• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Beastie Boys á Hróarskeldu

  • Birt: 03/08/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

Beastie Boys á Hróarskeldu

Orange sviðið á föstudegi hátíðarinnar

Nánast allt sem að old school Beastie Boys aðdáandi gæti óskað sér
Ég man vel eftir því þegar eldri systir mín, sem var alltaf mjög dugleg að kynna mér fyrir tónlist þegar ég var á yngri árum, kom einn daginn með diskinn Ill Communication með Beastie Boys. Þetta hefur verið þegar ég var rétt að skríða inn í gaggó, enn ung og ómótuð sál. Ég var ekki lengi að taka ástfóstri við þessum diski sem að mér fannst (og finnst ennþá) vera einn allra besti diskur sem ég hafði hlustað á. Það var því ekkert vafamál að ég myndi fara á Hróarskeldu í ár þegar ég fréttir að þeir myndu koma þangað og jafnvel bara fyrir þær sakir að fá að sjá hina fræknu Beastie Boys.

Ég hafði gert stór plön um að mæta vel fyrir tónleikana þeirra og troða mér í fremstu hólfin svo ég gæti nú örugglega dáðst vel að þeim, en endaði svo reyndar á því að villast aðeins um tónleikasvæðið um stund og lét þá bíða eftir mér. Ég tók svo á rás í áttina að Orange þegar ég heyrði að þeir voru að taka „Time for a Livin´af Check your Head“. Þegar ég kem svo að sviðinu sé ég þá Mike D, Adrock og MCA snyrtilega klædda í jakkafötum og með sólgleraugu sem var andstætt við klæðnað okkar Hróarskeldufaranna en hann samanstóð að mestu úr regnfatnaði, ullarpeysum og drullugum stígvélum.

Tónleikarnir voru alveg hreint magnaðir, allavega frá mínu sjónarhorni. Þeir tóku nánast allt sem að old school Beastie Boys aðdáandi gæti óskað sér. Þeir hoppuðu milli rappsins, hip-hopsins, rokksins, pönksins og jazzins. En eins og eflaust flestir vita þá er engin ein stefna heilög fyrir þeim drengjum heldur ráðast þeir bara á þær stefnur sem að eiga við þá hverju sinni og útfæra þær að sínum eigin hætti. Uppröðun laga þeirra var því mjög fjölbreytt en augljóslega vel skipulagt. Þar mátti heyra góða gullmola á við „Brass Monkey“, „Egg raid on Mojo“, „No sleep ’til Brooklyn“, „Gratitude“, „Sure Shot“, „Root Down“, „Intergalatic“ en aðal gullmolinn var sparaður fyrir seinasta uppklappslagið, „Sabotage“. Auk þess tóku þeir nokkur lög af nýjustu plötunni þeirra The Mix up sem er fyrsta platan þeirra sem er algjörlega instrumental.

En það þýðir víst ekki bara að spila. Það verður víst líka að gera mikið úr sýningunni og Beastie Boys voru ekki á flæðiskeri staddir í þeim málum. Þeir höfðu með sér einskonar effecta sem breyttu myndinni sem var varpað af sviðinu yfir á stóru skjáina sem eru sitthvoru megin við Orange sviðið þannig að við sem vorum aftarlega gátum notið sýningarinnar á skjánum. Þá sömuleiðis tókst plötusnúðnum Mix Master Mike að heilla mig enn meira en hann hefur áður gert með því að sína snilli sína á plötuspilaranum. En sjálfir skrímsla strákarnir stóðu sig allra best í því að halda fjörinu uppi með því að skoppa um á sviðinu og tala til okkar áheyrendurna.

Þótt ég fari mjög fögrum orðum um Beastie Boys tónleikana og hampa þeim mikið þá voru þeir ekki algjörlega gallalausir. Ónei. Það er einn galli sem ég get nefnt en það er jafnframt sá eini sem ég mun nefna um þessa tónleika. Svo virðist sem að hljóðkerfið var í einhverju ólagi hjá Beastie Boys en það datt út í miðju lagi og í alveg góðar tvær mínútur eða svo. Tvær mínútur er ekki langur tími en þegar þú ert með risa tónleika og þúsundir manns sem eru flest öll búin að fá sér eitthvað í tánna þá geta tvær mínútur verið alvega pínlega lengi að líða. Og auðvitað gerðist hið óhjákvæmilega, áheyrendur urðu móðgaðir púuðu á sviðið. En strax þegar hljóðið kom aftur í lag og drengir héldu áfram að spila þá voru þessar tvær mínútur fljótar að fara úr minni fólks og allir voru ánægðir og hífaðir á ný.

1 Athugasemd

  1. Sibbi · 27/08/2007

    What cha want var minn hápunktur á þessum tónlekum. Elska það lag og hoppaði næstum úr stígvélunum þegar þeir tóku það 🙂

Leave a Reply