• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

IV Thieves – If We Can’t Escape My Pretty…

 • Birt: 05/06/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 1

IV Thieves - If We Can't Escape My Pretty...
Einkunn: 2
Utgafuar: 2007
Label: One little indian

IV Thieves standa næstum því undir nafni

Sumar hljómsveitir vita ekki alveg hvert þær ætla sér. Innan þessara sveita gæti ég ímyndað mér að séu miklir tónlistaráhugamenn með mýmarga áhrifavalda og eiga því erfitt með að halda sig innan ákveðinnar stefnu. Ekki kæmi mér heldur á óvart að fleiri en einn lagahöfundur væri þar innanborðs. Þetta þýðir ekki að viðkomandi sveit sé léleg, oft langt því frá, en þær eiga oft erfitt uppdráttar innan markaðarins sem vilja fá skýra flokkun. IV Thieves er ein slík sveita.

IV Thieves eru breskir fjórmenningar frá Texas sem spila britrokk og ráfa þeir um þá stefnu án leiðarvísis eða áfangastaðar, sem gerir frumburð þeirra, If We Can’t Escape My Pretty…, að áhugaverðri stúdíu um hvernig platan varð til. Til að byrja með eru fjórmenningarnir allir ábyrgir fyrir sínum hluta af lagasmíðunum en einnig skipta þeir söngnum bróðurlega sín á milli og nýta sönghæfileika sveitarinnar vel í bakröddunum. Allir virðast þeir hlutverki sínu vaxnir því lögin eru öll fagmannlega útsett og sungin auk þess að ég hef ekkert út á flutninginn að setja. Það er einnig undirtónn í plötunni sem gerir hana heildsteypta og því er þetta flakk milli undirgreina britrokksins ekki neinn sérstakur dragbítur.

Þá er bara eftir spurningin: er þetta góð plata? Hér koma áhrifavaldarnir inn í myndina. Það hefur aldrei angrað mig neitt sérstaklega þegar sveitir fara nálægt áhrifavöldum sínum – svo lengi sem það sé góð laglína á bakvið. IV Thieves eiga það þó til að ganga lengra og stundum er nánast sem þeir hafi hreinlega samplað búta úr uppáhalds lögum sínum og sett fram sem sín eigin. Ég geng ekki svo langt að saka þá um lagastuld en þegar upphafstónar „You Can’t Love What You Don’t Understand“ er borið saman við upphafstóna „Somebody Told Me“ með The Killers er augljóst að hljómsveitin fer óþægilega nálægt því að standa undir nafni. Einnig er viðlag „Take This Heart“ skelfilega kunnuglegt, þó ég komi því ekki fyrir mér, og í allt of mörgum lögum fær ég algjört „deja vu“ og finnst mér vera að hlusta á seinni tíðar efni frá Supergrass. „Lay Me Back Down“ gæti hæglega verið af Life On Other Planets með þeirri mætu hljómsveit.

You can’t love what you don’t understand

Somebody told me…?

Sífellt spretta upp hljómsveitarnöfn upp í hugann þegar platan rennur í gegn. Oasis, Manic Street Preachers, Mansun, Jet, The Racounteurs, Stereophonics o.s.frv… Varla er hægt að tala um Bítlanna og Led Zeppelin í þessu samhengi þar sem áhrif þeirra gegnumsýra breska tónlist en nöfn þeirra mega svosem líka eiga heima á þessum lista.

Take this heart

Það er einstaklega svekkjandi að hlusta á If We Can’t Escape My Pretty. Nokkur laganna eru þess verð að gefa þeim gaum; „Chase me off/out“ inniheldur t.d mjög grípandi viðlag af bítlaættinni og laglína „Die in Love“ er mjög þroskuð og spilar vel með útsetningunni. Ekkert lag gæti talist lélegt en það er gríðarlega stór galli á plötu þegar hvert einasta lag á henni minnir á aðra hljómsveit. Áður en ég fékk þessa plötu í hendurnar hefði ég ekki getað trúað því að hægt væri að gera jafn góða plötu sem væri gædd þessum eiginleika. Í dóm mínum um Wilderness is Paradise Now, plötu Morning Runner, skrifaði ég: „Þetta er plata fyrir þá sem kaupa Zwans skó og nota Dunacell rafhlöður og hafa ekki miklar áhyggjur af þeim fyrirtækum sem tapa á eftirlíkingunum.“ IV Thieves falla ekki bara inn í þennan hóp heldur eru konungar í ríki sínu þar.

1 Athugasemd

 1. Kári · 05/06/2007

  Skemmtilegur dómur

  Gæti ekki verið að þeir séu bara með eitthvað þema í gangi ef þetta er svona svakalega líkt öðrum sveitum? Ef ekki er þetta nú misheppnaður diskur

Leave a Reply