• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

The One AM Radio – This Too Will Pass

  • Birt: 07/08/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

The One AM Radio - This Too Will Pass
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: Dangerbird

Hrishikesh Hirway hefur nú þegar tekist að skapa sér sinn eigin stíl sem er svo sannarlega þess að virði að gefa nánari gaum, hafir þú áhuga á athyglisverðri tónlist á annað borð.

Og hver er svo þessi Hrishikesh Hirway? Jú, hann er bandarískur tónlistarmaður af indverskum uppruna sem hefur starfað undir nafninu The One AM Radio frá lokum síðustu aldar og sent frá sér þrjár breiðskífur. Sú fyrsta bar titilinn The Hum Of Electric Air! og kom út á vegum Alone Records án þess að vekja neitt sérstaka athygli. Þegar A Name Writ in Water leit dagsins ljós árið 2004 kom aftur á móti annað hljóð í strokkinn enda um fyrirtaksplötu að ræða, sem fékk nær undantekningarlaust frábæra dóma. Gagnrýnendur lofuðu hið afslappaða og draumkennda andrúmsloft sem Hirway skapaði um leið og hann leyfði fínlegum laglínunum að leika um eyru hlustenda.

Það er því óhætt að segja að beðið hafi verið eftir næsta útspili The One AM Radio með nokkurri eftirvæntingu. Hirway fór sér reyndar að engu óðslega (sem er í fullkomnu samræmi við tónlistina hans) og hélt meðal annars til Mumbai á Indlandi þar sem hann vann að þriðju breiðskífu sinni. Hún kom svo loks út fyrr á árinu undir merkjum Dangerbird Records og nefnist This Too Will Pass.

Mercury á tónleikum

Platan inniheldur 13 lög, sem öll eru í svipuðum anda og fyrri verk höfundarins, þó mér þyki dýptin í lagasmíðunum hafa aukist lítillega. Það er að sjálfsögðu afar jákvætt og til marks um aukið sjálfsöryggi Hrishikesh Hirway, sem er óumdeilanlega hæfileikaríkur á sínu sviði. Hann er t.d. í essinu sínu í fjórum fyrstu lögum plötunar, sem tryggja að byrjunin er afar eftirminnileg. Í kjölfarið fylgja síðan fjölmörg prýðislög sem halda hlustandanum að mestu leyti við efnið, þó manni finnist reyndar að verið sé að teygja lopann fullmikið á köflum. Að mínu mati hefði Hirway því mátt skera nokkur lög niður og skila af sér markvissari og þ.a.l. betri plötu fyrir vikið.

Þó This Too Will Pass sé alls ekki fullkomin er hún samt sem áður framúrskarandi plata með afar góðri byrjun og ekki síðri endi. Eins og áður segir er millikaflinn helst til of ómarkviss til að halda kyndlinum jafn hátt á lofti, þó hann logi vissulega glatt frá fyrstu mínútu þeirrar síðustu. Hann er því alltaf nógu bjartur til að lýsa upp hinn annars dimma hljóðheim The One AM Radio, sem lýsa má sem eins konar limbói á milli Caribou og Iron & Wine.

Hirway hefur einmitt nefnt umrædda listamenn sem ákveðna áhrifavalda þó hann segist reyndar hlusta á ógrynni af tónlist úr ýmsum áttum. Sjáfur tiplar hann afar fínlega frá ambient yfir í popptónlist svo úr verða sveimkenndar og örlítið þjóðlagaskotnar laglínur, sem fá tímann til að standa í stað þegar klukkan slær eitt eftir miðnætti. Yfir öllu hvílir síðan angurvær ró er ruggar hlustandanum rólega í svefn og svífur með hann inn í draumalandið þar sem allt er svo hægt og hljótt og áhyggjur eru óþarfar.

Lest I Forget á tónleikum

Rödd Hirway á stóran þátt í að skapa þá stemmningu sem ríkir á plötunni enda er hún í senn silkimjúk og ómþýð. Líkt og laglínurnar sjálfar er undirleikur í minimalískari kantinum en sem fyrr er hann nær alfarið í höndum Hirway sjálfs, sem hljóðritaði plötuna jafnframt heima hjá sér með því að styðjast við bæði stafræna og hliðræna upptökutækni. Elektróníkin er reyndar ekki jafn áberandi og á A Name Writ in Water, sem var fyrir vikið gjarnan líkt við verk The Notwist og Postal Service, á meðan nafn Elliott Smith hefur oftar en ekki borið á góma þegar rætt er um This Too Will Pass. Að mínu mati segir sú samlíking þó vart nema hálfa söguna þar sem Hrishikesh Hirway hefur nú þegar tekist að skapa sér sinn eigin stíl sem er svo sannarlega þess að virði að gefa nánari gaum, hafir þú áhuga á athyglisverðri tónlist á annað borð.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply