• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Airwaves: Fimmtudagsdómar

  • Birt: 19/10/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

Airwaves: Fimmtudagsdómar

Fimmtudagskvöld Airwaves 07

Fimmtudagskvöld Iceland Airwaves. Umfjallanir Rjómans.is

„Ladies and gentleman, this is your captain speaking!" hljómaði í eyrum mér þegar haldið var á Listasafnið um átta leytið þetta fimmtudagskvöld. Kvöldið átti eftir að verða fullt af fjöri og frábærri músík.

Ampop:

Ampop er án efa ein stærsta popp/rokk sveit landsins um þessar mundir og var ekki við öðru að búast en að þeir skiluðu fínum tónleikum frá sér í Listasafninu. Sakleysisleg rödd Birgis ómaði um öll rými þegar ég gekk inn og tók ég strax eftir hversu góður hljómburðurinn og hljóðið í salnum var almennt. Rosalega flott. Lagið „Gets Me Down" hljómaði svo þegar ég haskaði mér út á vit frekari tónleika og ævintýra. Ampop gáfu mér ágætis vellíðunarsprautu fyrir framhaldið.

Ekkert er yndislegra á Iceland Airwaves heldur en þegar stórtónleikar eiga sér stað sitthvoru megin við götuna. Kerrang!-kvöldið á Gauk á Stöng var næst á dagskrá. Fámennt var á Gauknum þegar ég kom inn og tyllti ég mér í hornið og hóf ágætis spjall við Jari, síðhærðan og miðaldra Finna. Mjög fræðandi og skemmtilegt. Hátíðin býður ekki bara upp á músík.

Brain Police:

Eyðimerkurkóngar Íslands riðu á vaðið með slagara af nýjustu breiðskífu sinni „Beyond The Wasteland" og settu tóninn fyrir komandi hlaðborð af sveittu og keyrandi rokki. Gulli, fyrrum gítarleikari sveitarinnar, var mættur ferskur við hlið fyrrum félaga sinna á ný og stóð sig einkar vel. Smellurinn „Rocket Fuel" gerði svo allt vitlaust og átti Jenni, söngvari sveitarinnar, stórleik þetta kvöld. Barkinn í söngvaranum var svo sannarlega í frábæru formi. Sveitin er farin að banka ansi vel á dyrnar erlendis og eru þeir greinilega að nálgast toppinn. Enduðu þeir á ofur slagaranum „Taste the flower". Frábærir tónleikar og með þeim betri sem ég hef séð á þessari Airwaves hátíð.

Changer buðu svo upp á flottan harðkjarna en ég ákvað að fá mér ferskt loft og anda. Næstir á svið voru glysdrengirnir, leiddir af einum Ragnari Sólberg, Sign.

Sign:

Sign hafa verið að gera góða hluti í Bretlandi undanfarin misseri og munu þeir fylgja glysrokkbandinu Skid Row um England næstkomandi nóvember.Hljómsveitin fékk aðstoð frá meðlim Ten Steps Away og lék blöndu af nýju efni af tilkomandi plötu þeirra, The Hope. Söngurinn var góður og trommurnar klikkuðu ekki. Nýja efnið hljómaði vel og voru áhorfendur sáttir með sveitina. Það eina sem hefði mátt bæta var það að kynna hjálparsvein kvöldsins. Annars var allt í góðu hjá sveitinni og stefnan sem þeir eru að fylgja fyrir nýtt efni boðar gott. Þeir eru greinilega tilbúnir til að sigrast á erlendri grund í nóvember.

Rokkið hafði nú smellt smá suði í eyrun og hélt ég yfir á Hafnarhúsið í von um að hlýða á amerísku sveitina Grizzly Bear.

Grizzly Bear:

Ástfangnir voru ánægðir og var rómantík í loftinu þegar ég steig inn í Hafnarhúsið. Húsfyllir og góður andi bar með sér tónlist sveitarinnar. Fjórir talsins áttu þeir sýna spretti og voru raddanir frábærar sem og söngur. Þetta er sveit sem ég ætla án efa að kynna mér frekar. Sýrukennt popp-rokk og allt í góðu. Helst væri hægt að segja ögn „kjút".

