• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Stafrænn Hákon – Gummi

  • Birt: 15/07/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Stafrænn Hákon - Gummi
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Resonant

Gummi er drengur góður.

Nafnið Guðmundur er þriðja algengasta karlmannsnafnið á Íslandi en samkvæmt þjóðskrá bera 4202 það sem fyrsta eiginnafn og 267 til viðbótar sem annað eiginnafn. Titill fimmtu breiðskífu Stafræns Hákons er þó ekki til heiðurs neinum þeirra heldur varð hann fyrir valinu vegna einfaldleikans er í honum felst. Sú nálgun er reyndar ný á nálinni þegar þessi athyglisverði tónlistarmaður er annars vegar því titlar verka hans hafa alla jafna verið nokkuð torræðir (a.m.k. fyrir útlendinga); nánar tiltekið Eignast jeppa, Í ástandi rjúpunnar, Skvettir ediki á ref, Prjónar húmmus, Sprengir ílát og Ventill/Poki. Það skyldi þó aldrei vera að Gummi sé tilraun Stafræns Hákons til að búa til rokk-óperu, sbr. Tommy eftir The Who? Ja, undarlegri hlutir hafa víst gerst…

Tónlistarlega séð má sömuleiðis segja að Stafrænn Hákon, sem er hugarfóstur Ólafs Josephssonar, bryddi upp á nokkrum nýjungum að þessu sinni þó grunnurinn liggi enn í seiðandi gítar-sveimi. Að þessu sinni tendrar Ólafur nefnilega mírkófóninn, eins og hann myndi sjálfur orða það, auk þess sem nokkrir góðir gestir leggja hönd á plóg. Þar má m.a. nefna Casper Clausen úr Efterklang og samstarfsfélagar Ólafs til margra ára; Samúel White og Þröstur Sigurðsson, sem og þeir Birgir Hilmarsson úr Ampop og Lárus Sigurðsson jarðhörpuleikari er einnig hafa sullað í potti (eða buslað í baði) Stafræns Hákons áður.

Fyrir þá sem ekki vita var Ólafur í senn afar virkur og vinsæll í grasrótarsenunni í upphafi aldarinnar, ekki síst í tengslum við plötubúðina Hljómalind sem þá var og hét. Þar gátu viðskiptavinirnir verslað sér heimatilbúnar plötur Stafræns Hákons á afar hagstæðu verði. Orðrómurinn breiddist hratt út, eins og venjan er í litlum samfélögum, og áður en varði hafði Ólafur hitað upp fyrir ekki ómerkari listamenn en Godspeed You Black Emperor! og Will Oldham. Á milli þess sem hann spilaði á tónleikum og tók upp plötur á fjögurra rása upptökutæki í kjallara í Breiðholtinu vann hann myrkranna á milli ásamt móður sinni við að setja saman umslög til að anna eftirspurn. Þó þriðja platan, Í ástandi rjúpunnar, hafi verið heimatilbúin, líkt og þær tvær fyrri (Eignast jeppa og Skvettir ediki á ref), var yfirbragð hennar mun fagmannlegra en áður. Á það við um lagasmíðar, flutning, hljóðvinnslu og ytri frágang og því má segja að platan sé í raun fyrsta „alvöru” plata Stafræns Hákons.

Það fer heldur ekkert á milli mála að Gummi er alvöru plata…svona „fullorðins” eins og einhver orðaði það. Metnaðurinn skín í gegn og ljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í að laða fram réttu stemmninguna. Þó platan sé stundum skuggalega nálægt því að fara yfir strikið í dramatíkinni er hún í senn tilkomumikil og tignarleg þegar hún svífur sem hæst. Frumleikinn er kannski ekki alltaf í fyrirrúmi en að sama skapi er hún unnin af svo mikilli alúð og nákvæmni að maður getur vart annað en hrifist með. Nostrað hefur verið hvert smáatriði þannig að hver nóta fær að njóta sín til fulls, þrátt fyrir þann aragrúa hljóðfæra sem kemur við sögu (gítar, trommur, bassi, banjó, bjöllur, klukkuspil, harpa, víbrafón, selló, melódika, mandólín, harmóníum, básúna, harmónikka, píanó, hljómborð og hljóðgervlar). Þar eiga Ólafur og Daniel Lovegrove (Dialect), sem hljóðblandaði skífuna, mikið hrós skilið enda hefði verið tiltölulega auðvelt að tapa áttum og týnast í hljóðafrumskóginum.

Til að standa af sér hljóðbylgjurnar sem skella á þeim eru tréin í téðum frumskógi sterklega byggð og með þykkar greinar sem hægt er að hengja alls kyns skraut á. Líkt og fyrri daginn er enginn asi á Ólafi og hann leyfir lögunum að vaxa og dafna á sínum eigin hraða. Sum þeirra springa út og önnur ekki en því verður hins vegar ekki neitað að flóran er falleg á að líta, sérstaklega í lögum á borð við „Járn”, „Rjúpa”, „Glussi” og „Veggur”, þegar hún er í fullum skrúða.

Gummi byrjar og endar mjög vel en dalar aftur á móti örlítið á köflum þess á milli án þess þó að koðna algjörlega niður eða týna athygli hlustandans. Það er þó ekki þar með sagt að hver sem er geti, eða öllu heldur vilji hlusta á þá tegund tónlistar sem hér er boðið upp á. Hún krefst umtalsverðrar þolinmæði á köflum enda eru lögin flest í lengri kantinum; það lengsta rúmar tíu mínútur og það stysta fjórar og hálf. Þrátt fyrir það er platan poppskotnari en maður á að venjast frá Stafrænum Hákoni auk þess sem nettur keimur af naumhyggjulegri raftónlist læðist með og það er ljóst að veitir ekki af örlítið meiri tíma til að laga sig að breyttum áherslum.

Stafrænn Hákon hefur fyrir löngu komið sér haganlega fyrir á jaðri íslenskrar tónlistarsenu og minnir rækilega á sig með þessari nýjustu breiðskífu sinni. Auðvitað saknar maður þess að sjá hann ekki spila oftar, líkt og á árum áður, en við því er víst lítið að gera þar sem Ólafur er nú búsettur í Baunaveldi eftir stutt stopp í Skotlandi. Hann gefur sömuleiðis út á vegum erlends plötufyrirtækis, nánar tiltekið hinnar bresku Resonant, sem hefur einmitt haft nokkra íslenska tónlistarmenn á sínum snærum. Samstarfið þar á milli hófst þegar gaf út Skvettir ediki á ref og Í ástandi rjúpunnar en áður hafði ný og örlítið endurbætt útgáfa af Eignast jeppa litið dagsins ljós á vegum Secret Eye. Þar með öðluðust þessar þrjár heimatilbúnu plötur áframhaldandi líf og eru því sem betur fer enn fáanlegar fyrir alla þá sem eiga eftir að kynna sér fyrstu skref Stafræns Hákons. Nú hefur hann aftur á móti stigið nýtt en um leið nauðsynlegt skref inn á mun stærra svið, þar sem hann á vafalaust eftir að finna fjölina sína og brugga bragðgóðan seið fyrir gesti og gangandi, að ógleymdum Gumma.

Leave a Reply