• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Chris Cornell

Chris Cornell

Laugardalshöll 8. september

Leðurbarkinn mætti á klakann
Ég gekk inn í Laugardalshöll um klukkan 20:45 eftir magnþrunginn dag af spennu, adrenalíni og óreglulegum hjartslætti. Þegar inn var komið stóð fólk í röðum við hina ýmsu bása af kræsingum og bolasölum en mest var þó röðin í mjöðinn og reykingaplássið úti fyrir.
Ég, ásamt góðum vinum, rölti inn í salinn fullur eftirvæntingar og fékk mér sæti í boðsmiðastúku sem var búið að setja upp fyrir neðan stúkuna. Allt var klárt fyrir alvöru rokktónleika með stæl. Cornell lét áhorfendur ekki sitja lengi í sætum sínum heldur rauk á svið rúmlega 21:20 við mikinn fögnuð gesta.

Cornell hóf kvöldið með lagi sínu, „Silence The Voices“, af nýjustu sólóplötu sinni Carry On. Rödd söngvarans var óaðfinnanleg og greinilegt var að hér væri um einn besta rokksöngvara samtímans að ræða. Prófaði ég ásamt nærstöddum vinum að loka augunum og var röddin það góð að okkur fannst við vera heima í stofu með risahljóðkerfi að hlusta á plötuna, frekar en að vera á tónleikum. Eftir að hafa heilsað fólkinu keyrði hljómsveitin beint í Audioslave-slagarann „Original Fire“ og komust þá tónleikarnir almennilega í gang.
Var kvöldinu fylgt eftir með nær öllum slögurum sem hægt var að hugsa sér.
Hljómuðu þá „Outshined“, „Jesus Christ Pose“, „Rusty Cage“ og „Slaves and Bulldozers“ af plötu Soundgarden, Badmotorfinger, frá árinu 1991 en athugulir áheyrendur hafa líklega tekið eftir örlítilli vanvirðingu Cornell við hinn látna meistara Johnny Cash þegar hann hóf að jóðla „Rusty Cage“ með kántrýfíling seinna meir. Deila má um það hvort þetta hafi verið saklaust grín í alla staði eða vanvirðing. Fyrir þá sem ekki vita bjó Johnny Cash til ábreiðu af laginu á einni af plötum sínum. Cornell hefur ávallt látið út úr sér að hann sé mjög heiðraður af þessu framtaki Cash en hver veit?

Óvæntasta lag kvöldsins var hins vegar lagið „Wave Goodbye“ af plötunni Euphoria Morning frá árinu 1999. Samdi Cornell lagið til vinar síns, tónlistarmannsins Jeff Buckley sem drukknaði árið 1997. Lagið hefur ekki oft heyrst á tónleikum allt frá tónleikaferðalagi Cornell árið 1999 vegna útkomu Euphoria Morning. Gladdi þetta harða aðdáendur mjög og létu aðdáendur Buckley vel í sér heyra þegar Cornell hvatti fólk til að nálgast tónlist hans. Reif hann þá með sér aðdáendur enn frekar.

Superunknown frá árinu 1994 er líklega allra frægasta plata Soundgarden og gaf hann aðdáendum þeirrar plötu allt sem í raun var hægt að vonast eftir. Lögin „Spoonman“, „Let Me Drown“, „Fell On Black Days“ og súpersmellurinn „Black Hole Sun“ fengu öll að hljóma þetta kvöldið. Að vísu smellti hann í „Fell On Black Days“ óstuddur með kassagítar og sleppti nokkrum köflum. Í þessum einleikskafla tónleikana lék Cornell lög frá öllum ferlinum ef svo má segja. Hann hóf einleikinn á laginu „Wide Awake“ af plötunni Revelations með Audioslave frá árinu 2006. Lagið, samið til fórnarlamba fellibylsins Katrina í Ameríku, var hér flutt í nýjum búning við góðar undirtektir. „Preaching The End Of The World“ af Euphoria Morning fékk svo sinn tíma í þessum einleik meistarans ásamt Temple of the Dog slagaranum „All Night Thing“ frá árinu 1990.

