• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Airwaves dómur: Grizzly Bear – Yellow House

  • Birt: 18/10/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Airwaves dómur: Grizzly Bear - Yellow House
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2007
Label: Warp

Gul hús eru fremur sjaldséð og skera sig því yfirleitt nokkuð úr. Því miður verður það sama ekki sagt um þessa nýjustu breiðskífu Grizzly Bear þó ásetningurinn sé augljóslega fyrir hendi….

Það verður víst hvorki sagt að tónlist Grizzly Bear falli að þeirri ímynd dýrategundarinnar, sem hljómsveitin heitir eftir, né útgáfufyrirtækisins sem hún er á mála hjá. Vissulega hefur Warp lengi verið vettvangur ýmis konar tilraunastarfsemi en að sama skapi hefur hún þá yfirleitt verið á formi raftónlistar, eins og flestir, sem til útgáfunnar þekkja, vita eflaust. Á því hafa þó verið nokkrar undantekningar, þá sérstaklega á síðari árum og því má segja að tilkoma hljómsveita á borð við Grizzly Bear og Gravenhurst séu hluti af viðleitni Warp-manna að víkka sjóndeildarhring sinn og aðdáenda sinna, sem eru margir hverjir afar dyggir. Að mínu mati er Grizzly Bear því ágætis viðbót í litríka flóruna en hins vegar vantar enn töluvert upp á að hún skeri sig úr hvað varðar gæði og frumleika. Ágætis gutl, sagði einn kunningi minn, og ég held að ég verði að vera sammála þeirri lýsingu þó stór hópur fólks virðist vera algjörlega á öndverðu meiði.

Grizzly Bear hefur nefnilega verið að fá mikið umtal og afar jákvæða dóma fyrir þessa aðra breiðskífu sína, sem kemur í kjölfar ‘Horn of Plenty’ frá árinu 2004. Ég þykist líka heyra af hverju margir gætu haft gaman af tónlist sveitarinnar þó eflaust megi einnig finna nokkra sem eru bara að elta nýjustu tísku eins og venjulega. En hvað um það, ‘Yellow House’ er alveg ágæt plata; betri og þroskaðri en sú síðasta og því vonandi vísir að einhverju enn merkilegra frá þessari fjögurra manna sveit frá Brooklyn. Reyndar má segja að Grizzly Bear hafi ekki orðið að eiginlegri hljómsveit fyrr en vinna við nýju plötuna hófst því frumburðurinn var meira og minna hugarfóstur forsprakkans Edward Droste þó hann hafi þáð einhverja aðstoð frá Christopher Bear (nafn hljómsveitarinnar tengist honum ekki á neinn hátt heldur er aðeins um skemmtilega tilviljun að ræða). Þeir félagar fengu síðan Chris Taylor og Daniel Rossen til liðs við sig áður en hafist var handa við að semja og taka upp nýtt efni, sem leit nýverið dagsins ljós undir merkjum Warp útgáfunnar, eins og áður hefur komið fram.

Platan fer ágætlega af stað og upphafslagið ber sterkan keim af Sufjan nokkrum Stevens (reyndar fullsterkan fyrir minn smekk), a.m.k. hvað varðar hljóðfæraskipan. Þá þykist ég greina afar skýr Elephant 6 áhrif hér og þar á plötunni og þá sérstaklega frá The Circulatory System sem er, fyrir þá sem ekki vita, afsprengi hinnar mögnuðu Olivia Tremor Control. Horfi ég þá einna helst til sjötta lagsins, ‘Plans’, í því samhengi en því miður verður það að segjast að Grizzly Bear fölnar nokkuð í þeim samanburði enda kannski ekkert skrýtið. Það sem sveitir eins og Circulatory System og OTC hafa framyfir bönd á borð við Grizzly Bear, að mínu mati, er að þær komast upp með alls konar artí-pælingar því þær hafa svo margt fleira til brunns að bera og leyfa tilgerðinni því aldrei (eða allavega afar sjaldan) að ná tökum á sér. Það er nefnilega fátt jafn þreytandi og listamenn sem leitast við að vera artí til þess eins að vera artí en þó ég vilji reyndar alls ekki setja Grizzly Bear í hóp svörtustu sauðanna á því sviði finnst mér vanta einhverja fyllingu í verk hennar. Hljómsveitir sem vilja kenna sig við tilraunatónlist verða jafnframt að þola að sleppa fram af sér beislinu í stað þess að hafa áhyggjur af því að tapa kúlinu – já, eða rugla hárgreiðslunni, eins og gæti verið raunin í þessu tilfelli!

Að öllu gamni slepptu má segja að ‘Yellow House’ falli í „fín tilraun en…” flokkinn. A.m.k. er fátt sem virkilega grípur og fær mig til að vilja hlusta aftur og aftur á hana en ég tel það ávallt mælikvarða á ágæti tilraunatónlistar þegar maður uppgötvar alltaf eitthvað nýtt í hvert sinn. Hér er hins vegar fátt sem kemur á óvart, hvorki við fyrstu né fjórtandu hlustun og á heildina litið virkar platan einfaldlega allt of flöt þó meðlimir Grizzly Bear leggi sig reyndar alla fram við að blanda saman epík og naumhyggju.

Það er þó ekki þar með sagt að hún sé slæm – þvert á móti, því hún á vissulega sína ljósu punkta og verður heldur aldrei hreint og beint leiðinleg. Það er fínn stígandi í ‘Lullaby’ og ‘Little Brother’ og þá er ‘On a Neck, On a Spit’ sömuleiðis alveg prýðilegt. Segja má að ‘The Knife’ sé eiginlegur slagari plötunnar (enda gerði sveitin myndband við lagið) á meðan drunginn svífur yfir í vötnum í ‘Marla’, sem var víst samið að hluta til af frænku Edward Droste fyrir einhverjum 70 árum eða svo og uppgötvaðist fyrir hálfgerða tilviljun við gerð plötunnar. Loks verður varla hjá því komast að minnast á hin lúmsku Beach Boys áhrif sem birtast einna helst í röddunum kvartettsins í nokkrum lögum. Í því samhengi má einnig benda á viss tengsl milli Grizzly Bear og hinnar örlítið vanmetnu High Llamas þó að sú síðarnefnda sé að sjálfsögðu mun poppaðri og um leið einbeittari í að fylgja í fótspor Brian Wilson og félaga. Það er hins vegar önnur saga enda tel ég Grizzly Bear allt eins líklega til að þróast í þveröfuga átt en vona náttúrulega fyrst og fremst að hún sýni örlítið meiri dirfsku og velji fleiri en einn lit á húsin sín í framtíðinni.

 

Grizzle Bear spila í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 18. október kl. 23.00 

Leave a Reply