• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Lada Sport – Time and Time Again

 • Birt: 22/07/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

Lada Sport - Time and Time Again
Einkunn: 3
Utgafuar: 2007
Label: Geimsteinn

Lífleg plata sem hægt er að hlusta á í tíma og ótíma.

Sú var tíðin að þeim sem farnaðist vel í Músíktilraunum lá hrein ósköp á að nýta hljóðverstímana er þær hlutu í vinning og taka upp eitt stykki plötu. Á seinni árum hafa æ fleiri sveitir hins vegar gefið sér aðeins meiri tíma til að leyfa lögunum, hljómnum og hljómsveitinni sjálfri að þróast. Auðvitað vegur þar þungt sú þróun sem orðið hefur í upptökutækni því nú geta í raun allir og ömmur þeirra hljóðritað sína eigin plötu án þess að þurfa að skrifa upp á víxil eða selja ofan af sér (og ömmu gömlu ef því er að skipta).

Hljómsveitin Lada Sport fellur tvímælalaust í seinni flokkin þar sem nú eru liðin heil þrjú ár síðan hún hreppti annað sætið í téðum Músíktilraunum, þar sem einn liðsmanna hennar, Haraldur Leví Gunnarsson, var jafnframt valinn efnilegasti trommuleikarinn. Hann hafði stofnað sveitina í bílskúrnum heima hjá sér ásamt gítarleikaranum og söngvaranum Stefni Gunnarssyni sumarið 2002 en hlutirnir fóru aftur á móti ekki að gerast fyrr en bassaleikarinn Friðrik Sigurbjörn Friðriksson slóst í hópinn árið eftir. Skömmu síðar var gítarleikarinn Heimir Gestur Valdimarsson tekinn um borð og það var í þeirri mynd sem Lada Sport kom, sá og sigraði næstum því í hinni lífseigu hljómsveitakeppni en þurfti að lokum að horfa á eftir titlinum til Mammút. Lada Sport var þó langt frá því að vera af baki dottinn og lét fljótlega að sér kveða með útgáfu heimatilbúnu ep-plötunar Personal Humour, sem kom út í 200 eintökum og seldist upp á einungis þremur mánuðum. Í kjölfarið skipti Heimir Gestur yfir í Jakobínarínu en í hans stað kom gítarleikarinn og söngvarinn Jón Þór Ólafsson, sem gekk til liðs sveitina um það leyti sem hin hljómsveitin hans, hin bráðskemmtilega Isidor, lagðist í dvala (undirrituðum til mikillar armæðu).

Eftir að hafa gert töluverða lukku með laginu „Love Donors” tók Lada Sport sér góðan tíma til að fínpússa eigin hljóm og í raun ákveða hvert hún vildi stefna. Dansvænt gleðirokkið fjaraði smám saman út og þó tónlistin sé enn lífleg og grípandi hefur krafturinn vaxið ört í samræmi við sjálfstraust meðlimanna. Mestu máli skiptir þó hinn aukni metnaður sem lagður hefur verið í lagasmíðarnar er nú hafa skilað sér á fyrstu breiðskífu sveitarinnar, hina bráðskemmtilegu Time and Time Again. Hún var tekin upp í hljóðveri Geimsteins á fyrri hluta þessa árs og er jafnframt gefin út því mæta plötufyrirtæki meistara Rúnars Júlíussonar. Hvort hann hafi haft einhver lúmsk áhrif á fjórmenningana skal ósagt látið en þó er ljóst að bakraddirnar á plötunni bera með sér ákveðinn Bítla og Beach Boys keim. Lögin sjálf eru aftur á móti meira í anda Weezer, Nada Surf, Idlewild, Silver Jews, Built to Spill, The Hold Steady, Helium, Guided by Voices, Hefner og jafnvel Ash auk þess sem eitt og annað minnir á verk eldri banda á borð við The Wedding Present, Cheap Trick, The Cars, The Go-Betweens og að sjálfsögðu Dinosaur Jr.

