• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Fréttir Vikunnar

  • Birt: 24/05/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Fréttir Vikunnar

Lay Low, Hafdís Huld, Portishead o.fl.

Fréttir vikunnar í hnotskurn
Lay Low boðið vestur um haf

Tónlistarkonunni Lay Low hefur verið boðið að koma fram á hátíðunum Canadian Music Week og South by Southwest á næsta ári eftir að tónleikar hennar á Great Escape hátíðinni í Brighton um síðustu helgi vöktu athygli hátíðaskipuleggjendanna. Alls komu sjö íslenskar hljómsveitir á hátíðinni en auk Lay Low stigu Jakobínarína, Amiina, Seabear, Stórsveit Nix Noltes, Hafdís Huld, og Benni Hemm Hemm á svið og voru fulltrúar Íslands mun fleiri en frá nokkurri annarri Evrópuþjóð. Vöktu íslensku böndin mikla athygli á hátíðinni.

Ásakanir gegn Tónlist.is

Tónlistarvefurinn Tónlist.is hefur átt undir högg að sækja undanfarið. Í kjölfar opnunnar á nýjum vef fóru að heyrast ásakanir frá listamönnum um að stjörnugjöf síðunnar hallaði á hlut platna sem ekki væru gefnar út af útgáfufyrirtækjunum Senu eða Cod en þau eru í eigu sömu aðila og Tónlist.is. Aðstandendur síðunnar hafna þessum ásökunum og segja nýja reglur í stjörnugjöf valda þessum misskilningi. Áður hafi plötur byrjaði með þrjár stjörnur við nýskráningu en nú byrji þær á núlli og það sé undir notendum komið að gefa þeim einkunn.

Einnig hafa nokkrir ungir tónlistarmenn sakað aðstandendur vefsíðunnar um að halda eftir greiðslum fyrir tónlist þeirra sem er til sölu á vefnum. Í yfirlýsingu sem birt var á Tónlist.is á þriðjudag er þessu vísað á bug og segir það vera starf STEF, Sambands Tónskálda og Eigenda Flutningsréttar, og útgefenda að koma þeim greiðslum til skila og að ósáttir tónlistarmenn geti beint kvörtunum sínum til þeirra. Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri STEF, gaf svo út yfirlýsingu í gær þar sem hann fullyrti að Tónlist.is is hafi staðið skil á öllum greiðslum og að lágar greiðslur til tónlistarmanna skýrist af því að höfundagjöld fyrir notkun á vefnum séu almenn lægri en önnur höfundagjöld.

Garðar Þór Cortes syngur fyrir heimilislausa

Óperusöngvarinn Garðar Þór Cortes mun vekja athygli á aðstæðum heimilislausra í London með nokkrum tónleikum sem fara munu fram á götum úti víðsvegar um London. Mun tenórinn koma fram í í verslunarmiðstöðvum, við járnbrautarstöðvar og á fleiri opinberum stöðum og veita þannig yfirvöldum London lið í átaki þeirra til að vekja athygli á þessum vanda en hann mun ekki þiggja laun fyrir þátttöku sína. Fyrstu tónleikarnir munu fara fram á Leichester-torginu þann 1. júní en enn á eftir að tilkynna um stund og stað annarra tónleika.

Hafdís Huld spilar á Glastonbury

Þessa daganna stendur yfir tónleikaferð söngkonunnar Hafdísar Huldar Þrastardóttur um Evrópu. Hafdís Huld og félagar hafa nú þegar komið fram á Spáni, í Frakklandi, Bretlandi, og í Belgíu Í byrjun næstu viku er ferðinni svo heitið aftur til Frakklands þar sem söngkonan mun hita upp fyrir skosku stórstjörnuna Paolo Nutini á uppseldum tónleikum í Lyon, Strasbourg og L´Olympia tónleikahúsinu í París.

Eftir það taka við tónlistarhátíðir sumarsins en Hafdís Huld hefur nú þegar verið bókuð á Glastonbury, The Big Chill og The Secret Garden Party hátíðirnar í Bretlandi og Hulstfred hátíðina í Svíþjóð.

Hafdís Huld og hljómsveit hennar munu halda sína fyrstu tónleika á íslandi á Nasa þann 28. Júní næst komandi.

Portishead snýr aftur

Elektróníska trip-hop sveitin Portishead hefur tilkynnt um endurkomutónleika sína eftir tíu ára hlé. Hefur sveitin tekið að sér umsjón The Nightmare Before Christmas hátíðarinnar, sem haldin er árlega af All Tomorrows Parties plötuútgáfunni, og mun hljómsveitin halda þar fyrstu opinberu tónleikana sína í áratug.

Í takt við umgjörð ATP tónleika mun hljómsveitin sjá um atriðaskipan hátíðarinnar, sem haldin verður 7.-9. desember nk. í Minehead, Englandi, og er áhugasömum bent á myspace síðu viðburðarins þar sem hægt er að finna góðar upplýsingar fyrir verðandi tónleikagesti. Portishead spiluðu á óvæntum tónleikum í Bristol í febrúar þar sem þau prufukeyrðu nýtt efni en tónleikarnir í desember verða þeir fyrstir sem eru opinberlega auglýstir.

Dagskrá Carling hátíðarinnar tilkynnt

Tilkynnt var um endanlegan atriðalista Carling hátíðarinnar á dögunum. Hátíðin fer fram samtímis í borgunum Reading og Leeds, dagana 24.-26. ágúst og er ein stærsta tónlistarhátíð Bretlandseyja. Munu sveitirnar Smashing Pumkins, Razorlight og Red Hot Chilipeppers headline-a hátíðina en óhætt hlýtur að teljast að atriðalistinn sé með þeim betri sem bjóðast í ár. Heildardagskrána má nálgast á vefsíðum hátíðarinnar en hún er breytileg eftir því hvort menn stefna á Reading eða Leeds. [Innskot ritstjóra: Mæli með Reading. Þið viljið ekki láta bjóða ykkur upp á kamrana á Leeds.]

Ben Weisman látinn

Ben Weisman, sem helst er þekktur fyrir lagasmíðar sínar fyrir Elvis Presley, er látinn 85 ára að aldri í kjölfar heilablóðfalls. Hann samdi yfir 60 lög fyrir Kónginn, þar á meðal eru „Follow That Dream“, „Fame And Fortune“, „Crawfish“ og „Rock-a-Hula Baby“, auk þess að hafa á ferli sínum samið fyrir stórlistamenn á borð við Bítlana, Johnny Mathis og Barböru Streisand. Weisman var menntaður píanóleikari úr Julliard tónlistarskólanum og hafði að undanförnu glímt við Alzheimer sjúkdóminn.

 

Ef þú hefur frétt sem þú telur eiga heima á síðum Rjómans sendu þá póst á rjominn[at]rjominn.is

 

Leave a Reply