Skátar – Ghost of the Bollocks to Come

Skátar - Ghost of the Bollocks to Come
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Grandmother Records

Ghost of the Bollocks to Come er ófyrirsjáanleg, ómótstæðileg og án vafa langskemmtilegasta íslenska rokkplata í háa herrans tíð.

„Eitt sinn…“ og „ávallt…“ heyrist oft þegar skáta ber í tal. Hvort rokksveitin Skátar hafi unnið slíkan eið er með öllu óvíst en þegar að því kemur að hnýta saman áhugaverða tónlist eru Skátar öllum hnútum kunnugir.

Skátum hefur verið líkt við ýmsar ólíkar sveitir en hér er ekki ætlunin að auka enn við þá flóru. Málið er nefnilega að þó ýmis áhrif megi greina í tónlist Skáta þá er ekki hægt að skilgreina tónlist þeirra svo auðveldlega. Skátar taka brot héðan og þaðan úr rokksögunni, sníða saman og bæta við svo úr verði heild sem er öllu öðru ólík en byggir þó á traustum grunni. Það sem skiptir mestu máli er að þeim tekst, með vel samstilltri spilamennsku að gera þessa heild einstaklega áheyrilega.

Það sem vekur fyrst athygli á Ghost of the Bollocks to Come er hversu margþætt tónlistin er. Lög plötunnar eru öll afar kaflaskipt og renna Skátar sér áreynslulaust milli þeirra með hraða-, takt-, og stílbreytingum sem gerir plötuna enn meira spennandi en ella. Það sem skiptir þó máli að kaflarnir eru allir stórskemmtilegir sem veldur því að þessi stíll Skáta verður hvorki leiðinlegur né þreytandi til lengdar. Ef til vill gætu þó þessar kafla- og stílbreytingar Skáta farið í taugarnar á einhverjum sem eiga erfitt með að höndla annað en einfalda og klisjukennda rokktónlist. Það sem Skátar stunda er nefnilega á öndverðum meiði við slíkt og gerir það tónlist þeirra einmitt svo illskilgreinanlega.

Lögin níu eru í raun hvert öðru skemmtilegra og er afar erfitt að hampa einhverjum þeirra á kostnað hinna (vel hefði hægt að tilgreina öll lög plötunnar í listanum hér til hliðar yfir áhugaverð lög). Að öðrum lögum ólöstuðum stendur „Skálholt“ upp úr en þar smellur allt saman í fullkomna heild. Önnur lög plötunnar luma þó öll á snjöllum og ógleymanlegum andartökum en ógerningur er að telja þau öll upp hér án þess að leggjast í löng ritgerðarskrif.

Þótt tónlistin sé hárnákvæm einkennist hún af skemmtilegu kæruleysi sem leyfir Skátum að flakka áreynslulaust milli ólíkra kafla og stíla. Þetta kæruleysi birtist ekki síst í textagerð Skáta en þar leyfa þeir textanum að fylgja tónlistinni fremur en að gera úr honum samstæða heild. Hver setning virðist sniðin við hvern kafla og er ekki endilega í samhengi við aðrar setningar sem heyrast í laginu. Þannig flakka Skátar t.d. stundum milli ensku og íslensku í sama laginu án þess að það trufli hlustandann en það gerir reyndar tónlistina enn ófyrirsjáanlegri og skemmtilegri en ella.

Sumir dómar skrifa sig næstum sjálfir en örfáir eiga erfiða fæðingu. Þessi dómur er dæmi um slíkan og er ástæðan líklega sú að auðveldara er að gagnrýna það sem miður þyki fara en að hrósa því sem vel er gert. Á Ghost of the Bollocks to Come er lítið sem hægt er að setja út á en fjölmargt er einkar vel gert. Platan er bráðskemmtileg, uppfull af sniðugum hugmyndum sem vel er unnið úr auk þess sem spilamennska, hljómur og frágangur er frábær. Hér blandast tilraunamennska og súrleiki í hæfilegu magni móti grípandi lagstúfum sem gerir plötuna ómótstæðilega. Það skín í gegn hversu gaman hefur verið að gera plötuna og smitar það óhjákvæmilega hlustandann sem fyllist gleði við hverja hlustun.

Hér er loksins komin íslensk plata sem er þess virði að hækka allverulega í botn „þar til mig langar að fara að hoppa“, svo vitnað sé nú aðeins í plötuna sjálfa. Ghost of the Bollocks to Come er ófyrirsjáanleg, ómótstæðileg og án vafa langskemmtilegasta íslenska rokkplata í háa herrans tíð. Það er því óskandi að Skátar strengi heit og verði ávallt viðbúnir að gleðja hlustendur með gripum sem þessum á komandi árum.

6 responses to “Skátar – Ghost of the Bollocks to Come”

 1. Árni Viðar says:

  Skátar eru snilld í sjötta veldi….sjöunda á tónleikum.

  Þeir mega fylgja mér yfir götu hvenær sem er!

 2. Egill says:

  Góður dómur. Ég verð klárlega að eigna þessa plötu.

 3. Árný says:

  Frábært dómur sem strákarnir eiga svo sannarlega skilið!!!!!
  En bestir eru þeir á tónleikum, frumlegir og fjölbreytilegir.
  Er mér fast í minni HeMan þemað sem þeir gripu til að spila í upphaf einna tónleika sinna. Ótrúlegur húmor!

 4. Bogi says:

  Er Markús ennþá í Færeyjum og verður eitthvað fylgt útgáfunni eftir?

 5. Bjössi says:

  Markús er kominn heim frá Færeyjum og hafa Skátar þó nokkuð verið að spila á seinustu vikum til að fylgja plötunni eftir. Hins vegar er Benni að verða Pabbi á næstu dögum og því verður aðeins minna um spilamennsku þar til í ágúst sirka, fyrir utan kannski 2. júlí á Nasa og 19. júlí á Ingólfstorgi

 6. Eiríkur Emilsson says:

  Melodían rennur ekki áfram heldur hikstar í flippi sem minnir mann helst á Primus eða slíkt. Ekki minn tebolli.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.