Airwaves dómur: !!! – Myth Takes

Airwaves dómur: !!! - Myth Takes
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Warp

Fönkaðir gítarar og feitar bassalínur sjóða saman hráefni úr öllum mögulegum áttum í heilmikinn partýgraut sem ætti að fá síðustu rassa til þess að skaka sig duglega.

Hljómsveitin !!! er ein af framvarðasveitum danspönksins í dag. Hún varð til árið 1996 þegar meðlimir hennar ákváðu að bræða saman ólíka stíla sinna fyrri hljómsveita.

Þeim sem þegar eru farnir að bölva sveitinni í sand og ösku fyrir að kalla sig nafni sem ekki er hægt að bera fram er bent á að víst er hægt að bera það fram. Í daglegu tali er talað um hljómsveitina „chk chk chk.“ Einhvers staðar á veraldarvefnum má lesa að nafnið sé komið úr kvikmyndinni Guðirnir eru geggjaðir, sem var til á margri bensínstöðvar-myndbandaleigunni hér í denn. Það á að vera vísun í smellihljóð sem einkennir tungumál San-þjóðflokksins í Suður-Afríku og er ritað með þessum hætti í IPA hljóðritunarkerfinu. Hvort það er rétt verður að liggja á milli hluta, en sagan fær samt að fljóta hér með.

Nýjasta afurð !!!, Myth Takes, á vel heima framarlega í geisladiskarekkanum á föstudags- eða laugardagskvöldi. Fönkaðir gítarar og feitar bassalínur sjóða saman hráefni úr öllum mögulegum áttum í heilmikinn partýgraut sem ætti að fá síðustu rassa til þess að skaka sig duglega. Fyrir utan áhrifin frá fönki og diskói má heyra rokkabillítakta, sýru, óm af nýlegu efni frá Red Hot Chili Peppers („Sweet Life“) og glys sem minnir á Goldfrapp og Gary Glitter (í uppbyggingu og framvindu „Yadnus.“)

Sveitin er stór – telur átta manns – og það heyrist. Þetta er tónlist sem kemur fólki til að finna taktinn, sé það ekki á annað borð haldið slæmri sýkingu í innra eyra. Spilið er gríðarlega þétt og trommuleikur og annað slagverk fjölbreytt og ákaflega skemmtilegt. Einhvern veginn tekst !!!-liðum líka að pota alls konar litlu gruggi, plokki og tilraunastarfsemi inn á milli loftþéttra hljóma ryþmasveitarinnar. Stundum jaðrar útkoman við að vera of mikið af því góða, en þeir komast þó rétt svo upp með það.

Söngvaranum Nic Offer tekst yfirleitt ágætlega upp þegar hann heldur sig við dansvænt kúlið þar sem hann getur hellt sér út í lögin af krafti og áhuga; þegar hann er að syngja partý-lög þar sem röddin ýmist bráðnar saman við grúvið eða stígur upp í falsettu sem Jake Shears gæti verið stoltur af. Hann tónar síðan ágætlega við gestasöngkonuna Sharon Funchess, sem syngur á móti honum í laginu „Heart of Hearts,“ en það lag hlýtur að stimpla sig inn síðar á árinu sem bullsveittur danssmellur. Offer fer hins vegar ekki eins vel með lög þar sem stemmingin er minni („Sweet Life“ og „Infinifold.“) Þar kemur vel í ljós að hann er takmarkaður söngvari og það skín í gegn að hann er meðvitaður um það. John Pugh fær að spreyta sig á söngnum í glam-slagaranum „Yadnus.“

Textarnir á þessari plötu eru með því ómerkilegra sem gerist á eyrinni (d: „Sha, sha, sha sha shadoobie/Sometimes it's really just like the movies“ – brrrr….) en tilgangurinn er svo sem að fá fólk til að hreyfa á sér skottið en ekki vekja það til umhugsunar um tilgang lífsins eða heimsins vandamál. Þeir bitna því lítið á heildarmyndinni. Það gerir hins vegar botn plötunnar, sem eiginlega dettur úr á síðustu metrunum og verður eftir einhvers staðar úti í móa. Hið rúmlega átta mínútna langa lag, „Bend Over Beethoven,“ hefur reyndar sitt hvað til síns ágætis, en verður að lokum endurtekningunni að bráð og hefði mátt stytta til muna. „Break In Case Of Anything“ hefur hins vegar fátt til síns ágætis, það er tilraunakennt gutl sem veit ekkert hvað það er að fara og lokalagið, „Infinifold,“ er síðan hreinlega furðulegt í samhengi við önnur lög á plötunni og verður best lýst sem sprunginni blöðru. Niðurstaðan er því sú að !!! eigi að halda sig við það sem þeir kunna best og það er að halda partý.

 

 
 

!!! spilar á Nasa, laugardagskvöldið 20. október, kl. 00:00

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.