• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Topp 10

 • Birt: 27/06/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 7

Topp 10

…sem eiga betra skilið

Hérna er listinn yfir þær 10 plötur sem mér finnst eiga betra skilið en Rjómadómurinn gefur til kynna.
Tónlist vekur mismunandi hughrif hjá okkar tónlistarnördunum. Hægt er að meta hana út frá þúsund milljón leiðum. Mér finnst eitt gott sem öðrum þykir miður. Ekkert rétt eða rangt í þessu. Hérna er listinn yfir þær 10 plötur sem mér finnst eiga betra skilið en Rjómadómurinn gefur til kynna. Mér þótti merkilegt eftir á hvað það komust margar íslenskar plötur á þennan lista. Eru Rjómverjar eitthvað arrí út í íslensku tónlistarmennina eða er íslensk tónlist bara slöpp? Það má alltaf finna gott í öllu, a.m.k. flestu. Allir eru djúpir á einhverjum sviðum. Það fer bara eftir við hverja við miðum.

#10 Skúli Sverrisson – Sería (4,0)
Það er kannski óþarfi að bæta hálfum við þá 4,0 sem Sería Skúla Sverrissonar fékk á Rjómanum. Ég stenst þó ekki freistinguna að benda á þessa frábæru plötu Skúla sem hefur farið allt of hljótt.

Fyrir þá sem feela: Tilraunir og leitandi áhugaverða snilld

#9 Jenny Lewis with the Watson Twins – Rabbit fur coat (3,5)
Platan fékk 3,5 á Rjómanum í meðförum undirritaðs. Þegar árið var gert upp poppaði hún upp hjá mér á mörkum topplistans. Á hún þá ekki aðeins meira skilið svona eftir á að hyggja? Frábær sveitaskotin plata þar sem upptökum stjórnar M.Ward sem Íslendingar fá vonandi að berja augum með Nöruh Jones á haustmánuðum (reyndar finnst mér að einhver ætti að dobbla hann til að halda tónleika sjálfur í leiðinni)

Fyrir þá sem feela: M.Ward, Bright Eyes, Rilo Kiley, Decemberists

Rise up with Fists (

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

) með Jenny Lewis with the Watson Twins

#8 Ragnheiður Gröndal – After the Rain (3,0)
Þægan þrist fékk Ragnheiður Gröndal fyrir flotta plötu sem kom út árið 2005. Platan var ekki „tebolli“ þess sem skrifar og þótti of væmin. Þeim sem líkar ekki einlægt kalla það sem er einlægt stundum væmið. Ósanngjarnt? Mér finnst Ragnheiður einlæg – ekki væmin. Er kannski ekki munur?

Fyrir þá sem feela: Rólegheit

#7 Björk – Volta (3,5)
Rjómadómurinn um Bjarkarplötuna Volta var að mínum dómi allt of súr þó meðaltal smádóma og aðaldóms gæfi 3,5. Það voru skiptar skoðanir meðal Rjómverja. Ég skrifaði ekki um plötuna, var ekki búinn að gaumgæfa hana þá. Í aðaldómnum er sagt að Volta blikni í samanburði við bestu verk Bjarkar. Því er ég ekki sammála og enn ómar snilldin „The Dull Flame of Desire“ í hausnum á mér.

Fyrir þá sem feela: Björk

#6 Mammút – Mammút (2,5)
Unglingarnir í Mammút fengu auma 2,5 fyrir frumraun sína. Hljómsveitin kom sem ferskur andblær á sínum tíma. Sjálfur uppgötvaði ég þá ekki fyrr en á Airwaves þar sem þau áttu stórleik. Á plötunni eru engin uppfyllingaraukalög. Flott plata frá efnilegum krökkum.

