• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Wulfgang – Wulfgang

Wulfgang - Wulfgang
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: COD Music

…kröftugt, fjölbreitt og hugmyndaríkt en jafnframt heilsteypt byrjendaverk…

Samnefnd fyrsta plata rokksveitarinnar Wulfgang er komin út. Ég hafði beðið eftir þessari plötu með talsverðri eftirvæntingu enda var þeirra fyrsta lag, Machinery, sem fór á topp beggja rokkstöðvanna í fyrra, einstaklega gott og lofaði mjög góðu um framhaldið. Það er skemmst frá því að segja að Wulfgang valda svo sannarlega ekki vonbrigðum og verður að játast að það er nokkuð síðan undirritaður heyrði jafn kröftugt, fjölbreitt og hugmyndaríkt en jafnframt heilsteypt byrjendaverk hjá íslenskri rokksveit.

Þrátt fyrir að það sé nokkuð erfitt að staðsetja Wulfgang tónlistarlega hvað strauma og stefnur varðar kemur það ekki að sök. Við fyrstu hlustun virðist platan nokkuð samhengislaus þar sem meðlimir sveitarinnar flakka óhikað milli stíla en strax við aðra hlustun fer heildarmyndin að skýrast. Ég hef heyrt, en ekki fengið staðfest, að þessi samnefnda plata Wulfgang sé í raun þemaplata og nálgist maður hana sem slíka, er upplifunin allt öðruvísi en ef maður sér fyrir sér hefðbundna rokkplötu. Þó lagaskipting og lengd sé eins og gengur og gerist eru lögin allt annað en hefðbundin rokklög þar sem viðlag tekur við af versi o.s.frv. Lögin eru flest mjög kaflaskipt hvað stemningu,laglínur og tempó varðar og hefði í raun mátt skipta sumum lögum niður í tvö eða fleiri lög útaf fyrir sig. Ég verð að játa að ég þurfti nokkrar hlustanir til að innbirgða almennilega allt það sem Wulgang býður uppá á þessari frumraun sinni en það kom á endanum. Þeim ykkar sem finnst platan því dálítið tormelt við fyrstu hlustun bendi ég á að kveða ekki upp dóm fyrr en að hafa hlustað á hana minnst þrisvar.

Platan byrjar á hinu stórgóða lagi „Machinery“ en það kom, eins og áður sagði, sveitinni á kortið á síðasta árin. Næsta lag, „The Live and Habits (of homo sapiens)“, þar sem yrkisefnið er tilvera og örlög okkar mannanna, fylgir upphaflaginu vel á eftir með grípandi viðlagi og kröftugri útsetningu.

Í þriðja lagi, „Arrival of the Visitors“, byrja Wulfgang-liðar að leika sér með stíla og stefnur. Lagið byrjar á frekar lágstemmdum nótum en umbreytist svo um mitt lag og tekur nýja og óvænta stefnu. Þó þessar tilraunar sveitarinnar hafi í upphafi hljómað nokkuð undarlega (ég helt reyndar í fyrstu að þetta væru þrjú mismundandi lög) þá rennur fljótlega upp fyrir manni að epískum tónsmíðum eru engin takmörk sett og kristallast sú staðreynd í þessu lagi. Kaflaskipting þessi er því einungis til að magna upplifunina og hæfir heildarmyndinni (þemanu) fullkomlega.

Eftir hið epíska „Arrival of the Visitors“ tekur við hið snaggaralega og grípandi lag „Rise of the Underground“. Mjög útvarpsvænt lag það og líklegt til vinsælda. Því næst tekur „Mind the Arrows“ við sem, þrátt fyrir að vera ágætis lag, verður að teljast eitt óeftirminnalegasta lag plötunnar. Það nær einfaldlega ekki sömu hæðum og aðrar tónsmíðar á plötunni en er þó langt frá því að vera svo slæmt að það dragi úr glæsilegum heildarsvip plötunnar.

Þegar hér er við sögu komið, um miðja plötu, fara hlutirnir virkilega að gerast. Það er hér sem Wulfgang liðar sýna hvað í þeim býr og skipta úr hefðbundnu rokki yfir melódískan könnunarleiðangur sem á köflum hljómar eins og óður til prog-rokk sveita gærdagsins. Hefst þessi seinni hluti plötunnar á hinu stórgóða lagi „How to Make a Monster“. Þar hægja Wulgang-liðar örlítið ferðina eins og til að undirbúa okkur fyrir hið angurværa lag „Mornful Monarchy“ sem á eftir fylgir. „Of Wolfs and Rabbits“ tekur því næst við og magnar aftur upp stemninguna hægt og örugglega fyrir hið kröftuga lag „Opposites“. Af þremur síðustu lögum plötunnar er lagið „Godspell Gospel“ að mínu mati það bitastæðasta en lokalagið, „Clocks of Misfortune”“, er þó skemmtilega frábrugðið öðrum lögum plötunnar og minnir helst á einhverskonar barnagælu.

Allt í kringum þessa útgáfu er afar fagmannlega gert og gildir þá einu hvort átt er við hönnun umslags, upptökustjórn eða hljóðvinnslu. Hönnun umslags var í höndum Karitasar Pálsdóttur og minna teikningar hennar mig á hugarheim Tim nokkurs Burtons svo ég gefi ykkur hugmynd um hverskonar myndmál er um að ræða. Ísleifur Birgisson tók plötuna upp og Axel „Flex“ Árnason sjá um hljóðblöndun og masteringu. Báðir skila þeir sínu með glæsibrag og færa okkur rokkplötu með næstum óaðfinnanlegum hljóm.

Eitthvað hefur borið á neikvæðri gagnrýni á þessa fyrstu plötu Wulfgang og verð ég, fyrir mitt leiti, að segja að mér finnst sú gagnrýni á litlum rökum reist. Hér er á ferð afbragðs rokkplata, hugmyndarík og margslungin. Hún missir reyndar flugið einu sinni eða tvisvar en nær sé alltaf á loft aftur og flýgur þá í hæstu hæðir.

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

2 Athugasemdir

 1. Arnar · 31/05/2007

  “Eitthvað hefur borið á neikvæðri gagnrýni á þessa fyrstu plötu Wulfgang og verð ég, fyrir mitt leiti, að segja að mér finnst sú gagnrýni á litlum rökum reist.”

  Nákvæmlega.

 2. Haukur · 05/06/2007

  Já, þeir sem eru ósammála þér eru greinilega allir alltaf úti að aka.

Leave a Reply