Gestir tónleikana létu svo í sér heyra þegar hann renndi í Audioslave lagið af þeirra fyrstu breiðskífu frá árinu 2002, „Like A Stone“. Söng í raun öll Höllin með meistaranum en megnið af gestum ræddi um að hafa frekar vilja heyra lagið í sinni upprunalegu mynd. Undirritaður gat hins vegar ekki kvartað.
Tónleikarnir keyrðu svo allt í botn aftur þegar Cornell lék lagið „Doesn´t Remind Me“ og smellir „……I like Reykjavik…..“ inn í texta lagsins.
Hljómsveit kvöldsins stóð vel undir væntingum og léku félagarnir Jason (Trommur), Peter (Gítar), Yogi (Gítar) og Corey (Bassi) lög Cornell og hans fyrrum félaga af stakri snilld.

Kvöldið var sérstakt í alla staði og þakkaði Cornell fyrir sig eftir að hafa lokið hinu rokkandi brjálaða „Jesus Christ Pose“ af. Steig hann svo aftur á svið ásamt hljómsveit sinni nokkrum mínútum síðar eftir uppklapp áhorfenda. Dyggir aðdáendur Cornell hafa eflaust verið með þeim fáu sem könnuðust við lagið „Seasons“ úr kvikmynd Cameron Crowe, „Singles“. Undirtektir voru ekki upp á marga fiska og hefði í raun verið sniðugra að renna í annað lag heldur en þetta sem uppklapp, þótt lagið væri ákaflega vel flutt af bæði söngvaranum og hljómsveitinni. Skipar lagið einnig sérstakan sess hjá undirrituðum. Loks tók kvöldið enda eftir rúmlega tvo og hálfan tíma, með frábærum trommueinleik Jason Sutter og lagabútum frá The Doors og Led Zeppelin. Enduðu þeir tónleikana á „Whole Lotta Love“ eftir Zeppelin. Furðulegur en skemmtilegur endir á stórkostlegum tónleikum. Gaman var einnig að sjá lífsgleði söngvarans á tónleikunum þar sem hann klæddi sig m.a. í skyrtu sem fleygt var upp á svið, nældi sér í myndavél sem tilheyrði áhorfanda og smellti af áhorfandanum mynd og tileinkaði einnig lag til drengs sem hann hafði áður um daginn kvittað á ennið á. Hér eftir fylgir listi yfir lög kvöldsins en undirritaður saknaði þó „Limo Wreck“ og „Loud Love” eftir Soundgarden, „Sunshower“ eftir Cornell, „I Am The Highway“ eftir Audioslave og frekara efnis af Euphoria Morning en ekki getur maður fengið allt sem maður vill og hef ég engan rétt til að kvarta yfir þessu lagavali ef út í það er farið.

Lög kvöldsins
Chris Cornell:
„Seasons“, „Preaching The End Of The World“, „Wave Goodbye“, „You Know My Name“, „Silence The Voices“, „No Such Thing“, „Arms Around Your Love“(7)

Audioslave:
„Like A Stone“, „Cochise“, „What You Are“, „Show Me How To Live“ „Be Yourself“, „Wide Awake“. „Original Fire“, „Doesnt Remind Me“. (8)

Soundgarden:
„Slaves and Bulldozers“, „Jesus Christ Pose“, „Rusty Cage“, „Outshined“, „Black Hole Sun“, „Spoonman“, „Let Me Drown“, „Burden In My Hand“. (8)

Temple of The Dog:
„All Night Thing“, „Say Hello 2 Heaven“. (2)
Annað:
„The End“ (The Doors), „Whole Lotta Love“ (Led Zeppelin). (2)

6 Athugasemdir

 1. Sævar · 16/09/2007

  Frábærir tónleikar.

  En á singles plötuinni er seasons skráð sem soundgarden lag.

 2. Sævar · 16/09/2007

  Nei ég er að rugla. Sorry.

 3. hommi · 18/09/2007

  góður Sævar

 4. Engilbert Aron · 22/09/2007

  Bestu tónleikar sem ég hef farið á. Og það helgast að miklu leyti að uppáhalds söngvarinn minn tileinkaði mér þarna eitt uppáhalds lagið mitt; Slaves and Bulldozers. “This next song is for my friend Aron. He came into the record store today and I promised him we would play this.”
  Priceless

 5. Daníel · 24/09/2007

  Heyr Heyr Aron!
  Frábært að fá eitt stykki lag frá kallinum og þá sérstaklega lag sem ég hélt að hann myndi ekkert spila.
  Grand!

 6. Stebbi br · 03/10/2007

  Vera á tánum Sævar, en góðir tónleikar.
  Ég hélt það stæði “leðurblakan mætti á klakann” þegar ég opnaði linkinn, en það var auðvitað leðurbarkinn svipað og leikkonan Ellen Barkin,
  góð saga engu að síður.

Leave a Reply