Kvöldið ætlaði nú fljótlega að taka enda en ég ákvað að kíkja aðeins aftur á Gaukinn og sjá bandarískt pönk-rokk fyrir svefninn.

The Bronx:

Greinileg áhrif frá sveitum á borð við Refused og Dead Kennedys gerðu þessa sveit mjög áhugaverða en lítið meira en það. Ófrumleg en samt verulega þétt og góð sveit. Söngvarinn var frábær og var stemmingin góð. Greinilegt var þó hversu fáir könnuðust við sveitina. Mig langar samt til að sjá þá aftur og athuga hvort um öðruvísi sjónarhorn sé að ræða hjá undirrituðum í það skipti.

Þetta kvöld var á enda en ég fékk að heyra unaðslega tóna frá freku fólki á leiðinni heim. Það var svangt og vildi pepperonibát með mikilli sósu.

 

Daníel Guðmundur Hjálmtýsson

 

————————–


Ég brá mér í Smekkleysu kl. 4 á fimmtudegi til að sjá systurnar í Smoosh, enda hafði ég misst af þeim á miðvikudeginum á Nasa. Tónleikarnir voru reyndar á hæðinni fyrir ofan plötubúðina, í fatabúð sem ég kann ekki deili á, en þegar sveitin hóf leik var verslunin þétt skipuð fólki. Áheyrendur líkuðu vel tónlist Smoosh og saknaði ég þess strax að hafa ekki séð þær á alvöru tónleikum.

Strax að tónleikunum loknum brá ég mér í 12 tóna þar sem Khonnor var í þann mund að hefja leik. Meðlimir sveitarinnar (sem ég hef ekki hugmynd um hve margir eru) krupu við tæki og tól á gólfinu og sá þá enginn nema þeir sem fremst stóðu. Um verslunina ómaði suð og önnur rafeindahljóð í um 40 mínútur og virtust flestir gestir líka tónlistin vel. Sjálfum fannst mér ekki mikið til sveitarinnar koma en tónlistin var ágætis bakgrunnstónlist til að dreypa á hvítvíni sem í boði var.

Næst var Ólöf Arnalds á dagskránni og voru tónleikar hennar magnaðir. Hún spilaði úrval af lögum af Við og við auk eins nýs lag sem hljómaði ansi vel og lék svo eina ábreiðu á ensku fyrir erlendu gestina. Ólöf lét ekki smávægileg hljóðvandræði slá sig út af laginu og nálægðin og róin á tónleikunum myndaði einstaka persónulega stemmningu.

Það tók kanadísku sveitina Plants and Animals um 30 mínútur að koma sér fyrir og þegar þeir lóks hófu leik slitnaði strengur og fleiri vandræði tóku við. Þegar sveitin þurfti að græja trommusettið upp á nýtt ákvað ég að láta gott heita og sá því bara tvö lög með sveitinni en þau hljómuðu ansi vel og er óhætt að mæla með tónleikum þeirra í Iðnó á föstudagskvöld.

Ég hafði komist yfir frábæra smáskífu með sveitinni Slow Club svo ég var staðráðinn í að hefja kvöldið á tónleikum þeirra á Nasa. Sveitin er skipuð tveim ungum krökkum, strák sem söng og glamraði á gítar og stúlku sem spilaði á trommur og gamlan stól ásamt því að söngla með við og við. Í fyrsta lagi náði sveitin áheyrendum á sitt vald og renndi sér af öryggi í gegnum lögin sem voru hvert öðru betra. Það var ekki annað að sjá en allir tónleikagestir skemmtu sér konunglega og er undirritaður ansi spenntur að heyra plötu frá sveitinni.

