• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Prince – Planet Earth

  • Birt: 26/08/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

Prince - Planet Earth
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2007
Label: Columbia Records

Persónuleiki sem yfirgnæfir tónlistina

Aðeins einu ári eftir að Prince gaf út gripinn 3121 hefur hann nú þegar sent frá sér aðra plötu, Planet Earth, aðdáendum sínum til mikils fagnaðar. Með útgáfu Planet Earth hefur hann haldið sessi sem einn mest seldi tónlistarmaður heims.

Fjölmiðlafárið í kringum Planet Earth hefur verið gífurlega mikið enda spilaði Prince í hálfleik Super Bowl úrslitaleiksins árið 2007 ásamt því að gefa ókeypis eintak af plötunni með hverjum tónleikamiða Planet Earth tónleikaferðarinnar. Það vakti einnig mikla athygli að áður en diskurinn kom nokkurs staðar í sölu var honum dreift án aukakostnaðar með breska dagblaðinu The Daily Mail sem var nokkurskonar áróður gegn minnkandi plötusölu á heimsvísu. Ekki er það nóg heldur fylgdi hann í fótspor margra stórmenna með því að gefa út sína eigin ilmvatnslínu.

Athyglin sem Planet Earth hefur vakið á sér hefur komið fram í gegnum hinar ýmsu kynningarherferðir en minna vegna tónlistarinnar. Ástæðan kann að vera áberandi persónuleiki Prince eða einfaldlega slæm gæði plötunnar. Hún er eitthvað sem aðeins hörðustu aðdáendur geta verið sælir með en lögin eru varla yfir meðallagi.

Þrjú lög vekja helst athygli og þau eru fyrsta smáskífan, „Guitar”, hress, gítardrifin rokkballaða tileinkuð uppáhaldshljóðfæri Prince, „Mr. Goodnight”, ljúf og tælandi getnaðartónlist og „Chelsea Rodgers”, tært fönklag með sterkri bassalínu, kvenrödd og blásturssveit. Restin er vægast sagt sorgleg og dauð. Svo virðist sem maðurinn sé orðinn útþynntur. Hann mætti eyða meiri tíma í gerð laganna, gera þau heilsteyptari og reyna að fá fólkið til að langa til að hlusta á diskinn frekar en að stilla honum upp í hillusamstæðuna, hugsandi „Nú fékk ég sko frábæran díl” þar sem hann safnar svo ryki í 8 ár áður en hann verður svo seldur á bílskúrssölu, enn innpakkaður í glansandi plastumbúðir.

Prince þarf að bjóða kynningarfulltrúunum sínum í tebolla og spyrja þá ráða því ef hann hagaði sér gagnvart tónlistargerð líkt og fulltrúarnir vinna hörðum höndum í að kynna hann hætti hann að vera Prince og yrði krýndur kóngur.

1 Athugasemd

  1. janeen · 30/08/2007

    i don’t speak icelandic but hildur’s a genius.

Leave a Reply