Það sem Lödu Sport skortir í frumlegheitum bætir hún upp með fagmennsku, ferskleika og líflegum flutningi sem skilar sér afar vel á plast, þökk sé upptökustjóranum Axel Flex Árnasyni. Gestaleikararnir veita plötunni sömuleiðis aukna vídd auk þess sem verkaskipting söngvarana tveggja gefur góða raun. Saman spinna þeir einnig hárbeittan gítarvef sem lagður er haganlega ofan á hnausþykkan grunn í boði hrynparsins. Textarnir eru e.t.v. ekki þeir allra dýpstu en smellpassa að sama skapi að melódískum tónunum sem kvartettinn töfrar fram í gegnum hina ýmsu hljóð-effekta. Fyrir vikið fyllir þéttur hljómurinn vel út í hátalarana án þess að tapa hráleikanum sem er gjarnan aðalsmerki listamanna á svipaðri bylgjulengd. Ef hægt er að setja út á eitthvað þá vottar fyrir ákveðinni einsleitni á köflum auk þess sem sveitin á enn eftir að marka sér meiri sérstöðu. Það væri hins vegar líklega til of mikils ætlast af sveit, sem er að senda frá sér sína fyrstu plötu, að hún skeri sig úr og í raun tel ég það bara afar vel af sér vikið hjá Lödu Sport að standast samanburðinn við áhrifavalda sína með jafnmiklum glans og raun ber vitni.

Time and Time Again fer geysilega vel af stað með tveimur helstu slögurum sveitarinar, þ.e.a.s. „Love Donors” og „The World is a Place for Kids Going Far”, sem hefur hlotið gríðarlega útvarpsspilun undanfarið. Þá tekur hins vegar við örlítil lægð og lögin sem fylgja í kjölfarið bæta í raun ekki miklu við byrjunina. Lada Sport kemst þó aftur á skrið þegar líða tekur á plötuna og stýrir skútunni örugglega í mark með nokkra vænlega smelli í farteskinu. „Our Lives in Lighthouses” og „Holocaust” bera þar af auk þess sem lokalagið, „Leví, It’s Time to Wake Up”, býður upp á nokkrar athyglisverðar pælingar á örlítið öðruvísi nótum.

Lada Sport hefur tekið geysilegum framförum á undanförnum misserum og valdi sér því hárrétt augnablik til að gefa út sína fyrstu breiðskífu. Þeir sem fylgst hafa með sveitinni í gegnum tíðina mega vel við una á meðan aðrir munu nú gefa henni frekari gaum og bíða spenntir eftir næstu skrefum. Vaxandi athygli felur að sama skapi í sér auknar væntingar en Time and Time Again sýnir, svo ekki verður um að villst, að Lada Sport hefur alla burði til að festa sig enn frekar í sessi sem ein af áhugaverðari rokksveitum landsins.

5 Athugasemdir

 1. Hildur Maral · 23/07/2007

  Frábær plata!

 2. hausi · 23/07/2007

  sá þessa drengi spila á Dillon og þeir komu mér skemmtilega á óvart…. hef ekki fylgst neitt voða með uppá síðkastið og var því pínu forvitinn… ekki svikinn… vel spilandi herramenn hér á ferð…

 3. Harpa · 27/07/2007

  Ojá, plötudómarnir hans Árna Viðar eru svo skemmtileg lesning. Svo er þetta líka ágætasta plata.

 4. tommi · 31/07/2007

  finnst þetta ekki ýkja merkileg plata…. frekar eins flest lögin. Fannst nú gamla efnið þeirra mun betra. Hefðu betur átt að gefa það út.

 5. RAví · 19/09/2007

  Mér finnst hún frábær þessi plata, það mætti smella gömlu slögurunum inn, enn þessi plata er að virka fyrir mig

Leave a Reply