Airwaves dómur: Forgotten Lores – Frá Heimsenda

Airwaves dómur: Forgotten Lores - Frá Heimsenda
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Geimsteinn

Fyrr á árinu: ,…sjálfsagt besta Í­slenska rappplatan til þessa.'

Flaggskip íslenskra tónlistarviðburða, Iceland Airwaves hátíðin, verður haldin í áttunda sinn dagana 17. til 21. október. Það er því við hæfi að Rjóminn taki fyrir þá listamenn sem koma munu fram á hátíðinni og verður í þessari viku hægt að lesa dóma og umfjallanir tengda henni. Hér verður rifjaður upp dómur Rjómans á plötu Forgotten Lores, Frá Heimsenda, en ekki missa af glænýjum dómi um plötu Bloc Party; A Weekend in the city

 

Ég verð að játa að þó ég telji mig alætu á tónlist þá er þekking mín á rappi og hip-hoppi ekkert sérstaklega mikil og hvað þá íslensku rappi. Ég var því einstaklega feginn, þegar platan sem hér skal gagnrýnd fór á fóninn, að ekki þarf sérfræðing til að heyra að tónlistin sem Forgotten Lores bjóða uppá, hvaða nafni sem hún er kölluð, er einstaklega góð og fagmannlega unnin.

Samkvæmt skilgreiningunni er aðal einkenni rapptónlistar taktfastur flutningur á rímum, ljóðum og töluðu orði. Þessu koma Forgotten Lores fullkomlega til skila og er svo sannarlega ekki orða vant. Vald þeirra á okkar ylhýra máli er það sem gæðir plötuna lífi og hennar sterkasta hlið. Flæðið og rímurnar eru óumdeilanlega á pari við það sem best gerist erlendis og blessunarlega lausar við þær fjölmörgu klisjur sem svo oft vilja einkenna tónlist sem þessa.

Íslenskan hefur oft reynst mörgum tónlistarmanninum erfið og hefur margur leirburðurinn litið dagsins ljós í gegnum árin. Forgotten Lores verða þó seint sakaðir um lélegar textasmíðar og má í raun segja að á köflum nái þeir áður óþekktum hæðum í ljóðrænni úrvinnslu og hugmyndaauðgi hvað rapp varðar. Reyndar væri margur popparinn full sæmdur af að hafa ort sumt af því sem FL-liðar ná að galdra fram enda feta þeir tilfinningaskalann þveran og endilangan, notast við frumlegar myndlíkingar og spennandi frásagnarform. Boðskapurinn er beittur og aldrei langt í húmorinn.

Tónlistin og undirspilið er listarlega vel unnin. Ferskir taktar lifa hér góðu samlífi við tónbúta úr öllum mögulegum áttum og bíður maður spenntur eftir að heyra úr hvaðan næsta tónlistartilvísun kemur. Hljóðvinnsla og upptökustjórn er með besta máta og ljóst að þó nokkuð hefur verið nostrað við upptökurnar. Í tónlistarlegu tilliti eru bestu lög plötunnar að mínu mati Fíling og Sprettur en í þeim finnst mér FL-liðar ná að fanga stemminguna fullkomlega með hugmyndaríku vali á bæði töktum og hljóðbútum.

Forgotten Lores taka sjálfa sig hæfilega alvarlega. Þeir eru samkvæmir sjálfum sér og virðast ekki reyna að vera eitthvað sem þeir ekki eru. Ég gæti svo sem týnt til helling að lýsingaroðrum til að lýsa Frá heimsenda en einfaldast er þó eð segja að hér er á ferð einstaklega góð plata og sjálfsagt besta íslenska rappplatan til þessa.

 

Forgotten Lores spila í Iðnó föstudaginn 19. október, kl. 23:15. Ert þú búinn að fá þér miða?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.