• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Future Clouds and Radar – Future Clouds and Radar

 • Birt: 03/07/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Future Clouds and Radar - Future Clouds and Radar
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: Star Apple Kingdom

Með skemmtilegri plötuútgáfum í ár, en óþolinmóðir ættu að halda sig fjarri.

Það virðist alltaf virka jafn vel að versla tónlist út á flott hljómsveitarnöfn og plötuumslög. Með því að stíla á þetta hef ég kynnst gæðaböndum eins og Mika, Neutral Milk Hotel og Porcupine Tree, og nú var Future Clouds and Radar að bætast í þann hóp. Þetta band er hugarfóstur eins manns, Robert Harrison, sem kemur frá Austin í Texas og langaði að búa til tvöfalda plötu eins og menn gerðu í gamla daga. Þetta vekur upp margar áhugaverðar spurningar, en sú sem skiptir kannski mestu máli er hvort hver sem er eigi að stökkva á Amazon og splæsa í einhvern vitleysing út á sniðugt hljómsveitarnafn?

Áður en við svörum þessu er ágætt að tala aðeins um plötuna sjálfa. Eins og kom fram áðan er FC&R eins manns verkefni, og því kemur nokkuð á óvart hve fjölbreytt hún er. Menn hafa verið gjarnir á að líkja henni við Hvítu plötuna og ég verð að vera sammála því áliti; bæði vegna þess að tónsmíðar Roberts eru nokkuð Bítlalegar á köflum og að líkt og með Hvítu plötuna veit maður aldrei hvað kemur næst. Það er kannski ekkert „Revolution nr. 9” á Future Clouds and Radar, en aftur á móti veit ég ekki um margar hljómsveitir sem myndu skella sjö mínútna Bob Marley tökulagi á miðja fyrri skífuna. Þegar Robert er svo ekki í reggíinu flakkar hann áreynslulaust milli nær diskóskotins indí, rólegra ballaða og grípandi slagara.

Það verður svolítið erfitt að benda á einhver lög sem skara fram úr á svona plötu, því hér skipta ekki bara lögin sjálf máli, heldur einnig hvernig þau hljóma í samhengi við næstu lög á undan og eftir. Þó er óhætt að mæla með að forvitnir kíki á „Hurricane Judy” og „Build Havana”, en bæði er að finna á MySpace síðu Future Clouds and Radar. Hið fyrra er ekta popplag sem ég er búinn að vera með á heilanum í rúmar tvær vikur, en hið seinna er akkúrat svona lag sem maður syngur í sólinni meðan maður er að keyra út á land. Auðvitað eru hér einhver lög sem virka eins og beljur á svelli við fyrstu sín, mér dettur strax í hug mjög undarlegt lag með kúrekaleiðbeiningum, en þau venjast öll með tíð og tíma og verða á endanum ómissandi hluti plötunnar.

Í upphafi spurði ég hvort hver sem er ætti að hlaupa til og kaupa Future Clouds and Radar. Þessu er vandsvarað því það fíla ekki allir tvöfaldar plötur. Þær þurfa líka að glíma við margvísleg vandamál; yfirleitt eru þær frekar langar, oft eru á þeim lög sem maður sæi aldrei á einfaldri plötu, og það tekur þónokkurn tíma að melta þær almennilega. Þetta á allt við um Future Clouds and Radar. En um hana gildir einnig, líkt og um virkilega góðar tvöfaldar plötur, að smá þolinmæði skilar sér margfalt til baka. Svo ef þú fílar Hvítu plötuna eða Blinking lights and revelations mæli ég heilshugar með Future Clouds and Radar. Ef þú er hins vegar eins og pabbi, sem henti vínileintakinu sínu af The Wall því hún var svo leiðinleg, myndi ég halda mig fjarri.

2 Athugasemdir

 1. Árni Viðar · 04/07/2007

  Tvöfaldar plötur eru mjög vandmeðfarið fyrirbæri og yfirleitt óþarfi þar sem það er betra að búa til stutta og hnitmiðaða plötu. Frekar að gefa út eina plötu og síðan e.t.v. nokkrar ep-plötur.

  Annars fær þessi plata þrjár stjörnur hjá mér fyrir tónlistina og eina aukastjörnu fyrir viðhorf höfundarins til Pitchfork (sjá síðuna hans)!

 2. Gunni · 05/07/2007

  Ég reifst heillengi við vin minn um þetta meðan ég var að skrifa dóminn; þó ég sé alveg sammála þér að stuttar og hnitmiðaðar plötur eru og verða uppáhaldið er ég alger sökker fyrir tvöföldum plötum sem ganga upp.

  Mellon Collie, The Fragile og The River eru hrikalega langar, en ég myndi alls ekki vilja hafa þær öðruvísi.

  En já, ég hafði svolítið gaman af heimasíðunni hans. Sérstaklega þar sem hann taldi upp þau lýsingarorð sem höfðu ekki verið notuð um plötuna.

Leave a Reply