Við tóku Best Fwends sem líklega var óhefðbundnasta sveitin á Nasa þetta kvöld. Tveir gaurar sátu á stólum á sviðinu á meðan þeir dútluðu í Airwaves pössunum sínum og röfluðu eitthvað saman yfir undirspili af iPoddi. Flestir áheyrendur klóruðu sér í hausnum en skyndilega spruttu gaurarnir á fætur og við tók brjáluð sviðsframkoma og náðu þeir fljótt upp góðu stuði í salnum. Tónleikarnir voru óútreiknanlegir og yfir heildina mjög skemmtilegir.

Retro Stefson voru næst á dagskránni og náðu að halda salnum heitum eftir stuðið á undan. Krakkarnir byrjuðu á lögunum um dópistana á Vitabar og jeppaeigandann Jón sem bæði voru bráðskemmtileg. Sveitin dalaði aðeins um miðbik tónleikana en náði sér svo vel á strik í smellinum Medallion. Retro Stefson sannaði að hún er ein áhugaverðasta sveit landsins og bíð ég spenntur eftir plötu frá krökkunum.

Í Iðnó var Ólöf Arnalds í þann mund að hefja leik þegar mig bar að garði. Prógrammið var u.þ.b. það sama og í 12 tónum fyrr um daginn en stærð tónleikastaðarins gerði það að verkum að tónleikarnir voru mun áhrifaminni. Skvaldur og annar hávaði í anddyri Iðnó skemmdi aðeins stemmninguna sem annars var fín.

Nú tók enn eitt valið við: um ellefuleytið voru spennandi tónleikar á flestum sviðum hátíðarinnar. Grizzly Bear í Hafnarhúsinu heillaði flesta enda var röðin þar ansi löng en ég ákvað hins vegar að skella mér á Skáta á Organ. Þeirri ákvörðun sá ég ekki eftir enda báru flestir Grizzly Bear ekki góða söguna. Það verður seint sagt að Organ hafi verið troðinn á Skáta tónleikunum en góðmennt var í salnum og flestir voru vel með á nótunum. „Þar sem heimskan er í hávegum höfð“ og „Mahatma Ghandi“ fór vel í hópinn og nýtt lag frá sveitinni hljómaði mjög vel. Tónleikarnir náðu þó mestum hæðum í lokalögunum tveim „Taco N’ Surf A Prayer“ og auðvitað „Skálholt“ þar sem allt ætlaði um koll að keyra en ég var ekki sá eini sem var vel sveittur að tónleikunum loknum.

Kvöldið endaði á Nasa þar sem breska sveitin Late of the Pier spilaði synthadrifið rokk. Tónlistin var nokkuð góð þótt lögin grípandi þótt þau væru ekki ýkja eftirminnirleg. Hljómsveitin hélt salnum vel og áheyrendur skemmtu sér flestir vel þótt líklega hafi fáir þekkt lögin. Það kæmi mér ekki á óvart að Late of the Pier myndu eiga nokkra smelli innan skamms og því alveg þess virði að hafa eyrun opin fyrir sveitinni í framtíðinni.

Það var víst ekki meira á dagskránni á fimmtudeginum og því tími kominn á að halda heim á leið. Flestir tónleikar dagsins voru mjög skemmtilegir og var þetta því hið fínasta Airwaves kvöld en að öðrum ólöstuðum stóðu tónleikar Slow Club og Skáta upp úr.

Pétur Valsson

 

 

1 Athugasemd

  1. Gummi · 22/10/2007

    Ég fílaði Grizzly Bear mjög vel, enda búinn að hlusta talsvert á þá. Ég fékk á tilfinninguna að fólk hafi hópast á tónleikana án þess að þekkja þá eða eftir að hafa heyrt bara eitt lag, því flestum kom greinilega á óvart hversu þungir og sýrðir þeir voru og höfðu þá eðlilega ekki mikla þolinmæði fyrir þeim. En eins og ég segi, ollu mér engum vonbrigðum, flottur hljómur, minntu mig jafnvel stundum á örlí Verve (sem er ekki verra)

Leave a Reply