• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Andrea Bocelli í Egilshöll

 • Birt: 05/10/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 1

Andrea Bocelli í Egilshöll

31. Október, 2007

Andrea Bocelli, í fyrsta sinn á Íslandi!

Ítalski tenórinn, Andrea Bocelli, mun halda í fyrsta sinn á Íslandi tónleika í Egilshöll þann 31. október.  Andrea Bocelli, sem fékk viðurnefnið„Blindi Tenorinn” snemma á ferli sínum vegna blindu sinnar, kemur til landsins í samstarfi við fyrirtækið Déjávu með yfir 100 manna fylgdarlið allt frá hljóðmönnum og hljóðhönnuðum til hljómsveitarmeðlima og skipuleggjenda.  Tékkneska sinfóníuhljómsveitin, hin virta og viðurkennda, mun spila undir með Bocelli á þessum tónleikum.

Andrea Bocelli, 49 ára, fæddist þann 22. september árið 1958 í Pisa á Ítalíu.  Hann hefur tekið upp sex óperur í fullri lengd, m.a. Tosca, Pagliacci, Werther og Il Trovatore.  Hann hefur selt meira en 55 milljónir platna um allan heim og sungið með heimsfrægum söngvurum á stærstu og virtustu sviðum jarðar.  Þegar Bocelli var 12 ára, árið 1970, missti hann sjónina í fótboltaslysi og vegna augnsjúkdóms sem kallast gláka.  22 árum seinna, 34 ára gamall, sótti Bocelli um að syngja lagið „Miserere” með rokkstjörnunni Zucchero.  Eftir að hafa heyrt upptökuna sagði hinn nýlega fráfallni Luciano Pavarotti að Zucchero ætti að fá Bocelli með sér í verkefnið því hann sjálfur gæti ekki sungið verkið jafn vel.  Aðeins 2 árum seinna flutti Bocelli verkið „Il mare calmo della sera” á Sanremo hátíðinni sem leiddi til fyrstu, samnefndu, gullplötu hans, Bocelli.

Síðan þá hefur Andrea Bocelli gefið út og sungið inná 20 plötur sem flest allar hafa náð inná vinsældarlista bæði vestan hafs og fyrir austan.  Hann söng verkið „Ave Verum Corpus” eftir Mozart þann 8. september, á þessu ári, í jarðarför Pavarotti.  Því má með sanni segja að Andrea Bocelli og heimsókn hans til Íslands sé viðburður sem enginn má láta fram hjá sér fara.

Andrea Bocelli syngur hér syrpu með Luciano Pavarotti

1 Athugasemd

 1. Hildur María · 05/10/2007

  Hann er frábær tenór og þessir tónleikar verða vafalaust einstök upplifun.
  Vildi bara að það væri ekki svona hrikalega dýrt á þetta.

Leave a Reply