Fyrir þá sem feela: Purrk Pilnik og aðra góða tónlist þess áratugar

#5 Pétur Ben – Wine For My Weakness (3,5)
Það vekur vissulega athygli að platan sem Rjóminn útnefndi íslensku plötu ársins fékk aðeins 3,5. Það eitt og sér ætti að tryggja henni betri meðferð hjá Rjómanum eða vorum við svona lengi að melta hana kannski? Kannski ekki. Sá Rjómverja sem skrifaði þennan dóm veitti henni annað sætið á sínum árslista. Kannski var þetta bara slappt ár á Íslandi.

Fyrir þá sem feela: Rokk og ról, Mugison

#4 Toggi – Puppy (2,5)
Rjómadómurinn var upp á 2,5 og sköpuðust miklar umræður í athugasemdakerfinu okkar um dóminn. Nokkrir þar á meðal ég gáfu hinu ljúfsára poppi Togga sæti á árslista íslenskra platna í fyrra. Mér þykja lögin smellir og textarnir margir hverjir þrælgóðir. Um þetta eru auðvitað ekki allir samála. Og er það allt í lagi.

Fyrir þá sem feela: Travis, Coldplay, Rufus Wainwright

#3 Midlake – The Trials of Van Occupanther (2,5)
Platan sem miðaldra poppblaðið Mojo útnefndi bestu plötu ársins 2006 fékk meðalmennskudóm á Rjómanum upp á 2,5. Platan er snjallt gamaldags rokk að mínum dómi og á allt gott skilið.

Fyrir þá sem feela: Pink Floyd, My Morning Jacket

#2 The National – Alligator (2,5)
Þessi dómur upp á 2,5 var eins og þegar Bubbaaðdáandi skrifar dóm um John Zorn. Frábær plata ekki metin að verðleikum. Verður fróðlegt að sjá hvort nýja platan, Boxer, fái jákvæðari Rjómadóm. Alligator kom skemmtilega á óvart, Benni í Smekkleysu fær hrós fyrir að hafa bent mér á hana þar (maður á að versla við alvöru tónlistarnörda) og platan var að mínum dómi ein af betri plötum ársins 2005.

Fyrir þá sem feela: Band of Horses, Tapes n’ Tapes

#1 Ghostdigital – In Cod We Trust (1,5)
Plata sem var á topplista mínum yfir bestu plötur ársins fékk 1,5 og þykir mér það auðvitað alveg stór undarlegt. Dómurinn er tóm steypa að mínum dómi þó ég skilji auðvitað að einhverjum líki alls ekki Ghostdigital en um músikina þarf þó að skrifa af virðingu. Þessi dómur finnst mér vera meiri stílæfing en dómur og hljóma skrifin eins og þeim sem skrifar þykji gaman að leggja plötur í rúst, að það bjóði upp á ýmsar skemmtilegar myndlíkingar og réttláta reiði hins móðgaða.

Fyrir þá sem feela: Tilraunir, pönk

7 Athugasemdir

 1. Sævar · 26/06/2007

  Hitar M.Ward upp fyrir Norah Jones?

 2. bió · 26/06/2007

  M.ward er bara í hljómsveitinni. Maður þurfa að pressa á hann að spila á Nasa eða eitthvað fyrst hann er á landinu.

 3. Haukur · 26/06/2007

  Þessi listi er skrýtnasta pæling sem ég hef séð á Rjómanum.

 4. Haukur · 26/06/2007

  …því einmitt hef ég haft sérlega gaman af því að á Rjóma eru fjarkar og fimmur ekki ofnotuð, svo það sé á hreinu. Plata sem fær 3.5 er stórgóð – fjarka og fimmur á að geyma fyrir meistarastykki.

 5. Atli · 27/06/2007

  Fín pæling. Maður er oft ósámmála dómum bæði upp og niður.

 6. Árni · 29/06/2007

  Áfram Sprengjuhöllin

 7. Haraldur Leví Gunnarsson · 01/07/2007

  Já… Mammút platan á betur skilið, að mínu mati er það ein besta íslenska plata til þessa, enda treð ég henni uppá alla túrista.

Leave a Reply