• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Marilyn Manson – Eat me, drink me

 • Birt: 24/06/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

Marilyn Manson - Eat me, drink me
Einkunn: 0.5
Utgafuar: 2007
Label: Interscope

Ég er ekki reiður, ég er vonsvikinn.

Fyrir sirka tíu árum var Marilyn Manson maðurinn. Hann hafði nýlokið við að gefa út Antichrist Superstar og Mechanical Animals, báðar frábærar plötur, og var einn umtalaðasti tónlistarmaður þess tíma. En fallið er hátt; næstu tvær plötur stóðu ekki undir væntingum, konan hans fór frá honum því hann vildi ekki hætta að hegða sér eins og rokkstjarna og fréttum af honum fækkaði nokkuð stöðugt. Eftir tveggja ára seinkun er hér komin nýjasta tilraun Manson til að koma sér aftur á kortið; hún heitir Eat me, drink me, og eftir því sem ég hlusta oftar á hana langar mig meir og meir að fara að hennar ráðum. Þá þyrfti ég alla vega ekki að heyra hana aftur.

Jebb, þetta er alveg svona slæmt. Ástandið væri kannski öðruvísi ef þetta væru bara einhverjir gaurar úti í bæ, en þegar Marilyn Manson skírir fyrsta lagið á plötunni „If I was your vampire” og syngur síðan um tilfinningar sínar í fimmtíu mínútur er manni einfaldlega öllum lokið. Í dentid fyrirgaf maður ýmislegt, eins og einstaka misgóða texta og nælonsokkabuxurnar, því Manson var svo helvíti skemmtilegur. En eini karlmaðurinn sem hefur verið skemmtilegur þegar hann syngur um tilfinningar sínar með úfið hár og hvítan andlitsfarða er Robert Smith, og Manson kemst ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana.

Það er snúið að segja nákvæmlega hvar Eat me, drink me klikkar, en mestu sökudólgarnir eru auðvitað lögin á henni. Orðið á götunni er að bassaleikarinn Tim Sköld hafi samið lögin og Manson síðan mætt með textana, sem er nokkuð stór breyting frá því hvernig fyrri verk Manson hafa orðið til. Á meðan þessi lög hljóma svo sem ekkert öðruvísi vantar bara eitthvað í þau, og svo eru textarnir við þau ekki upp á marga fiska. Kannski hafa þeir aldrei verið það, en meðan þeir voru um andkristinn og ímyndaða glysrokkara skipti það svo sem ekki máli. Niðurstaðan er samt að þrjú af þessum ellefu lögum eru frambærileg, og þau koma öll í röð fremst á plötunni. Restin er hvorki fugl né fiskur.

Nú gæti ég svo sem alveg dregið fram einhver vandræðaleg textabrot, eða bent á eitthvað af verri lögunum, en það þjónar bara engum tilgangi. Það eina sem þarf að komast til skila er að Eat me, drink me er vond plata. Ekki hlusta á hana. Ef þið fílið ekki Manson fyrir mun hún ekki breyta neinu þar um, og ef þið haldið upp á Antichrist Superstar eða Mechanical Animals eigið þið bara eftir að verða fyrir vonbrigðum, og verða pínulítið sár út í Marilyn Manson fyrir að vera ekki búinn að slaufa þessu öllu saman. Þetta var gaman hjá honum meðan á því stóð, en það er búið núna.

Myndbandið við „Heart-shaped glasses”

4 Athugasemdir

 1. Þorbjörn · 30/06/2007

  Mér fannst Holy wood í ekkert verri gæðaflokki en plöturnar á undan og Grotesque var ekki slæm. Getur verið að þú sért kannski bara vaxinn upp úr Manson, því þegar ég heyrði Heart Shape Glasses fyrst fékk ég smá fortíðarþrá…

 2. Gunni · 04/07/2007

  Holy Wood var allt of löng, hún hélt bara ekki dampi út í gegn, og Golden age of grotesque var svolítið slöpp þegar maður kom fram yfir miðju. Ég veit nú ekki hvort ég er eitthvað vaxinn upp úr Manson, ég hef ennþá rosalega gaman af Antichrist og Mechanical Animals, en ég stend við allt sem ég sagði um þessa plötu. Hún er rosa vond.

  En auðvitað er ég bara einhver kjáni úti í bæ.

 3. Kristján · 28/07/2007

  Þetta er nú ekki alvond plata, en hún er langt frá því að vera jafn góð og fyrri plöturnar. Ef ég mætti ráða einhverju ætti M. Manson að fá sína fyrri meðlimi, Þá Pogo, Twiggy og Ginger Fish (ef þeir hefðu einhvern áhuga) og halda áfram að gera góða tónlist. Ég er búinn að vera aðdáandi síðan Mechanical Animals kom út og mér hefur allt sem þeir hafa gert gott. Alveg þar til þessi plata kom út. Ég varð fyrir vonbrigðum.

 4. theanticonformist · 05/11/2007

  þarna er ég ósamm´la þér….eat me drink me
  er góður diskur….en ekki jafn góður og gömlu

Leave a Reply