

Þrátt fyrir árin þrjátíu eldist Tívolí furðu vel og á enn fullt erindi til komandi kynslóða tónlistarunnenda. Spilamennskan, útsetningarnar og upptökustjórnin er í hæsta gæðaflokki og ekki skemmir að búið er að endurhljóðblanda gripinn. Á afmælisútgáfu þessari er að finna sex aukalaug og eru það hljómleikaupptökur héðan og þaðan og frá ýmsum tímabilum. Ekki finnst mér þessi viðbót ekki bæta miklu við upplevelsið en skemmir svosum ekki fyrir heldur.

Að þessu sögðu skal það kunnugt gert að Stuðmenn, hljómsveit allra landsmanna, fær fullt hús!

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

4 Athugasemdir

 1. Óskar · 04/05/2007

  Hmmm já klárlega mjög góð plata og það er líka sorglegt hvað stuðmenn eru orðnir slappir í seinni tíð og fyrir minn smekk verð ég að segja að þeir ættu að hafa vit á því að hætta meðan þeir hafa ennþá gott respect

 2. Pétur Valsson · 04/05/2007

  Það má til gamans geta að platan var tekin upp pönksumarið mikla í London – og greinilegt að Stuðmenn hafa lítið verið að gá hvað þar hafi verið á seyði …

  Annars leiðinlegt að ekki skuli vera höfð með demó eða afgangslög (etv ekkert til?) en slíkar gersemar gerðu það þess virði að kaupa allt Megasarsafnið upp á nýtt þegar það var endurútgefið fyrir nokkrum árum.

 3. Heimir Klemenzson · 04/05/2007

  Keypti mér þessa plötu um daginn og sé ekki eftir því. Mér finnst að Sigurður Bjóla eigi mikið í þessari plötu en hann semur mörg lög á plötunni og á held ég hugmynda að conceptinu.

  Þótt að Stuðmenn séu kannski ekki jafn góðir og þeir voru áður væri samt gaman að þeir gerðu eina plötu þar sem Valgeir væri með þeim

 4. haus · 10/05/2007

  stuðmenn eins og þeir eru í dag.. eru best geymdir í svartholi !!!

Leave a Reply