• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Jeff Buckley – So Real

 • Birt: 12/06/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 6

Jeff Buckley - So Real
Einkunn: 1.5
Utgafuar: 2007
Label: Sony/BMG

Buckley er alltaf góður en þessi safnplata er peningasóun

Ath: Einkunn sú sem þessi plata hlýtur er ekki dregin af tónlist þeirri sem á henni er að finna.

Það eru einstaka plötur sem gefnar eru út sem innihalda frábæra tónlist en eiga alls ekki skilið að seljast vel eða fá meðmæli gagnrýnenda. So Real er ein slíkra platna. Hún fellur í hóp sem mig langar að kalla „blóðmjólkara“, gefnar út með það eina í huga að græða á grunlausum tónlistarneytendum með því að gefa út áður útgefið efni í nýjum pakkningum.

So Real inniheldur eins konar þverskurð af því efni sem áður hefur komið af upptökum Buckley. Fyrir þá sem hafa búið í hljóðeinangruðum helli undanfarin tíu ár þá gaf Jeff Buckley aðeins út eina breiðskífu, Grace fyrir andlát sitt en síðan hefur verið dælt út b-hliðum, ókláruðum upptökum, tónleikaupptökum, tónleikamyndböndum og alls konar aukahlutum í stíl. Mikið af þessu má finna uppi í hillu hjá mér; Sketches for my Sweetheart the Drunk, Live at Sin-é, Mystery White Boy, Live in Chicago auk fleiri titla. Þessar útgáfur höfðu eitthvað fram að færa fyrir aðdáendur Buckley sem hörmuðu að hafa misst jafn hæfileikaríkan tónlistarmann eftir jafn stuttan upptökuferil. Sketches bauð upp á grófa sýn á því sem komið hefði ef hann hefði lifað, Sin-é sýndi frábærlega hvernig tónlistamaðurinn þróaði list sína á litlum kaffihúsum með gítarinn og hugmyndarauðgina að vopni; og hinar ýmsu tónleikaútgáfur báru vitni um hversu óútreiknanlegur Buckley gat verið á sviði.

En það hlýtur að koma að því að brunnurinn þorni upp og ég tel að með So Real sé ljóst að komið sé að þeim tímapunkti. Á plötunni má finna fjögur lög af Grace í upprunalegum útgáfum, vænan skammt af áðurnefndum plötum og svo tvö „áður óútgefin lög“, sem væntanlega eiga að tæla harða aðdáendur til að versla sér inn efni sem þeir þegar eiga. Það er þó ofsögum sagt að hér sé um óútgefin lög frá Buckley að ræða því hið fyrra er órafmögnuð tónleikaútgáfa af titilaginu „So Real“ og hið seinna ábreiða af The Smiths laginu „I know It’s Over“. Í sjálfu sér alveg þess virði að hlusta á en mun vænlegra er að snúa sér að ólöglegum leiðum niðurhals til að afla sér þeirra en að versla sér inn þessa plötu. Síðasti naglinn í kistuna (með fyllstu virðingu) er svo tilraunin til að selja plötuna með því að auglýsa að með pakkanum fylgi fágætar myndir og ný ritgerð um líf mannsins.

Það er sjálfsagt til markhópur fyrir þessa plötu. Fólk sem er ekki alveg jafn miklir safnarar og ég, og svo „Greatest Hits“ fíklarnir, en í plötuumslaginu er því fleygt fram að þessi plata væri það næsta sem kæmist slíkri plötu frá Buckley. Ég skal alveg viðurkenna það að lagavalið er alveg ágætt miðað við þá hugsun en persónulega tel ég peningunum betur varið í að kaupa sér Grace, Sin-é og Skectches. Ég get alla vega engan veginn mælt með þessari útgáfu með góðri samvisku. Það eru til betri Buckley plötur og Buckley plötur sem eru betri fyrir mann. Leyfum honum nú að hvíla í friði.

6 Athugasemdir

 1. Hildur Maral · 12/06/2007

  Sammála. Smiths coverið er samt meðþví fallegra sem ég hef heyrt…

 2. Pétur Valsson · 12/06/2007

  Þar sem Bukcley er að covera Smiths lag dettur mér nú í hug textinn við „Paint a Vulcar Picture“:

  At the record company meeting
  On their hands – a dead star
  ….
  Re-issue ! Re-package ! Re-package !
  Re-evaluate the songs
  Double-pack with a photograph
  Extra Track (and a tacky badge)

  Textinn virðist eiga vel við Buckley nú

 3. Gunni · 12/06/2007

  Var ekki Smiths ábreiðan á Mystery white boy tónleikaplötunni?

 4. Halldór · 12/06/2007

  Þetta er önnur útgáfa.

 5. Kiddi · 12/06/2007

  Það má alltaf líta á svona sem ágætis aðferð til að kynna listanmanninn fyrir nýjum aðdáendum en svo má deila um hvort lagavalið sé rétt.

 6. Torfi Guðbrandsson · 15/06/2007

  Já ég held að þetta sé meira fyrir þá sem vilja kynna sér tónlistarmanninn eða ‘Greatest Hits’ fíklana. Langar í Siné!

Leave a Reply